BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

,,Mikil áskorun að taka við Blikunum” segir Ágúst Gylfason nýr þjálfari meistaraflokks karla

27.10.2017

Eins og flestir Blika vita hefur Ágúst Gylfason nú tekið við sem þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá félaginu. Ágúst, sem er 46 ára gamall, á að baki glæsilegan feril sem leikmaður. Hann lék yfir 200 leiki með Val, Fram, KR og Fjölni á Íslandi og lék þar að auki sem atvinnumaður með Brann í Noregi í fjögur ár og eitt ár í Sviss. Undanfarin ár hefur hann þjálfað Fjölni og náð góðum árangri með unga og efnilega leikmenn í Grafarvoginum. Ágúst lék sex A landsleiki á ferli sínum og þrettán U-21 árs landsleiki.

Fyrsta spurningin sem við lögðum fyrir Ágúst var hvers vegna hann hefði ákveðið að taka við Blikaliðinu. Hann hugsaði sig um í smá stund en sagði svo ,,Ég var mjög stoltur þegar forráðamenn Blika höfðu samband við mig en ég þurfti samt að hugsa mig um því það var ekki létt að fara frá Fjölni. Þar hef ég starfað með frábæru fólki í mörg ár þannig að þetta var ekki létt ákvörðun. En að lokum ákvað ég að láta slag standa því Breiðablik er ótrúlega spennandi klúbbur. Því er hins vegar ekki að leyna að það er mikil áskorun að taka við Blikaliðinu. Nokkuð er síðan að liðið hafi unnið titil og því vilji hann breyta. Breiðablik er einn af stóru klúbbunum á Íslandi og liðið á að vera að keppa í toppbaráttu á hverju einasta ári," segir nýi þjálfarinn.

Allir leikmenn fá tækifæri til að sanna sig

Þegar Ágúst er spurður að því hver sé styrkleiki Breiðabliksliðsins þá brosti hann og sagði sposkur ,,hvað hefurðu langan tíma? Ég veit varla hvar ég að byrja. Þetta er auðvitað stærsti klúbbur landsins með ótrúlega gott unglingastarf. Það þekki ég sjálfur af eigin raun því ég hef búið í Kópavogi í 20 ár og mín börn hafa fengið íþróttauppeldi hjá félaginu. Enda hefur Breiðablik búið til ótrúlega marga góða leikmenn á undanförnum árum eins og kemur fram í þvi hve margir leikmenn hafa farið frá félaginu í atvinnumennsku. Svo má ekki gleyma aðstöðunni.  Fá félög á Íslandi hafa jafn góða æfingaaðstöðu eins og Breiðablik og það er eitthvað sem þjálfarar kunna að meta."

Ágúst segir líka að mannauðurinn sem stendur að félaginu sé einstakur. Stjórnin og þeir sem standa að meistaraflokknum séu öflugur hópur. Stuðningsmenn Blika séu fjölmargir og hann hafi áhuga á að rækta samband sitt við þann hóp. Nú þegar sé búið að ákveða að vera með fund fyrir stuðningsmenn á Kópavogsvelli föstudagskvöldið 10. nóvember n.k. Segist þjálfarinn vonast til að sjá sem flesta Blika á þeim fundi.

Meistaraflokkurinn hefur æfingar 4. nóvember n.k. og  segir Ágúst að hann muni gefa sér góðan tíma til að meta leikmannahópinn. ,,Allir leikmenn byrja á núllpunkti og fram að áramótum eigi allir sjens til að sýna sig og sanna. Ég á ekki von á því að mikil breyting verði á hópnum á undirbúningstímabilinu. Það getur vel verið að við þurfum að styrkja okkur á einhverjum stöðum á vellinum. En til að byrja með ætla ég að gefa þeim leikmönnum sem við erum með tækifæri. Það er hins vegar ljóst að Breiðablik er mjög spennandi klúbbur og margir leikmenn sem vilja koma til okkar. Við munum bara meta það í hverju tilfelli fyrir sig þegar það kemur upp," segir Ágúst Gylfason nýr þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá Blikum.

-AP

Til baka