Lögmál Murphys á Kópavogsvelli
20.05.2019Fyrir hvern leik Breiðabliks á Íslandsmótinu er farið yfir viðureignir andstæðingsins í mótsleikjum eins og gert er hér. Ritstjórn blikar.is hefur unnið þrekvirki í að koma skikk á tölfræðina í leikjum Breiðabliks á undanförnum árum. Þarna kemur fram að ÍA er það félag sem Breiðablik hefur mætt næst oftast (á eftir Keflavík) í skráðum mótsleikjum. Skagamenn hafa þar yfirhöndina, svo vægt sé til orða tekið. Af 111 mótsleikjum hafa Skagamenn unnið 62, Breiðablik 27 og 22 hafa endað með jafntefli. Svo kemur þessi setning sem veldur því að maður fær sting í magann. „Á 30 ára tímabili, frá 1965 til 1995, vann ÍA nánast alla leiki liðanna”. Undirritaður man reyndar eftir að hafa tekið þátt í sigurleikjum og jafnteflum gegn þessu fyrrum stórveldi – en það skal játað að það gerðist ekki oft. Þetta hefur sem betur fer breyst töluvert. Ægivald og yfirburðir Skagamanna hafa horfið á þessari öld. Í 32 mótsleikjum liðanna frá árinu 2000 hafa Blikar unnið 14 leiki, jafnteflin eru 8, og töpin er 10.
Þegar liðin gengu inn á völlinn sunnudaginn 19. maí var staðan hinsvegar sú að þessi 2 lið voru á toppnum í Pepsi Max deildinni með 10 stig, nokkuð sem enginn hafði séð fyrir. Sér í lagi hefur árangur ÍA vakið athygli en þeir eru nýliðar í deildinni en hafa sýnt mikla skynsemi og styrk í leik sínum til þessa.
Þetta kom í hugann þegar Blikarnir tóku á móti Skagamönnum í 5. umferð Pepsi Max deildinni í ár sunnudaginn þann 19. maí 2019. Þetta var auðvitað stórmerkilegur leikur. Fyrsti heimaleikur Breiðabliks á glænýju gervigrasi sem nú þekur okkar ástsæla Kópavogsvöll. Undirritaður hefur áður fjallað um þá ákvörðun sem tekin var um að leggja gervigras á Wembley okkar Kópavogsbúa og það verður ekki gert frekar hér. Þetta er staðreynd og við breytum henni ekki. En snúum okkar að leiknum:
Allar aðstæður voru eins og best verður á kosið. Hiti 9 gráður, nánast logn og engin sól að trufla. Fyrir framan Gulla voru 3 miðverðir, Elfar Freyr Helgason Viktor Örn Margeirsson og Damir Muminovic. Bakverðir með bæði sóknar og varnarhlutverk vour þeir Arnar Sveinn Geirsson og Jonathan Hendrickx. Á miðjunni voru Andri Rafn Yeoman, Guðjón Pétur Lýðsson, Kolbeinn Þórðarson og Höskuldur Gunnlaugsson. Thomas Mikkelsen var síðan á toppnum. Breytingin frá sigurliðinu gegn KA í vikunni voru þær að Davíð Ingvarsson og Viktor Karl Einarsson fóru á bekkinn í stað Jonathans og Andra Rafns. Leikskýrsla KSÍ.
Leikurinn fór varfærnislega af stað en Skagamenn áttu undirtökin. Á 6. mínútu fær Gonzalo Zamorano dauðafæri en á einhvern undarlegan hátt nær Gulli að verja með reflex sem ég hélt að 43 ára gamlir einstaklingar hefðu ekki yfir að ráða. Maðurinn hlýtur að verða rannsóknarefni vísindamanna. Hinum megin átti Höskuldur gott skot sem var varið í horn. Upp úr þessu róaðist leikurinn – fullmikið að áliti sessunauta minna sem fannst vanta áræðni – ekki síst í okkar menn. Bæði lið spiluðu mjög varfærnislega og engin veruleg hætta skapaðist upp við mörkin. Blikarnir lifnuðu aðeins við síðustu 10 mínútur seinni hálfleiks. Í kaffihléinu hjá Blikaklúbbnum vonuðumst menn til að Eyjólfur myndi hressast og Blikarnir færu að spila sinn bolta og stjórna leiknum.
Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri, liðin skiptust á að sækja en Gulli varði skalla frá Arnari Má Guðjónssyni eftir 4 mínútna leik úr góðu færi. Eftir þetta ná Blikar nokkuð góðum tökum á miðjunni. Guðjón Pétur og Andri Rafn náðu vel saman á köflum og stjórnuðu spilinu en því miður fjöruðu sóknirnar út og færin voru ekki mörg sem sköpuðust. Það virtist vanta einhvern neista í liðið til að ljúka verkefninu. Skagamenn náðu sóknum inn á milli og á 56 mínútu átti Tryggvi Hrafn aukaspyrnu ofan á þverslá Blikamarksins. Breiðablik náði hinsvegar að setja boltann í netið á 63 mínútu en það var dæmt af vegna meints brots Viktors á markmanni ÍA. Sýndist sitt hverjum um það mál en dómarinn ræður. Á 64. Mínútu kom Kwame Quee inn á í sínum fyrsta leik í Pepsi deildinni hjá Breiðablik fyrir Kolbein. Því miður fann hann sig ekki í leiknum. Davíð Ingvarsson leysti Jonathan Hendrickx af á 73. mínútu vegna meiðsla hjá Belganum. Það var síðan ekki fyrr en að 5 mínútur voru eftir að Aron Bjarnason kom inn á fyrir Kolbein. Aron náði hinsvegar á þessum stutta tíma að skapa usla enda er hann oft aflvaki stórhættu við mark andstæðinganna. Spurningin er hvort ekki hefði mátt skipta honum fyrr inn á í svona leik sem í raun var í hálfgerðri pattstöðu og þurfti sprengikraft til að brjóta upp leikinn. Brynjólfur Darri sat allan tímann á bekknum en hann er þeim hæfileika gæddur að geta hleypt lífi í sóknirnar. Allt eru þetta auðvitað vangaveltur en þessi leikur var í raun ekkert annað en eitt stórt 0-0 jafntefli. Leiktíminn leið og menn biðu einfaldlega eftir að þessar 4 mínútur í uppbótartímanum liðu. En þá gerist það sem stundum vill verða að örlögin tóku í taumana.
