BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Mjólkurbikarinn16-liða úrslit 2019: Breiðablik – HK á fimmtudaginn á Kópavogsvelli kl. 19:15

28.05.2019

Annar í Kópavogsslagnum mikla er á fimmtudaginn á Kópavogsvelli þegar við Blikar tökum á móti frændum okkar úr efri byggðum Kópavogs í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins 2019. Þetta verður ,,derby“ slagur af bestu gerð eins og alltaf þegar þessi lið mætast. Það má búast við hörkuleik.

Aðeins nokkrar vikur eru síðan liðin mættust i 2:2 jafnteflisleik í Pepsi MAX deildinni í Kórnum. Þetta var mjög kaflaskiptur leikur sem framkallaði verki hjá pistlahöfundi blikar.is. Meira> Kórverkir frá Melaheiði 5

Í 32-liða úrslitum, á frídegi verkalýðsins miðvikudaginn 1.maí, unnu liðin örugga sigra. HK-ingar fengu lið Fjarðarbyggðar í heimsókn í Kórinn og unnu sannfærandi 5:1 sigur. Blikar flugu norður á Akureyri til að etja kappi við Magnamenn frá Grenivík. Fyrirfram mátti búast við ójafnri viðureign. Ekki bætti úr skák fyrir heimamenn að missa fyrirliðann sinn af velli og það strax á 5. mín fyrir brot, enda fóru leikar þannig að Blikar unnu leikinn með 10 mörkum gegn 1 marki Magnamanna. Meira>

Innbyrðis bikarleikir

Leikurinn á fimmtudaginn verður fimmti innbyrðis leikur leikur liðanna í Bikarkepppni KSÍ – Mjólkurbikarnum!Breiðablik hefur farið með sigur af hólmi í öllum 4 innbyrðis viðureignum liðanna í Bikarkeppni KSÍ. Meira>

26.5.2014 – 32-liða úrslit: Blikar unnu mikilvægan sigur á HK 1:2 í Borgunarbikarnum í Kórnum í gær. Leikurinn var jafn og spennandi og mátti oft ekki á milli sjá hvort liðið væri í Pepsí-deildinni.  En það voru þeir Árni Vill og Jordan Halsman sem settu mörk okkar pilta og sáu til þess að Blikaliðið er komið í 16-liða úrslit í Borgunarbikarnum. Vel var mætt á leikinn og segja fróðir menn að um 1.600 manns hafi verið í Kórnum í gær. Meira>

30.5.2013 – 32-liða úrslit: Blikar mættu HK í dag í 32ja liða úrslitum Borgunarbikarsins á Kópavogsvelli. Fyrirfram var búist við fjörugum ,,grannaslag“ þó allnokkur munur sé á stöðu liðanna í deildakeppninni. Blikar í efstu deild en HK í 2. deild eftir frekar dapurt gengi undanfarin ár. En þeir fylgjast með fótbolta og eru komnir með hár á efrivörina og kannski farnir að missa það annarsstaðar, vita mætavel að í bikarkeppni styttist ævinlega bilið – það er nánast náttúrulögmál - og þar getur allt gerst. Meira>

30.7.2009 – 8-liða úrslit: Heimaleikur HK á Kópavogsvelli sem Blikar vinna 0:1 með marki Guðmundar Péturssonar á 35’. Blikar vinna Keflvíkinga í 4-liða úrslitum og vinna svo Bikarmeistaratitilinn í úrslitaleik við Fram á Laugardalsveli. Meira>

11.7.2007 – 16-liða úrslit: 3:1 eftir framlengdan leik (1:1). Meira>

Klippur, mörk og viðtöl í lok leiks 2007......

Leikmenn

Nokkir núverandi leikmanna Blika hafa leikið með báðum liðum. Fyrrum HK-ingar Gunnleifur Gunnleifsson og Damir Muminovic spila nú með Breiðabliki eins og alkunna er. Einnig lék Viktor Örn Margeirsson með HK sem lánsmaður árið 2014. Með HK leikur nú fyrrum leikmaður Breiðabliks Arnþór Ari Atlason og Aron Kári Aðalsteinsson er þar lánsmaður frá Breiðabliki.

Dagskrá Blikaklúbbsins

Þar sem þetta er bikarleikur þá gilda Blikaklúbbskortin ekki sem aðgangskort á leikinn sjálfan. En það er nauðsynlegt að vera með þau til að komast í Blikaklúbbskaffi í leikhléi. Athugið að vegna þrengsla er því miður ekki hægt að taka með sér börn í Blikakaffið.

Upphitun Blikaklúbbsins hefst kl. 18:00 í salnum í stúkunni á jarðhæðinni. Ágúst Gylfason mætir kl.18:30 og fer yfir leikskipulag Blikaliðsins. Einnig spáir hann í andstæðinginn og gefur stuðningsmönnum innsýn í taktíkina sem hann leggur upp með

Búast má við fjölmenni á völlinn þannig að við hvetjum fólk til að mæta tímanlega.

Það verður kaldur í nýju tjaldi, börger á grilli og rjúkandi kjötsúpa. Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Þetta er leikur sem engin Kópavogsbúi má láta fram hjá sér fara!

Veðurspáin fyrir Kópavog er góð. Flautað verður til leiks kl.19:15!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka