- Byrjunarlið Blika ásamt Lukku-Blikum. Mynd: HVH
- Thomas skoraði fyrra jöfnunarmarkið. Mynd: HVH
- Brynjólfur skoraði seinna jöfnunarmarkið. Markið var fyrsta mark hans í meistaraflokki. Mynd: HVH
- Gunnleifur ver víti. Mynd: HVH
- Damir tók lokavítið og skoraði af fádæma öryggi. Menn hafa fagnað af minna tilefni. Mynd: HVH
- Ég kaus að sitja sólarmegin í gömlu stúkunni en fyrir vikið heyrði ég betur en ella þvílíkan stuðning Kópacabana og félagar veittu okkar mönnum. Ég hef aldrei upplifað aðra eins stemmningu á Kópavogsvelli. Mér er nær að halda að þetta hafi riðið baggamuninn í þessum hádramatíska bikarleik.
- Lykilmenn fagna ótrúlegum sigri. Mynd: HVH
Kraftaverk á Kópavogsvelli
17.08.2018Það var sól og blíða á Kópavogsvelli þegar Víkingar frá Ólafsvík komu í heimsókn. Í húfi var hvorki meira né minna en úrslitaleikurinn í bikarkeppni KSÍ á Laugardalsvelli í september. Blikar á toppi Pepsi-deildarinnar. Víkingar að ströggla í toppbaráttunni einni deild neðar.
Auðveldur leikur framundan, sögðu margir. „Greið leið fyrir Blika?“ spurði sjálft Morgunblaðið.
Ég man hins vegar þegar Ólsarar voru nýkomnir upp um deild, mættu okkur í fyrsta leik og áttu að vera auðveld bráð. Tokic skoraði tvö glæsileg mörk og tryggði nýliðunum sigur.
Liðsuppstilling Blika var nokkuð hefðbundin, Gunnleifur í markinu, Davíð, Damir, Viktor Örn og Hendrickx í vörninni, Andri Rafn og Willum Þór á miðjunni, Aron, Gísli og Arnþór Ari þar fyrir framan og Thomas fremstur. Nánar.
Strax á annarri mínútu missti Damir boltann klaufalega í innkast sem gaf svolítið tóninn. Það var eitthvert kæruleysi yfir liðinu, eins og menn litu á þetta nánast sem formsatriði. Jú, það voru sóknir og laglegt spil en engin stórhætta við mark gestanna, skot yfir markið osfrv. Varnarmúr Ólsara var þéttur.
Á 22. mínútu virtist stórslys hafa orðið. Markvörður Víkinga lá að því er manni sýndist nær dauða en lífi eftir að hafa varið boltann í horn. Það var eins og hann hefði lesið of mikið af bréfum Jóhanns Jónssonar skálds frá Ólafsvík sem hann sendi æskuvini sínum Friðriki Friðrikssyni, síðar presti á Húsavík. Þótt það sé utan við efni þessa pistils þá var Friðrik faðir Birnu fyrrverandi bæjarfulltrúa í Kópavogi. Í einu af þessum bréfum segir Jóhann: „Ég get ekki lifað. En ég þori ekki að deyja. Hvað er lífið? Óendanlega stór hrúga af brotum, brostnum vonum.“ En tími kraftaverkanna er ekki liðinn. Markvörðurinn reis upp frá dauðum og kláraði leikinn með nokkrum sóma.
Nokkrum mínútum síðar, á þeirri 31. átti ég mitt Steve McLaren augnablik. Flestum er enn í fersku minni þegar hann var sérfræðingur á leik Íslands og Englands á EM og lýsti fjálglega yfirburðum sinna manna fyrir umheiminum. Undir þeirri lærðu ræðu skoraði Ísland. Ég hallaði mér semsé að eiginkonunni og sagði spekingslega: „Þetta er nú ekki burðugt lið.“ Í því skoruðu Víkingar eftir hornspyrnu. Þremur mínútum síðar komst leikmaður gestanna einn í gegn en Gulli varði meistaralega í horn. Og ég hugsaði með mér, rétt eins og Jóhann Jónsson forðum: „Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað!“
Í síðari hálfleik var eins og annað Blikalið væri komið inn á völlinn. Hraðinn var miklu meiri, þó að misheppnaðar sendingar væru fullmargar, en að sama skapi jókst dauðageigur gestanna. Hvenær sem heimamaður nálgaðist, hnigu þeir niður, hvort sem þeir brutu á andstæðingi eða brotið var á þeim. Það var eins og Jóhann segir í einu bréfa sinna til séra Friðriks vinar síns: „Og dauðinn bíður mín. Hvað er dauðinn! Einhver hræðileg íshönd, einhver altortímandi ófreskja sem er að eta lífið upp.“ Á þessum tíma virtist sjúkraþjálfari gestanna hlaupa manna mest á vellinum, var með fastar áætlunarferðir inn á völlinn og út aftur eftir að hafa læknað með kraftaverkum sínum „örkumla, blinda og halta,“ eins og segir í helgri bók.
Jöfnunarmarkið lá í loftinu. Á 60. mínútu var sem fjandinn yrði laus. Willum virtist felldur fólskulega inni í teig en ekkert dæmt, Aron náði boltanum og þrumaði honum í slána, Thomas var fyrstur að átta sig og skaut föstu skoti á markið en boltinn fór í samskeytin. Hér mætti vísa í hurðir og hæla!
