BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Kristinn sá um ÍBV

10.03.2015

Kristinn Jónsson sýndi það og sannaði í gær gegn ÍBV að hann er einn besti bakvörður í íslenska boltanum. Hann átti frábæran leik eftir að hann kom inn á sem varamaður og hafði skorað eitt mark og lagt upp annað áður en yfir lauk í 2:0 sigri Blika á Vestmannaeyingum í Lengjubikarnum. Sigur Blikaliðsins var fyllilega verðskuldaður en Eyjamenn börðust vel að vanda og létu okkar menn hafa fyrir hlutunum allan leikinn.

Leikurinn fór fram í kuldahöllinni á Akranesi þar sem ágætur hópur Blika fylgdist með sínu liði og barði sér til hita í stúkunni. Stöðubarátta einkenndi leikinn í upphafi en smám saman náðum við völdum á miðjunni. Við áttum nokkrar ágætar sóknir en eins og í undanförnum leikjum er eins og okkur vanti örlítinn brodd í sóknarleikinn. Að vísu náði Ellert Hreinsson að setja eitt mark en það var ranglega (að mati allra Blika í stúkunni) dæmt af vegna rangstöðu. Eftir rúmlega hálftíma leikinn þurfi Guðmundur Friðriksson að yfirgefa völlinn vegna meiðsla en ekki er vitað á þessari stundu ef þau meiðsli eru alvarleg. Inn á kom Kristinn Jónsson í sinum fyrsta leik fyrir Blikaliðið eftir að hann kom frá Svíþjóð. Hann átti heldur betur eftir að breyta leiknum.

Í leikhléi komu síðan Oliver Sigurjónsson og Guðjón Pétur inn á fyrir Gunlaug og Arnþór Ara. Í raun má segja að Blikar hafi tekið öll völd á vellinum í síðari hálfleik. Það var unun að sjá boltatæknina og yfirvegunina hjá Kristni á vinstri kantinum og áttu Vestmanneyingar í mestu vandræðum að hemja hann. Hann renndi sér fram og aftur kantinn vel mataður af Guðjóni Pétri og Andra Rafni. Eftir eina slíka sókn komst Kristinn upp kantinn eftir flotta einleik Andra Rafns og átti frábæra fasta sendingu niðri fyrir markið og þar kom Davíð og sendi boltann í hornið með hnitmiðuðu skoti.

Kristinn sýndi síðan snilli sína tíu mínútum fyrir leikslok. Eftir að Blikar höfðu spilað knettinum alla leið frá vörninni hægra megin þá átti Guðjón Pétur snilldarsendingu inn fyrir vörnina hjá ÍBV, þar hristi Kristinn af sér varnarmenn Eyjamanna og vippaði síðan knettinum yfir Guðjón markvörð úr þröngri stöðu. Þar með var björninn unninn og þrátt fyrir krampakenndar tilraunir Eyjadrengja þá náðu þeir ekki að ógna marki Blika að neinu ráði.

Eins og oft áður var vörnin sterkasti hluti Blikaliðsins. Elfar Freyr og Damír ná orðið mjög vel saman í miðju varnarinnar  og með hina sókndjörfu bakverði Arnór og Kristinn þá verður þetta aö öllum líkindum okkar sterkasta vopn í sumar. Mikil barátta er um sæti á miðjunni og er það af hinu góða. Hins vegar verður að hrósa Andra Rafni og Guðjóni Pétri fyrir snilldarsendingar í báðum mörkunum.

Sóknarleikurinn er enn spurningamerki en við höfum enn um tvo mánuði til að vinna í því.

Leikurinn var sýndur beint á sporttv.is. Smella hér til að sjá helstu atvik úr leiknum.

Leikskýrsla KSÍ

-AP

Til baka