BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Keflavík - Breiðablik í PEPSI mánudaginn 30. júlí kl. 19:15 !

27.07.2018

14. umferð PEPSI deildar karla hefst á sunnudaginn með 2 leikjum og lýkur með 4 leikjum á mánudagskvöld. Blikar skella sér þá suður með sjó til að etja kappi við lið Keflvíkinga í SunnyKef.

Keflvíkingar eru nú með 3 stig eftir 13 umferðir og vilja örugglega rífa sig upp eftir slæmt gengi undanfarið.

Blikum hefur hinsvegar gengið vel í síðustu leikjum. Eftir tvö 0-0 jafntefli í röð, gegn KA fyrir norðan og ÍBV í Eyjum, vann liðið 2-1 sigur á Fjölnismönnum á Kópavogsvelli og fylgdu þeim sigri svo eftir með sannfærandi 4-1 sigri á FH-ingum á Kópavogsvelli á sunnudaginn var.

Blikaliðið situr nú í 3. sæti deildarinnar með 25 stig, jafnmörg stig og Stjarnan sem er í 2. sæti, en 3 stigum á eftir Valsmönnum sem eru á toppi deildarinnar með 28 stig.

Sagan

Keflavíkurliðið er sá andstæðingur sem Breiðablik hefur oftast keppt við í opinberum mótum frá stofnun knattspyrnudeildar Breiðabliks árið 1957.

Samkvæmt vef KSÍ hafa lið Breiðabliks og Keflvíkinga mæst 77 sinnum í opinberum mótsleikjum frá árinu 1962. Blikar leiða með 33 sigra gegn 30 sigrum Keflavíkurliðsins. Jafnteflin eru 14. Skoruð mörk eru 271 og skiptast þannig að Blikar hafa skorað 127 mörk gegn 144 mörkum Keflvíkinga.

Reynar er Mótsleikjafjöldinn 119 leikir þegar búið er að bæta við leikjum sem ekki eru skráðir á vef KSÍ. Um er að ræða 3 leiki í gömlu B-deildinni og 37 leiki í Litlu bikarkeppninni árin 1965 - 1995. Sá fyrsti, sem er jafnframt fyrsti opinberi leikur liðanna frá uppafi, er 8:0 tap Blika gegn Keflavík á Njarðvíkurvelli 23 júní 1957 - árið 1957 var fyrsta árið sem Breiðablik sendi lið til keppni í meistaraflokki. Síðari 2 leikirnir voru í gömlu B-deildinni árið 1962. Leikur 24. júní 1962 tapaðist 2:3. Leikurinn var heimaleikur Breiðabliks og spilaður á gamla Melavellinum sem þá var heimavöllur Breiðabliks þar til Vallargerðisvöllur í Kópavogi var vígður árið 1964. Hinn leikurinn 1962 fór fram í Keflavík og tapaðist 8:2. Og svo eru það 37 leikir í Litlu bikarkeppninni eins og áður segir.

Efsta deild

Viðureignir liðanna í efstu deild eru55 leikir. Fyrsti efstu deildar leikur liðanna var árið 1971 – árið sem Breiðablik lék fyrst í efstu deild. Í 55 efstu deilar viðureignum liðanna hafa Keflvíkingar unnið 23 leiki, Breiðablik 19 og jafntefli er niðurstaðan í 13 leikjum. Markatalan er 97-83 Blikum í óhag. 

En ef við færum okkur aðeins nær í tíma og kíkjum á tölfræðina, eins og hún er eftir að Blikar koma aftur upp í efstu deild árið 2006, þá fellur tölfræðin með Blikum. Í 21 efstu deildar leik liðanna frá 2006 til 2018 leiða Blikar með 10 sigra gegn 5 sigrum Keflvíkinga. Jafnteflin eru 6. Liðin skora 76 mörk í þessum leikjum.

Síðasti leikur

Breiðabliksliðið hafði betur í miklum baráttuleik í fyrri viðureign liðanna á Kópavogsvelli í sumar. Það var Gísli Eyjólfsson sem skoraði eina mark leiksina á 37. mín.

