- Byrjunarlið Blika ásamt lukkustrákum Breiðabliks. Mynd: HVH
- Oliver fagnar marki sem hann skoraði af 24 metra færi og boltinn steinlá í netinu. Mynd: HVH
- Arnór Gauti og Kolbeinn komu inn í byrjunarliðið. Mynd: HVH
- Kopacabana drengirnir eru risnir upp frá dauðum og er það sérstaklega ánægjulegt og ekki seinna vænna. Mikill hávaði og stuð í 90+7 mínútur. Það var gaman og veri þeir velkomnir á næsta leik líka. Mynd: HVH
- Það fór ónotahrollur um áhorfendur þegar Jonathan Hendrickx hneig skyndilega niður þegar skammt var til leiksloka. Af Jonathan er allt gott að frétta og eftir frekari rannsóknir er ljóst að ekkert alvarlegt skapaði þetta ástand og er hann allur að hressast. Mynd; HVH
KR slapp með skrekkinn!
31.05.2018
Blikar tóku á móti KR í gærkveldi í 16.liða úrslitum Mjólkurbikarsins og er óhætt að segja að aðstæður hafi verið með besta móti í dalnum. Örlaði á sumri með hægri golu, 12 stiga hita og sólskini og því aðeins hrollkalt í stúkunni, en völlurinn fagurgrænn og rennisléttur að sjá. En þökk sé þeim sem ákváðu að snúa stúkunni undan sól því eins og allir vita sem kynnst hafa er algjörlega óbærilegt, að sitja í íslensku sólskini á knattspyrnuleik, eða þannig. Kolbeinn kafteinn myndi orða þetta einhvern veginn svona;…. Nei annars, við skulum sleppa því.
Blikar gerðu nokkrar breytingar á liðinu frá tapinu gallsúra gegn Val á dögunum og þær helstar að Arnór Gauti, Viktor Örn og Kolbeinn komu inn í byrjunarliðið í stað Sveins Arons, Andra Rafns og Arons Bjarnasonar.
Byrjunarlið Blika: KSÍ.is og Úrslit.net
Sjúkralisti: Willum Þór.
Leikbann: Enginn.
Blikar hófu þennan leik af krafti og er skemmst frá því að segja að boltinn lá í netinu í fyrstu almennilegu tilraun okkar manna. Aðdragandinn var mjög flottur. Boltinn barst til Arnórs Gauta út við hliðarlínu og hann var með mann í bakinu (gamlan Blika). Eins og hendi væri veifað sneri hann á varnarmanninn með laglegri gabbhreyfingu og kom boltanum á Davíð sem sendi fastan bolta fyrir markið. Varnarmaður KR komst fyrir sendinguna á undan Gísla sem kom á fleygiferð inn í teiginn, en það reyndist skammgóður vermir fyrir gestina því boltinn barst á Oliver sem lét vaða á markið, viðstöðulaust af 24 metra færi og boltinn steinlá í netinu. BÚMM ! 1-0 fyrir Blika. KR ingar virtust slegnir útaf laginu og Blikar héldu áfram að herja á þá næstu mínútur og ógnuðu marki gestanna í þrígang en ekki hægt að segja að það hafi verið alvöru færi. Eftir þetta róaðist leikurinn heldur og það var einna helst í kringum geðvonskuköst leikmanna KR sem lifnaði yfir leiknum. En fátt sem gladdi augað. Dómarinn með mjög skrítna línu og greinilegt að það er ekki lengur verið að taka á tuðinu og röflinu. Davíð Kristján fékk gult spjald fyrir leikaraskap KR ings nr. 22 sem hafði sjálfur brotið á Davíð. Bakhrinding sem var augljós. Þetta var fáránlegur dómur. Leikmaður nr. 10 hjá KR komst upp með a.m.k 4 slíkar í fyrri hálfleik og hélt uppteknum hætti í þeim síðari, átölulaust. Blikar voru mun betri aðilinn það sem eftir lifði hálfleiks og áttu slatta af færum og skotum á mark en markvörður KR sá við þeim öllum. Sérstaklega var það snaggaralega gert hjá honum þegar Kolbeinn slapp í gegn á lokamínútu hálfleiksins. Forysta Blika í hálfleik var verðskulduð og hefði gjarnan mátt vera meiri. 1-0 alltof lítil uppskera.
