Komnir í toppbaráttuna
29.05.2015Góður 0:1 sigur á Skagamönnum á útivelli fleytir okkar drengjum upp í toppbaráttuna í Pepsí-deildinni. Arnþór Ari skoraði hið dýrmæta mark á 68. mínútu eftir frábæra sendingu Guðjóns Péturs. Það er hins vegar smá áhyggjuefni hve illa okkur gengur að klára færin því í raun og veru hefðum við átt að skora að minnsta kosti 3-4 mörk í viðbót. En sem betur fer voru heimapiltar arfaslakir og ógnuðu okkur i raun aldrei.
Arnar og Kristófer tefldu fram óbreyttu liði frá síðasta nema að Arnór Sveinn var mættur aftur í bakvörðinn eftir tveggja leikja fjarveru vegna höfumeiðsla. En liðið var þannig skipað;
1. Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m) - 3. Oliver Sigurjónsson - 4. Damir Muminovic - 5. Elfar Freyr Helgason - 7. Höskuldur Gunnlaugsson - 8. Arnþór Ari Atlason - 10. Guðjón Pétur Lýðsson - 22. Ellert Hreinsson - 23. Kristinn Jónsson - 29. Arnþór Sveinn Aðalsteinsson - 30. Andri Rafn Yeoman -
Varamenn: 24. Aron Snær Friðriksson (m) - 6. Kári Ársælsson - 9. Ismar Tandir - 19. Gunnlaugur Hlynur Birgisson - 20. Atli Sigurjónsson - 28. Davíð Kristján Ólafsson - 31. Guðmundur Friðriksson
Atli skipti síðan við Guðjón Pétur í síðari hálfleik og Ismar Tandir kom inn á fyrir Ellert undir lok leiksins.
Fyrri hálfleikur var mjög rólegur og gátu áhorfendur í raun skemmt sér betur við að fylgjast með grasvextinum á vellinum en tilþrifum leikmanna.
Okkar drengir héldu boltanum þokkalega en sóknaruppbyggingin var afskaplega hæg. Oft hafði maður á tilfinningunni að leikmenn væru eingöngu í fyrsta og öðrum gír en hefðu gleymt öðrum gírum heima.
Skagamenn báru greinilega mikla virðingu fyrir okkar mönnum og vörðust á mörgum leikmönnum. Eina markverða tækifæri hálfleiksins fékk Kristinn Jónsson en markvörður þeirra gulklæddu varði vel frá honum.
Í síðari hálfleik komu okkar drengir betur stemmdir og tóku í raun öll völd á vellinum. Boltinn gekk mun hraðar á milli manna og við fengum mörg ágæt tækifæri til að skora. En einhvern veginn voru okkur mislagðir fætur upp við markið.
Arnþór Ari gerði þó vel þegar hann setti boltann í netið eftir fína sókn okkar pilta og frábæra sendingu Guðjóns Péturs. En Arnþór fékk tvö önnur upplögð marktækifæri en tókst ekki að reka endahnútinn á sóknirnar frekar en öðrum grænklæddum leikmönnum inn á vellinum. Betra lið hefði getað refsað okkur en sem betur fer voru Skagadrengir mjög slakir í síðari hálfleik þannig að þetta eina mark dugði okkur til sigurs.
Það er þó ágætur stígandi í Blikaliðinu. Eftir því sem vellirnir verða grænni og aðstæður batna til knattspyrnuiðkunar þá vaxa gæðin hjá okkur. Við eigum fullt inni og eigum bara eftir að verða betri. Varnarlínan stóðst allar árasir þeirra gulklæddu enda voru þær í raun fáar og máttlausar. Það var í raun bara Garðar Gunnlaugsson Skagamaður sem var ógnandi. Eftir að hann fór út af þá var engin ógnun í Skagaliðinu. Það var í raun neyðarlegt að fylgjast með Skagamönnum undir lok leiksins elta okkar menn langt inn á sínum eigin vallarhelmingi. Við létum boltann ganga manna á milli á meðan við biðum eftir því að dómarinn flautaði leikinn af. Elfar Freyr og Damir stóðu sig vel í miðju varnarinnar. Arnór Sveinn og Kristinn voru traustir í bakverðinum. Arnór á greinilegt eitthvað í land að ná fullum styrk en það kemur. Kristinn var ógnandi fram á við að vanda en ,,svindlar“ stundum fullmikið á varnarhlutverkinu. Það gæti komið okkur í bobba á móti sterkari liðum. Oliver fer vaxandi með hverjum leiknum sem brimbrjótur á miðjunni og braut margar sóknir Skagamanna á bak aftur. Arnþór Ari er mikill happafengur fyrir félagið. Hann er duglegur, skorar mörk og kemur sér í fullt af færum. Hann á bara eftir að verða betri!
Ekki má gleyma stuðningnum úr stúkunni. Kópavogsbúar fjölmenntu upp á Skaga og studdu vel við Blikaliðið. Kópacabana drengirnir mættu ágætlega og létu vel í sér heyra. Þeir og reyndar allir stuðningsmenn Blikar mættu þó vera duglegri að mæta í grænu eða merkja sig félaginu á einhvern hátt. Fólk er í svörtum og bláum og rauðum og gulum úlpum, peysum, yfirhöfnum en allt of fáir í Blikabúning eða á annan hátt græn í gegn. Við mættum öll taka Gunnar Jónsson lögmann til fyrirmyndar sem alltaf mætir í Blikatreyjunni sama hvernig sem viðrar. Hann veigrar sér ekki við að troða sér í græna treyjuna yfir 2-3 peysur og lætur vel í sér heyra. Takk Gunnar!
Á sunnudaginn er síðan stórleikur gegn Stjörnunni kl.20.00 á Kópavogsvelli. Þá reynir nú heldur betur á Blikaliðið. En leikurinn við Skagann var ágæt upphitun fyrir þann leik. Þá verða stuðningsmenn Blika að fjölmenna á völlinn enda tími til kominn að nágrannar okkar tapi leik á Íslandsmótinu!
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar.