BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Kúrdabella !!

22.05.2013

Blikar mættu í kvöld FH í vorblíðunni á Kópavogsvelli og það var spenna í loftinu fyrir þennan lokaleik 4ðu umferðar PEPSI deildar. Leikurinn í beinni útsendingu en samt voru fjölmargir áhorfendur (1472) á leiknum og flestir mættir tímanlega svo það yrði ekkert vesen með raðir og svoleiðis. Semsagt allt einsog best var á kosið og menn bjuggu sig undir flottan leik.

Byrjunarlið okkar var eins og gegn íA með þeirri einu breytingu að Ellert kom inn í stað Árna í sóknarlínuna.

Gunnleifur
Tómas Óli – Sverrir Ingi – Renee Troost – Kristinn Jóns
Elfar Árni – Andri Yeoman – Finnur Orri (F) – Guðjón Pétur – Nichlas Rohde
Ellert

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Árni Vilhjálmsson
Olgeir Sigurgeirsson
Viggó Kristjánsson
Jökull I Elísabetarson
Páll Olgeir Þorsteinsson
Þórður Steinar Hreiðarsson

Nánari leikskýrsla hér

Leikurinn fór rólega af stað í norðvestan strekkingi og sólbjörtu veðri. Stöku vindskafinn skýhnoðri á himni, fuglar svifu vængjum þöndum í miðri eggtíð og léku á alls oddi. En á meðan þreifuðu liðin hvort á öðru. Feilsendingar ófáar, talsvert miðjuhnoð og svokallaðar KR spyrnur (gamalt orðatiltæki af Melavellinum notað um háloftaspyrnur eða kýlingar) létu á sér kræla og er slíkt fátítt í leik þessara liða og telst nú heldur fúlmennska. Á tímabili leið manni eins og í mynd sem væri sýnd aðeins of hægt. Boltinn virtist hægja á sér þegar hann fór með jörðinni og ekki laust við að völlurinn væri stamur. Semsagt, ekki mikil gæði. Tómas Óli þurfti að yfirgefa völlinn eftir 10 mínútna leik, vegna tognunar í nára og Jökull tók stöðu hans. Annars var fátt tíðinda fyrr en u.þ.b. fimmtán mínútur voru liðnar, en þá voru Blikar teknir í bólinu svo um munar. Gestirnir fengu innkast við víteigshorn og í kjölfar þess komst FH- ingur óáreittur inn í teig og lagði hann fyrir markið þar sem annar kom aðvífandi og setti í markhornið. Ömurlegt mark að fá á sig. Þarna voru okkar menn alveg steinrunnir eitt augnablik eða tvö og gegn liði eins og FH þýðir það aðeins eitt. Kúrdabella! Það er harðasta blótsyrði sem hún amma mín heitin notaði þegar henni blöskraði. Ég hef enn ekki hugmynd um hvað þetta þýðir nákvæmlega en það er áreiðanlega  ekki sótt í faðirvorið.
Nokkru áður höfðu gestirnir reyndar átt dauðafæri eftir skyndisókn en Gunnleifur bjargaði meistaralega með góðu úthlaupi. Þannig að hættumerkin voru farin að sýna sig. Sjálfum gekk Blikum erfiðlega að halda boltanum og láta hann ganga nægilega hratt fram á við til að opna glufur í vörn gestanna. Það var losarabragur á okkar mönnum og stundum var hreinlega eins og menn væru að spila á sokkaleistunum. Gestirnir fengu svo annað dauðafæri, aftur eftir skyndisókn, en Gunnleifur var enn á tánum og bjargaði vel. Blikar vildu svo fá vítaspyrnu þegar virtist vera togað í Andra þegar hann var kominn í gegn en dómarinn var ekki á sama máli. Þessi barningur hélst svo til loka fyrri hálfleiks og staðan í hálfleik því 0-1.  Í hálfleikskaffinu var margt skeggrætt um stöðuna og menn á einu máli að það væri guðs lukka að liggja ,,bara” 0-1 undir. Blikar yrðu að girða sig í brók.
Okkar menn mættu heldur frískari til seinni hálfleiks og gerðu hríð að marki gestanna. Elfar var nálægt því að skora með skalla en markvörður gestanna varði vel. Finnur var einnig í álitlegu færu en náði ekki að gera sér mat úr því og Guðjón Pétur átti hættulega aukaspyrnu sem var varin. Við fengum góðan slatta af aukaspyrnum á hættulegum stöðum en sannast sagna náðum við alls ekki að gera okkur nægan mat úr þeim. Það þarf að laga. Prontó. Gestirnir fengu svo enn eitt marktækifæri en skutu í stöngina. Þar var heppnin sannarlega með okkur. Svona gekk þetta til og frá og m.a. vildi Nichlas fá vítaspyrnu en fékk ekki. Undirritaður sá umrætt atvik ekki nægilega vel en telur, í ljósi reynslunnar, ekki útilokað að FH ingar hafi haft rangt við þar. Blikar freistuðu þess að jafna leikinn og sendu Árna og Viggó inn í stað Renee og Nichlas. Sóknarþunginn jókst nokkuð við þetta og gestirnir freistuðu þess að halda fengnum hlut og brutu jafnharðan á okkar mönnum þegar þeir gerðu sig líklega eða voru við að koma sér í vænlega stöðu.
En loks virtist gæfan gengin í lið með okkar mönnum þegar skoskur varnarmaður gestanna lagði Ellert á á mjaðmahnykk að fornum íslenskum sið, innan vítateigs. Dómarinn benti umsvifalaust á vítapunktinn við mikinn fögnuð heimamanna. Þangað fór Árni Vill en spyrna hans var slök og markvörður gestanna varði örugglega. Önnur vítaspyrna okkar í sumar og þær hafa báðar farið forgörðum. Blikar pressuðu stíft á lokamínútunum en gæfan hafði bara rétt snöggvast glott til þeirra og var nú á bak og burt. Leiknum lauk því með sigri gestanna 0-1 , þriðja árið í röð…..
Nú má vel vera að Blikar séu nú út um allan bæ að svekkja sig á vítinu sem fór forgörðum og víst var svekkjandi að misnota það, því stig er stig. En það var margt annað sem fór úrskeiðis hjá okkar mönnum í kvöld. Ágætur maður orðaði það þannig að leikmennirnir hefðu aldrei gefið sjálfum sér tækifæri til að vinna þennan leik. Þeir hefðu verið utangátta og linkulegir, tekið slæmar ákvarðanir og verið hægir og fyrirsjáanlegir. Vér erum sammál þessu en umorðum þetta efnislega eitthvað á þessa leið;  Menn voru bara með puttana í r…gatinu og hausinn í skýjunum allan leikinn. Og leikir vinnast ekki þannig, og hafa aldrei gert. Það þarf nefnilega að spila leikinn ,,á meðan hann stendur yfir”. Eða eins og Albert heitinn Einstein, sá spaki maður sagði eitt sinn við svipað tilefni;

“Past is dead
Future is uncertain;
Present is all you have,
So eat, drink and live merry.”

Í lauslegri þýðingu eitthvað á þessa leið : ,,Ef Blikar ætla að vinna FHinga á Kópavogsvelli þurfa þeir helst að gera það á meðan FHingar eru á Kópavogsvelli. Ekki eftir að þeir eru farnir heim með öll stigin.”

Næsti leikur okkar manna er gegn KR í Frostaskjólinu n.k. mánudag og þangað liggur leið allra Blika. Stöndum þétt við bak okkar manna.

Áfram Breiðablik !

OWK.

Til baka