Hálfleikskaffið var með fámennara móti enda mæting á völlinn ekkert sérstök. Rétt slefaði yfir þúsundið. Það er gömul saga og ný að þeir úr póstnúmeri 107 eru lítið fyrir ferðalög í Kópavoginn. Fara enda iðulega tómhentir heim, þó á því séu þó undantekningar. Blikar voru óskiljanlega fáir. Snúðar og flatbökur voru legíó og rann það allt ljúflega niður með kaffinu. Takk fyrir mig.
Síðari hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri. Færin og skotin flest frá Blikum og markvörður gestanna í aðahlutverki. Blikar áttu urmul efnilegra upphlaupa en líkt og í leiknum gegn Val gekk illa og reyndar alls ekki að koma tuðrunni í netið. Flott upphlauð runnu hvað eftir annað út í sandinn. Með 1-0 forystu er það oft ávísun á vandræði. Blikar sendu Svein Aron inná í stað Arnórs Gauta. Arnór Gauti með fínan leik, barðist eins og ljón og lét andstæðingana finna vel fyrir sér. Hefði þó átt að setja mark í fyrri hálfleik þegar hann slapp í gegnum vörn gestanna en náði ekki almennilegu skoti. En flott frammistaða engu að síður. Gestirnir gerðu líka breytingar og freistuðu þess að lífga upp á sinn leik. Blikar héldu frumkvæðinu í leiknum og héldu uppteknum hætti að koma boltanum næstum því í mark. Skutu og skutu á markið en markvörður gestanna í yfirvinnu sem fyrr og varði allt sem að kjafti kom. KR ingar fengu sömuleiðis nasasjón af okkar marki en náðu ekki að nýta þessa fáu sénsa sem gáfust. Voru þó nærri því þegar Elfar þurfti að elta Atla Sigurjónsson inn í vítateig. Sá síðarnefndi missti jafnvægið og skotið geigaði. Þar munaði hársbreidd. Þetta var besta (og eina) færi gestanna í leiknum. Eitthvað var Elfar ósáttur við Atla og fékk gult spjald að launum. Algjör óþarfi. Og lét svo reka sig í sturtu með annað gult og þar með rautt fyrir kjaftbrúk, eftir leik. Hverslags rugl er það? Hvað er sektin há fyrir svona bull?
Það fór ónotahrollur um áhorfendur þegar Jonathan Hendrickx hneig skyndilega niður þegar skammt var til leiksloka. Starfsmenn leiksins og Böðvar Sigurjónsson læknir hlúðu að kappanum áður en hann var fluttur á sjúkrahús. Vonandi jafnar hann sig fljótt og vel og af fréttum að dæma er hann á batavegi. Aron Bjarnason kom inn fyrir hann. Blikar sóttu áfram án afláts og komu sér í ágæt skotfæri en sem fyrr án árangurs. Skotin fóru flest á markið og það er í sjálfu sér framför frá því í fyrra, sum fóru naumlega framhjá en inn vildi boltinn alls ekki. Kolbeinn Þórðarson fór útaf þegar einungis uppbótartíminn var eftir og Guðmundur Böðvar kom í hans stað. Kolbeinn með fínan leik og var óheppinn að skora ekki mark. Lokamínúturnar liðu án stórtíðinda en Blikar héldu áfram að reyna á markmann gestanna þar til dómarinn lét gott heita. Þá var bar kjaftbrúkið í Elfari eftir og við það sat.
Blikar léku nokkuð vel í þessum leik og sérstaklega er vert að minnast á frammistöðu þeirra sem komu ferskir inn í byrjunarliðið. Allir skiluðu þeir sínu með miklum ágætum. Blikar voru með góð tök á leiknum lengst af og gestirnir náðu sjaldan að ógna okkar marki. Það ,,eina“ sem vantaði upp á og er aðalatriðið er að skora fleiri mörk. Mýgrútur af tækifærum í þessum leik en uppskeran allt of rýr. Þarna þarf að gefa í.
Kopacabana drengirnir eru risnir upp frá dauðum og er það sérstaklega ánægjulegt og ekki seinna vænna. Mikill hávaði og stuð í 90+7 mínútur. Það var gaman og veri þeir velkomnir á næsta leik líka.
Næsti leikur Blika er á sunnudag gegn Stjörnunni og það er leikur sem við þurfum að vinna. Blikaliðið er í flottu standi með gott sjálfstraust og á fínum stað í töflunni. Nú má enginn klikka.
Leikurinn hefst stundvíslega kl. 20:00.
Við mætum.
Áfram Breiðablik !
OWK