Mikkelsen sá um Leikni F.
08.03.2020
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði meistaraflokks karla hjá Blikum, afhenti þeim Jónu Petru Magnúsdóttur frá Leikni og Yngri flokkum Fjarðabyggðar (YFF) og Guðnýju Margréti Bjarnadóttur frá YFF 25 bolta sem nýtast eiga í barnastarfi hjá YFF. Þessi gjöf er hluti af stefnu knattspyrnudeildar Breiðabliks að aðstoða félög á landsbyggðinni í barna- og unglingaknattspyrnu.
Blikar unnu öruggan 1:4 sigur á Leikni frá Fáskrúðsfirði í Lengjubikarnum í dag. Leikurinn fór fram í Alcoa höllinni á Reyðarfirði og var sigur Blika aldrei í hættu. Thomas Mikkelsen er óstöðvandi og setti þrennu í leiknum. Þess má geta að þetta er 45 mark Danans í 50 mótsleikjum fyrir Blika! Alveg ótrúlegt tölfræði!

Alexander Helgi skoraði einnig eitt mark. Blikarnir leiddu 0:4 í leikhléi en slökuðu á í síðari hálfleik og fengu þá eitt mark á sig.
Það vakti athygli að Gunnleifur stóð í markinu að þessu sinni. Einnig var þetta fyrsti leikur sem Róbert Orri er í byrjunarliðinu. Báðir stóðu vel fyrir sínu. Einnig var ánægjulegt að sjá Elfar Freyr í byrjunarliðinu og spilaði hann í um 60 mínútur. En bestur í leiknum var Brynjólfur Willumsson (pistlahöfundur hafði þetta beint eftir honum og ekki lýgur þingmannssonur )
Eftir þessi úrslit er ljóst að leikur okkar gegn KR á sunnudaginn á Kópavogsvelli kl.19.15 verður að öllum líkindum hreinn úrslitaleikur um hvort liðið kemst áfram í undanúrslit í Lengjubikarnum gegn FHingum.
Það má því búast við hörkuslag gegn KR í Kópavoginum á sunnudagskvöldið!
-AP
Byrjunarliðið í leiknum gegn Leiknismönnum.