Léttur sigur hjá Blikum
13.02.2018Blikar unnu fyrirhafnalítinn sigur á 1. deildarliði ÍR í Lengjubikarnum í Fífunni í dag 7:0. Það var aðeins í byrjun sem Breiðholtsliðið veitti okkur einhverja samkeppni. Eftir að Arnþór Ari hafði skorað fyrsta markið á 19. mínútu breyttist leikurinn í eltingarleik kattarins að músinni. ÍR-ingar virtust missa móðinn og vel útfærðar sóknir Blika splundruðu vörn gestanna hvað eftir annað. Þegar yfir lauk voru mörkin orðin sjö og ÍR átti í raun ekkert færi í leiknum.
Byrjunarlið & skiptingar í boði úslit.net.
Blikaliðið verður í sjálfu sér ekki dæmt mikið af þessum leik. Til þess var mótstaðan of veikburða. En það þarf samt einbeitingu til að klára svona leiki. Það verður því að hrósa Blikastrákunum fyrir að keyra á andstæðingana og nýta vel hraða og kraft sóknarmanna okkar. Svo er vörnin auðvitað gríðarlega sterk með þríeykið Gulla, Elfar Frey og Damír í hjarta varnarinnar. Blikaliðið á auðvitað að gleðjast yfir sigrinum en ekki samt fara á flug því þessi úrslit telja ekki neitt þegar út í alvöruna verður komið næsta sumar!
Gísli Eyjólfs átti enn einn stórleikinn og setti þrennu. Það er unaður að sjá hve auðveldlega leikmaðurinn kemst iðulega framhjá andstæðingum sínum og hve oft hann er í markfærum. Mörkin voru öll mjög góð en sérstaklega hvetjum við Blika til að skoða þriðja markið þegar blikarTV setja það inn. Algjör snilld!
Arnþór Ari var einnig á skotskónum og setti tvö fyrstu mörkin. Það var mjög ánægjulegt og vonandi er þetta vísbending um það sem koma skal næsta sumar. Viktor Örn setti einnig ágætt mark og ánægjulegt var að sjá Arnór Gauta inn á vellinum með sinn dugnað og kraft. Hann skoraði einnig fínt mark eftir að hafa sloppið inn fyrir vörnina hjá gestunum.
Næsti leikur er gegn Þrótti í Egilshöllinni sunnudaginn 18. febrúar kl.18.15.
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar
P.S. Það er söknuður að sjá ekki í Fífunni klukku og markatöflu sérstaklega þegar mörkin eru svona mörg!
BlikarTV upptaka af leiknum, viðtöl eftir leik og mörkin. Umfjallanir netmiðla.