BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Mislagðir fætur í Laugardal

23.05.2014

Blikar mættu Fram í 5. umferð PEPSI deildarinnar á gerfigrasvelli Þróttar í Laugardal í kvöld, Nú eru 90 mínútur síðan leik lauk og undirritaður er eiginlega enn saltvondur. Best að skrifa um þennan leik seinna...

Jæja 180 liðnar. Nú hlýtur þetta að vera orðið óhætt. Búinn að nöldra soldið í konunni og skamma hundinn. Kannski hefði bara átt að láta vaða áðan og ausa úr öllum skálunum yfir liðið, sleppa sér og taka þá almennilega á beinið:, ha ! Það eiga þeir skilið . Með skitin 3 stig eftir 5 umferðir. Svei því barasta!

Nei, held ég sleppi því. Og svo öllu sé nú til haga haldið, til þess að rétta hlut liðsins örlítið, skal það þó tekið fram að þetta var á köflum mun skárra en við höfum séð það sem af er þessu móti. En fjarri því gott. Andstæðingarnir, vissulega skeinuhættir í skyndisóknum, en sennilega lakasta liðið sem við höfum mætt hingað til í mótinu. Allt frumkvæði í leiknum var á hendi okkar manna og það er alveg með ólíkindum að við skyldum ekki ganga frá þessu borði með 5-6 marka sigur í farteskinu. Nei nei. Þess í stað máttum við þakka fyrir að ná einu stigi. Það er svo súrrealísk niðurstaða að jaðrar við sturlun. En niðurstaða engu að síður.

Veður var með allrabesta móti. Hægur sólfarsvindur í fyrri hálfleik en dró svo fyrir sól. Eftir það nánast logn. Hiti nálægt 10°c. Fínar aðstæður.

Byrjunarlið Blika;

Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m)
Gísli Páll Helgason - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason  - Jordan L. Halsman
Páll Olgeir Þorsteinsson  - Finnur Orri Margeirsson  - Andri Rafn Yeoman  - Davíð Kristján Ólafsson
Elvar Páll Sigurðsson  -  Árni Vilhjálmsson

Varamenn:

Arnór Bjarki Hafsteinsson (m)
Stefán Gíslason
Elfar Árni Aðalsteinsson
Guðjón Pétur Lýðsson
Olgeir Sigurgeirsson
Höskuldur Gunnlaugsson
Tómas Óli Garðarsson

Leikskýrsla.

Blikar byrjuðu leikinn af ágætum krafti og nánast allan fyrri hálfleik stjórnuðu þeir ferðinni. Framarar áttu samt nokkrar hættulegar skyndisóknir og í tvígang mátti litlu muna að þeir kæmu sér í úrvals færi. En því betur voru þeim mislagðir fætur þegar á hólminn var komið. Okkar menn fengu hinsvegar slatta af færum og sum reyndar alveg prýðileg. Það dugði þó ekki til að koma tuðrunni í netið. Ögmundur varði mjög vel nokkrum sinnum og i önnur skipti vorum við bölvaðir klaufar að ná ekki meiru út úr oft á tíðum fínum færum. Það var eiginlega alveg störfurðulegt að vera með 0-0 í hálfleik. Blikar misstu Andra Rafn af velli um miðjan hálfleikinn og Tómas Óli kom inn í hans stað.

Blikar gerðu eina breytingu í hálfleik. Stefán Gíslason kom inn í stað Elfars Freys. Stefán fór inn á miðjun en Finnur Orri í miðvörðinn. Nú fóru að koma fastari og betri sendingar í gegnum miðlínu Framara og flestar frá Stefáni. Fleiri Blikar ráða við svona sendingar en nota þær ekki, eða. Þetta gaf ákveðin tækifæri, en sem fyrr glutruðum við þeim jafnharðan og ekki varð neitt úr neinu. En Framarar fóru nú heldur að lýjast, enda í stöðugum eltingaleik. Blikar skiptu Guðjóni Pétri inn í stað Halsmann og nú beið maður eiginlega eftir marki okkar manna, enda sóknin að þyngjast verulega. En þá urðu okkar mönnum á hrikaleg mistök á eigin vallarhelmingi. Réttum Frömurum boltann á silfurfati og þeir brunuðu inn í teig og náðu skoti á mark sem Gunnleifur varði, hann hélt hinsvegar ekki boltanum og það var svo einn bláklæddur sem hirti frákastið og renndi knettinum í netið. 1-0 fyrir Fram og 15 mínútur til leiksloka. Frábært. Áhorfendur klóruðu sér í hausnum og göptu í forundran.
Nú fór bókstaflega allt í kleinu hjá okkar mönnum í nokkrar mínútur. Mikið um feilsendingar og óðagot á mönnum. En smám saman náðu menn örlitlum tökum á eigin tilveru og fóru að skapa sér færi á ný. Árni var í tvígang nærri því að skora og Páll fékk gott færi en ekki gekk rófan. Blikar vildu a.m.k. einu sinni fá víti þegar boltinn virtist faraí hönd Framara en góður dómari leiksins hvorki sá né dæmdi. En þegar skammt var til leiksloka fengu Blikar svo dæmda vítaspyrnu, eftir þunga sókn,  þegar einn leikmaður Fram varði með höndum innan vítateigs og Guðjón Pétur skoraði örugglega úr spyrnunni. Þetta var nánar tiltekið á 88. mínútu og það sem eftir lifði leiks reyndu okkar menn hvað þeir gátu til að kreista meira út úr leiknum, en allt kom fyrir ekki. Niðurstaðan því svekkelsis jafntefli.

Undirritaður er að spá í af hverju men gera sér þetta svona hrikalega erfitt og fara svona illa með sig. Búnir að æfa og puða allan veturinn, að vísu inni, svo mönnum er nú engin vorkunn, og leggja ómælda vinnu og tíma í þetta. Og svo hefst uppskerutíminn og þá eru menn bara rammvilltir, týndir og tröllum gefnir úti á túni, og finna hvorki sjálfa sig, né samherjana. Það vantaði ekki að við ættum megnið af leiknum , ótal hornspyrnur og sóknir í öllum regnbogans litum. Færin voru mörg. En feilsendingarnar maður.Kúrdabella!.Þær voru legíó og útum allan völl. Ein slík kostaði okkur mark og stundum sluppum við naumlega. Betra lið en Fram hefði refsað okkur grimmilega.

Þetta er náttúrulega ekkert vit og nú þurfa leikmenn og allir sem koma nálægt liðinu að gjöra svo vel og reisa sig við. Þar með taldir Kopacabana og aðrir stuðningsmenn, því eins og börnin sungu undir lok leiks, þá ,,heyrðist ekki rassgat“, ekki múkk.
Svona er ekki hægt að halda áfram.

Næsti leikur okkar manna er gegn HK í Borgunarbikarnum á mánudaginn og hefst kl.19:15. Leikið verður í Kórnum. Það verður án efa hörkuleikur og Blikar fá þar tækifæri til að sýna sitt rétta anndlit. Vonandi gera þeir það. Annars mun illa fara.

Áfram Breiðablik!

OWK.

Til baka