Þolinmæðissigur á Grindvíkingum
16.01.2021Binni vann ,,steinn, skæri, blað“ og fær því annað markið skráð á sig. Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Keppnistímabilið 2021 hófst með ágætum 3:0 sigri strákanna okkar á baráttuglöðum Grindvíkingum á Kópavogsvelli í Fótbolta.net mótinu. Sigurinn var samt torsóttur því Suðurnesjapiltarnir vörðust vel og áttu nokkrar hættulegar skyndisóknir. En sigur okkar pilta var sanngjarn þrátt fyrir að mörkin þrjú kæmu ekki fyrr en á síðustu fimmtán mínútum leiksins. Það voru þeir Damir Muninovic, Brynjólfur Willumsson og Jason Daði Svanþórsson sem gerðu mörkin.
Þess má geta að þetta var fyrsti leikur Jasons Daða í græna búningnum og átti hann fína innkomu.
Þjálfararnir gáfu mörgum leikmönnum tækifæri og spiluðu á tveimur liðum sitt hvorn hálfleikinn. Við byrjuðum fyrri hálfleikinn á mikilli pressu og áttum nokkur ágæt færi. En inn vildi knötturinn ekki og gestirnir voru skeinuhættir úr skyndisóknum. Við sluppum tvisvar með skrekkinn í fyrri hálfleiknum en á móti áttum við að setja að minnsta kosti 3-4 mörk. En markalaust þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Algjörlega nýtt lið hóf síðari hálfleikinn og byrjaði leikurinn svipað. Við sóttum stíft en illa tókst að opna vörn þeirra gulklæddu. Það var ekki fyrr en á 74 mínútum að Alexander Helgi braust upp kantinn með harðfylgni og átti hárnákæma sendingu á Jason Daða sem kláraði færið með sóma. Á 82. mínútu renndu bæði Alexander og Brynjólfur sér á boltann og skoruðu annað mark Blika. En Binni vann ,,steinn, skæri, blað“ og fær því markið skráð á sig. Á lokaandartökum leiksins átti Alexander flott hornspyrnu sem Damir kláraði með hörkuskoti.
Atvik og mörk úr leiknum í boði BlikarTV:
Þetta var því fín byrjun á þessu ári eftir langt hlé. Nokkrir ungir og efnilegir leikmenn fengu sitt fyrsta tækifæri í Blikabúningnum í meistaraflokki. Það verður gaman að sjá til þeirra í framtíðinni.
Nokkrir lykilleikmenn Blika voru fjarverandi vegna meiðsla. Þar má nefna Finn Orra, Oliver Sigurjóns, Viktor Örn Margeirs og Thomas Mikkelsen þannig að breiddin er greinilega mikil í hópnum núna.
Næsti leikur Blika er gegn Keflvíkingum suður með sjó eftir viku.
-AP