BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Metið fallið!

04.10.2015

Blikar unnu sanngjarnan 0:2 sigur á Fjölni í lokaleik Pepsí-deildarinnar á þessu keppnistímabili. Það voru þeir Jonathan Glenn og Andri Rafn Yeoman sem settu mörk okkar sitt í hvorum hálfleiknum. Sigurinn var ánægjulegur því með honum bætti félagið stigamet sitt í efstu deild og setti þar að auki met í fæstum mörkum fengið á sig. Frábæru tímabili er því lokið en ekki er laust við að smá svekkelsi geri vart við sig því við vorum ótrúlega nálægt því að landa Íslandsmeistaratitlinum sjálfum. En það kemur ár eftir þetta ár og fyrirfram hefði flestir Blikar verið sáttir við silfur á Íslandsmóti og öruggt sæti í Evrópukeppni.

Arnar og Kristó settu Glenn og Oliver að nýju í byrjunarliðið og Ellert og Guðjón Pétur settust á bekkinn. Svo má ekki gleyma því  á Elfar Freyr var í banni og Viktor kom inn í hjarta varnarinnar. Þar að auki var Gísli í fyrsta sinn í byrjunarliði í Pepsí-deild og sýndi lipra taka. En byrjunarliðið var þannig skipað.

1. Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m) - 3. Oliver Sigurjónsson - 4. Damir Muminovic - 7. Höskuldur Gunnlaugsson - 17. Jonathan Ricardo Glenn - 20. Atli Sigurjónsson - 21. Viktor Örn Margeirsson - 23. Kristinn Jónsson - 29. Arnór Sveinn Aðalsteinsson - 30. Andri Rafn Yeoman - 33. Gísli Eyjólfsson

Leikskýrsla:      Fjölnir – Breiðablik 3. október 2015

Nöpur haustgolan og lítið mikilvægi leiksins hafði áhrif á mætingu. Einungis rúmlega 500 manns létu sjá sig og virtist það skiptast nokkuð jafnt á milli liða. Leikurinn byrjaði rólega og voru bæði lið að þreifa fyrir sér. Heimapiltar náðu þó fljótlega yfirhöndinni á miðjunni án þess þó að skapa sér nein hættuleg færi. Að vísu áttu þeir nokkur ágæt skot en þau höfnuðu annað hvort í öruggum höndum Gunnleifs eða þau fóru yfir eða framhjá markinu. Eftir nokkrar slíkar sóknir náðu Blikar snarpri sókn. Atli náði knettinum úti í teig og reyndi skot að marki. Áður en markvörður Fjölnis náði til knattarins koma gammurinn Glenn eins og eldibrandur og renndi sér á knöttinn og kom honum upp í þaknetið. Vel gert hjá Glenn sem því miður var líklegast að spila sinn síðasta leik með Blikaliðinu. Að minnsta kosti í bili!

Kættust nú Blikar nær og fjær og vonuðumst að sjálfsögðu eftir því að fá fleiri mörk. En miðjumenn Fjölnis voru vel skipulagðir og sterkir og áttum við í mesta basli að ná tökum á spilinu. En marktækifærin voru ekki í mörg í hálfleiknum. Því gengu leikmenn til búningsklefa með þá grænklæddu í forystu.

Á margan hátt spilaðist síðari hálfleikur svipað og sá fyrri. Þeir gulklæddu héldu boltanum vel úti á vellinum og spiluðu ágætlega á milli sín. En geysilega sterk varnarlína Blika með Damir og Viktor í hjarta varnarinnar stoppaði allar sóknartilraunir heimapilta. Við áttum síðan nokkrar álitlegar skyndisóknir með Kristinn Jónsson fremstan meðal jafningja í þeim flokki. Hlaupageta hans er ótrúleg og hann var stundum að ,,overlappa“ fremstu sóknarmenn. Meðal annars náðum við skyndisókn fjórir á móti þremur varnarmönnum Fjölnismanna en náðu ekki að nýta það.

Á 72. mínútu dró síðan til tíðinda. Við fengum vænlega sókn upp vinstra megin og Glenn geystist upp að vítateig andstæðinganna. Þar var brotið illa á honum og lá hann óvígur eftir.  Gulklæddir varnarmenn höfðu fengið óáreitt að sparka, toga og klípa í Trinidadbúann allan leikinn og því farið að fjúka í okkar mann.  Hann brást því illa við þegar bakvörðunn var með sýndargóðmennsku og sló frá sér. Það má hins vegar ekki í knattspyrnu og þar með fauk gullskórinn út um glugann. Arnar þjálfari minnti þann svartklædda á að síbrotamenn ættu líka að fara út af en dómarinn misskildi hann eitthvað og rak þjálfarann okkar einnig inn í klefa.

Þá var eins og okkar piltar vöknuðu af værum svefni og tóku í raun öll völd á vellinum einum færri. Við náðum völdum á miðjunni og áttum ágætar sóknir. Í einni þeirri geystist Kristinn þyndarlausi fram og átti snilldarsendingu á Andra Rafn sem setti knöttinn á milli fóta markvarðar gestanna 0:2. Þetta var einstaklega vel gert hjá miðjumanninum snjalla. Hann hefur ekki verið þekktur fyrir markaskorun í gegnum tíðina en þarna tróð hann sokk upp í gagnrýnisraddir. Vonandi er þetta forboði fyrir bjarta tíð í hjá þessum iðna miðjumanni!

Þrátt fyrir veiklulega tilburði heimamanna þá náðu þeir aldrei að ógna markið okkar pilta. Leikurinn fjaraði því smám saman út án þess að úrslitum yrði breytt.

Þess má geta að leikjahæsta manni Blika frá upphafi Olgeiri Sigurgeirssyni var skipt inn á skömmu fyrir leikslok og svo fékk hann síðan heiðursskiptingu frá öðlingnum Kára Ársælssyni á lokasekúndum leiksins. Eftir 13 farsæl ár, 321 leik og 39 mörk með Breiðabliki hefur Olgeir nú ákveðið að leggja skóna á hilluna. Hann fékk að sjálfsögðu blóm & hyllingu frá þjálfurum og liðsfélögum eftir leiki.

Við Blikar getum verið stolt að þessu leik loknum. Leikmenn okkar röðuðu sér í verðlaunasæti hjá flestum fjölmiðlum; Gulli var nánast einróma valinn besti markvörður deildarinnar, Kiddi besti varnarmaðurinn, Oliver og Höskuldur efnilegustu leikmenn deildarinnar og Glenn var hársbreidd frá því að verða markahæsti maður Pepsí-deildar 2015.  Margir þessara leikmanna eru nú í skoðun hjá erlendum liðum en það er langur vegur frá endanlegum samningi. Það er því ekki ljóst hvernig liðið verður skipað á komandi tímabili. Það er þó ljóst að Breiðabliks mun tefla fram öflugum ellefu leikmönnum á næsta tímabili.

Árangur liðsins á árinu undir stjórn Arnars Grétarssonar og aðstoðarmanna hans, Kristófers Sigurgeirssonar og Ólafs Péturssonar, er einstakur í sögu félagsins því til viðbótar við fæst mörk fengin á sig í Pepsí í sumar, stigamet hjá félaginu og öruggt annað sæti, þá tapar liðið aðeins 3 leikjum af 38 opinberum keppnisleikjum sem liðið lék á árinu 2015. Sjá leikjayfirlit ársins 2015 hér.

Áfram Breiðablik, alltaf, alls staðar!

-AP

Til baka