Leiknismenn lagðir!
07.02.2020Blikar unnu nokkuð öruggan 3:1 sigur á Leiknismönnum í fyrsta leik Lengjubikarsins árið 2020. Leikurinn fór fram í Fífunni og var það vel enda hávaðarok og rigning á Kópavogsvelli. Danska dýnamítíð Thomas Mikkaelsen heldur áfram að skora fyrir okkur og setti tvo að þessu sinni. Gísli Eyjólfsson heldur einnig áfram að skora eins og engin sé morgundagurinn. Þessi úrslit lofa góðu fyrir framhaldið.
Leikskýrsla KSÍ> Skýrsla Úrslit.net>
Blikastyrkt Leiknislið lét okkur þó hafa nokkuð fyrir hlutunum framan af leik. Enda eru Blikarnir í Breiðholtinu Ernir, Ósi, Bjarki og Sólon fínir fótboltamenn. En þegar dómari leiksins dæmdi frekar vafasama vítaspyrnu á þá sem Thomas skoraði örugglega úr þá voru úrslit leiksins ráðin. Gísli bætti við öðru marki með harðfylgni rétt fyrir leikhlé.
Í síðari hálfleik virtumst við ætla að valta yfir gestina. Thomas bætti við þriðja markinu eftir frábæra sendingu Viktors Karls. En þegar búið var að dæma eitt mark af okkur og við klúðruðum nokkrum ágætum tækifærum þá var eins og við héldum að þetta væri búið. Það kann ekki góðri lukku að stýra enda minnkuðu Leiknisdrengir forystu okkar í 3:1. En þar við sat og geta bæði lið bara nokkuð vel við unað.
Einn leikmaður lék sinn fyrsta mótsleik fyrir Blikaliðið. Það var varnarmaðurinn úr Mosfellsbænum Róbert Orri Þorkelsson og stóð hann sig vel fyrir sínu. Einnig hóf kantmaðurinn snjalli Kwame Quee leikinn en þetta er fyrsti leikur hans með Blikaliðinu eftir svaðilför til heimalands síns Sierra Leone. Síðan var ánægjulegt að sjá Alexander Helga Sigurðsson aftur á vellinum eftir nokkuð langa meiðslahrinu.
Næsti leikur Blikaliðsins er ekki fyrr en föstudaginn 21. febrúar gegn Aftureldingu í Mosfellsbænum. En í millitíðinni ætla þeir grænklæddu að skreppa aðeins til Svíþjóðar og etja kappi við heimapilta í Norrköping.
Áfram Blikar alltaf alls staðar!
-AP