Á Vísindavef Háskóla Íslands fjallar Dr. Jón Atli Benediktsson, rektor um Lögmál Murphys. Það er skilgreint þannig á ensku. If anything can go wrong, it will. Á íslensku er hefð fyrir því að þýða það eitthvað á þessa leið: Ef eitthvað getur farið úrskeiðis, mun það gera það.
Sjaldan hef ég upplifað þetta alræmda lögmál jafn hræðilega og þetta vorkvöld á Kópavogsvellinum. Á 3. mínútu uppbótartíma fá Skagamenn sína 6. hornspyrnu (Blikar fengu líka 6 slíkar í leiknum). Boltinn er skallaður frá - en þeir eiga skot á markið sem fer í varnarmanninn Einar Loga Einarsson og boltinn lekur framhjá Gunnleifi í hornið fjær. Áhorfendur voru tæplega 2.200 (metaðsókn í langan tíma) – langflestir á bandi Blikanna voru í áfalli. Undirritaður er enn ekki búinn að ná sér.
Það hefur stundum verið sagt að það sé þrennt sem skipti sköpum hvort knattspyrnulið sé sigursælt til lengri tíma eða ekki. Nefnilega H-in 3. Þau eru: Hæfni, Hefð og Heppni. Þessi framsetning minnir kannski óþægilega á Umferðar-Einar. Meira> í Fóstbræðrum en gott og vel, þessi skýring er ekki verri en hver önnur. Hvernig er hægt að skýra þetta tap út frá þessari kenningu.
Hæfni
Á góðum degi á að vera meiri knattspyrnuhæfni hjá Blikunum en nýliðum Skagamanna. Þeir hinsvegar lögðu sig meira fram og gerðu meira af því að gera eins vel og þeir geta. Þeir hættu aldrei og misstu aldrei trúna. Blikum mistókst því miður að sýna hæfni sína i þessum leik. Við getum spilað svo miklu miklu betur.
Hefð
Eins og kom fram í upphafi þessa pistils eru fá knattspyrnulið með sterkari hefð en ÍA hér á landi. Hinsvegar eigum við á síðustu 20 árum að vera búnir að skapa okkur hefð sem á að fleyta okkur langt. Við erum búnir að vera í toppbaráttu nánast frá 2007 og reglulega í Evrópukeppni, nokkuð sem Skaginn þekkir ekki á þessari öld. En gleymum því ekki að það er mikil hefð á bekknum hjá Skaganum. Jóhannes Guðjónsson þjálfari er þrautreyndur atvinnumaður og aðstoðarþjálfarinn er enginn annar en Sigurður Jónsson með alla sína reynslu. Þeim er greinilega að takast að blása sjálfstrausti í þetta lið sem hefur alla burði til að ná langt.
Heppni
Það var Ingemar Stenmark sem sagði eitt sinn þegar hann var spurður af hverju hann væri svona heppinn í svigbrautinni. Hann sagði „Eftir því sem ég æfi mig meira verð ég heppnari“. Heppni er ekkert annað en afleiðing af þeim 2 atriðum nefnd eru hér að framan
Þeir sem leggja sig meira fram eru heppnari en aðrir. Skagamenn lögðu sig einfaldlega meira fram en Blikar í kvöld og því fór sem fór
Næsti leikur
Næsti leikur Breiðabliks er eftir viku – sunnudaginn 26. maí klukkan 19.15 þegar við sækjum Val heim á Origo völlinn á Hlíðarenda. Valur vann Fylki í síðasta leik og krafan þar á bænum er sigur og að blanda sér í toppbaráttuna. Enda var Val spáð af flestum að þeir myndu verja Islandsmeistaratitilinn í ár. Þetta er því gríðarlega erfitt verkefni fyrir höndum og erfitt. En Hlíðarendi er ekki óvinnandi vígi. Mætum og styðjum strákana – þeir eiga mikið inni og það þarf að ná því fram. Ágúst þjálfari hefur viku til að stilla saman strengina í liðinu og við verðum að vona að það takist. Það er vel hægt, það er einhver órói á Hlíðarenda og við þurfum að ganga í þennan leik með sjálfstraustið í lagi og hafa trú á þessu verkefni.
HG
Smellið á myndina til að sjá fjölmargar myndir úr leiknum. Ljósmyndari: Helgi Viðar Hilmarsson/BlikarTV.