Sjö mínútum síðar var varnarmaður Ólsara að dóla með boltann við eigin vítateig, líklega að raula Vögguvísu Jóhanns Jónssonar: „Þey, þey og ró. / Þögn breiðist yfir allt.“ En róin var nú ekki meiri en svo að okkar maður, Thomas, tók af honum boltann og skoraði.
Áfram héldu okkar menn að sækja eins og raunar allan leikinn. Aftur á móti var lítið að gerast hjá Ólsurum, nema í nauðvörninni. Maður hélt að sigurmarkið kæmi í lokin en það gekk ekki. Hins vegar áttu gestirnir hættulega sókn á lokasekúndu uppbótartímans en skotið sleikti stöngina. Úff.
Framlengingin fór fjörlega af stað, Arnór, sem hafði komið inn á fyrir Arnþór Ara, átti fínt skot á 7. mínútu hennar og á 13. mínútu prjónuðu þeir Thomas sig í gegnum vörn Víkinga en sá danski skaut framhjá í erfiðri stöðu.
Ég vil taka skýrt fram að ég var ekki farinn að íhuga annan spekingslegan frasa um lið gestanna þegar þeir fengu ódýra aukaspyrnu á vítateigshorninu vinstra megin. Upp úr henni skoruðu okkar menn furðulegt sjálfsmark. Og allt í einu var þetta orðið býsna tæpt. Ég skal viðurkenna að mér var farið eins og Jóhanni skáldi í einu bréfanna – var „sem strá af vindi skekið. Friðlaus, fálmandi. Vonlaus, örvæntandi.“
Síðari hálfleikur framlengingar hófst. Nú átti greinilega að tjalda öllu til. Damir sendur í fremstu víglínu og háum boltum dælt fram. Okkar menn fengu fjöldann allan af aukaspyrnum sem lítið kom út úr, það var eins og heilladísirnar hefðu yfirgefið Smárann. Og skyndilega var Ólsari á auðum sjó, einn á móti Gulla, sem tókst með einhverjum óskiljanlegum hætti að verja skot eins og besti handboltamarkaður. „Þú ert gælubarn gæfunnar,“ hugsaði ég eins og Jóhann Jónsson segir í einu bréfanna (að vísu um sjálfan sig), þar sem Gulli skildi Ólsara eftir í rykinu úti á miðjum velli, sendi boltann fram og hélt þannig sókninni gangandi.
Þarna voru komnar 120 mínútur á klukkuna og góð ráð dýr. Jafnvel örvænting komin í spilið og haustljóð í vindinn. En þá gerðist það. Brynjólfur Darri sem hafði leyst Willum bróður sinn af hólmi fékk boltann við hægra vítateigshornið, æddi áfram af einurð og djörfung og þrumaði boltanum efst í vinstra markhornið. Þetta reyndist lokaspyrna leiksins. Einhverjir kynnu að tala hér um kraftaverk – aðrir sanngjarna uppskeru.
Vítaspyrnukeppnin var eins og gefur að skilja æsispennandi, þó fannst manni sigurinn alltaf vera í hendi. Gulli varði víti, annað fór í slána hjá gestunum, markvörður gestanna – sem enn var lifandi – varði frá Davíð en Thomas, Arnór Gauti og Kolbeinn skoruðu úr sínum spyrnum. Damir tók lokavítið og skoraði af fádæma öryggi. Menn hafa fagnað af minna tilefni.
Það fór eins og mann grunaði. Víkingur Ólafsvík var sýnd veiði en ekki gefin. Þeir náðu tvívegis forystunni – vissulega gegn gangi leiksins – en það er víst ekki spurt að því. Varnarleikur þeirra var afar traustur og þeir gáfu fá færi á sér. Þeir sköpuðu sér heldur ekki mörg – en þau voru býsna hættuleg og skiluðu tveimur mörkum. Vissulega gætti áhrifa Jóhanns Jónssonar í framgöngu þeirra en ólíklegt er þó að þeir hafi rekist á skáldið í Ólafsvík þar sem hann lést úr berklum í Leipzig árið 1932.
Leikurinn var fínasta skemmtun, bauð upp á mikla dramatík, gríðarlega spennu, falleg mörk – en líka aulaleg, eins og gengur – en upp úr stendur að Blikar stóðust prófið og Víkingar sátu eftir með sárt Ólafsvíkurennið.
Ég kaus að sitja sólarmegin í gömlu stúkunni (þar sem ég sá Blika vinna Víking Ólafsvík 11-0 árið 1975) en fyrir vikið heyrði ég betur en ella þvílíkan stuðning Kópacabana og félagar veittu okkar mönnum. Ég hef aldrei upplifað aðra eins stemmningu á Kópavogsvelli. Mér er nær að halda að þetta hafi riðið baggamuninn í þessum hádramatíska bikarleik.
Það verður sannarlega gaman að mæta Stjörnunni á Laugardalsvelli þann 15. september en fyrst eru það Valsmenn á heimavelli á mánudaginn í sannkölluðum toppslag!
PMÓ