BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Öruggur sigur Blika

16.02.2013

Breiðabliks sigraði KA 4:1 í Fífunni í dag í fyrsta leiknum í Lengjubikarnum í ár. Það voru þeir Olgeir, Árni Vill, Tómas Óli og Guðjón Pétur Lýðsson sem settu mörk okkar pilta.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Norðanpiltar pressuðu okkur framarlega og nokkrum sinnum náðu þeir þokkalega skotum á markið. En við vorum samt alltaf sterkari aðilinní leiknum og vorum nálægt því í nokkur skipti að ná forsystunni. En hvorugt liðið náði að skora í fyrri hálfleik.

Í síðari hálfleik fóru hlutirnir að gerast. Nestorinn Olgeir Sigurgeirsson skoraði fyrsta mark leiksins skömmu eftir að hann kom inn á sem varamaður. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Árni Vill úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. KA-menn minnkuðu muninn strax í næstu sókn. En það var Tómas Óli sem stal senunni þegar hann skoraði stórgott mark eftir ,,Bergkamp" takta í gegnum vörn gestanna. Í lokin innsiglaði Guðjón Pétur góðan leik sinn með ágætu marki.

Segja má að allt Blikaliðið hafi átt góðan dag. Guðjón Pétur Lýðsson átti fína endurkomu í Blikaliðið en eins og flestir Blikar vita þá spilaði hann með okkur árið 2007 nokkra leiki. Jökull átti einnig fínan dag og er gaman að sjá taktana frá 2010 hjá þessum snjalla miðjumanni.

Greinilegt er að góð breidd er komin í Blikaliðið og verður hörð barátta um flest sæti í liðinu. Þess má geta að þetta voru fyrstu leikirnir hjá Tómasi Óla og Kidda Jóns á þessu tímabili.

-AP

Til baka