Síðustu 5 í Keflavík

2015 síðasti leikur Blika gegn Keflavík í efstu deild í Keflavík var 1-1 jafntefli í maí 2015. Blikar jöfnuðu leikinn þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma með aukaspyrnumarki Guðjóns Péturs Lýðssonar. Ellert Hreinsson skoraði 2 mörk í leiknum sem voru ranglega dæmd af vegna rangstöðu.

2014 tapa Blikar 2-0. Elías Már Ómarsson gerði bæði mörk Keflvíkinga.

2013, nánar til tekið 14. júlí, vinna Blikar góðan 2-1 sigur í Keflavík með mörkum Guðjóns Péturs Lýðssonar og Andra Rafns Yeomans. Fróðleikur: Það var stutt á milli leikja hjá Blikum í júlí 2013 því blikar voru þá á fullu í Evrópukeppni. Voru nýkomnir frá Andorra þar sem þeir tryggðu sér áfram eftir 0-0 jafntefli gegn liði FC Santa Coloma. Blikar höfðu unnið fyrri leikinn á Kópavogsvelli 4-0 og tryggt sig áfram gegn Sturm Graz frá Ausurríki. En FC Santa Coloma er sama félagið og Valsmenn gerðu töpuðu gegn í Andorra á fimmtudaginn.

2012 vinna Blikar gríðarlega mikilvægan sigur í 5 marka leik með mörkum frá Kristni Jónssyni, Elfari Árna Aðalsteinssyni og Nichlas Rohde. Sigurinn hélt lífi í Evrópudraumnum.

2011 gera liðin 1-1 jafntefli. Tóma Óli Garðarsson skoraði mark Blika á 19. Mín áður en Jóhann Birnir Guðmundsson jafnar fyrir Keflavík á þeirri 43.

Leikmannahópurinn 2018

Leikmannahópur Blika tekur sífelldum breytingum. Í gær (fimmtudag) skrifaði Sveinn Aron Guðjohnsen undir 3 ára samning við Ítalska liðið Spezia. Í júní skrifaði Danski framherjinn Thomas Mikkelsen undir 2 ára samning við Breiðablik. Í sama mánuði skrifaði Hrvoje Tokic undir samning við Selfoss. Og fyrir mót kom Jonathan Hendrickx til okkar eins og allir vita. Arnór Gauti snéri aftur heim eftir dvöl í Eyjum í fyrra. Og Guðmundur Böðvar Guðjónsson koma til okkar frá  ÍA. Alexander Helgi Sigurðarson náði sér á strik sér eftir langvarandi meiðsli og var lánaður Ólafsvíkur þar sem hann er að fá spiltíma. Oliver Sigurjónsson kom aftur til okkar í bili og samkvæmt fréttum eru líkur á að hann verði hjá okkur út tímabilið. Leikmannahópur Blika 2018

Guðmundur Steinarsson

 “Það var skrýtin tilfinning að mæta Keflavík í fyrsta sinn á ferlinum fyrr í sumar á Kópavogsvelli en að koma í fyrsta sinn á sinn gamla heimavöll er líka sérstakt. Þarna upplifði ég mínar bestu og jafnframt verstu stundir ferilisins, planið er að eiga eina af þeim betri á mánudaginn á þjálfaraferlinum í SunnyKef” sagði aðstoðarþjálfarinn Gummi Steinars þegar blikar.is náði tali af honum eftir æfingu, en ekki er hægt að fjalla um Keflavíkurliðið án þess að nafn Guðmundar Steinarssonar komi upp í hugann. Hann er bæði marka- og leikjahæsti leikmaður Keflavíkurliðsins frá upphafi með 244 leiki og 81 mark í A-deild fyrir liðið.

Leikur Breiðabliks og Keflavíkur verður á Nettóvellinum klukkan 19:15 á mánudaginn. Veðurspáin er ágæt þegar þetta er skrifað.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka