Kristinn Jónsson ólöglegur í gær
10.03.2015Vinstri bakvörðurinn knái Kristinn Jónsson var ólöglegur í leik Breiðabliks og ÍBV í gærkvöld en leikurinn endaði 2-0 fyrir okkar mönnum. Það þýðir að ÍBV verður dæmdur 3-0 sigur.
Málavextir eru þeir að Kristinn Jónsson var lánaður til sænska liðsins Brommapojkarna í upphafi árs 2014 og átti að koma aftur yfir til Breiðabliks að lánstímanum loknum skv. samningi.
Þegar félagaskipti v/láns eiga sér stað milli landa þarf að tilkynna það sérstaklega, ólíkt því sem viðgengst hér heima þegar leikmenn koma sjálfkrafa til baka úr sínum lánsfélögum.
Þetta var því miður ekki gert og engar athugasemdir komu fram þegar Kristinn var settur á leikskýrsluna, sem gerð var rafrænt fyrir leik liðanna í gær, enda leikmaðurinn samningsbundinn Breiðablik.
Þetta er að sjálfsögðu hundfúlt fyrir okkar menn í þeirri baráttu sem framundan er í Lengjubikarnum en það er ekkert annað að gera en að halda áfram og vinna bara næsta leik.
Áfram Breiðablik.