BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ótrúleg endurkoma Blika!

09.08.2012

Það var áhyggjusvipur á mörgum Blikum rúmum tuttugu mínútum fyrir leikslok í leiknum gegn Val. Ingvar Kale markvörður rekinn út af og Valsmenn skoruðu mark úr vítaspyrnu. Staðan því 2:0 fyrir heimaliðið. Blikar neituðu hins vegar að gefast upp; Kiddi Jónsson skoraði glæsilegt mark beint úr hornspyrnu og þrátt fyrir að Valsmenn bættu marki við þá settu þeir grænklæddu í fluggír á síðustu tíu mínútum leiksins. Þórður Steinar, Olgeir og svo Ben Everson í uppbótartíma sáu til þess að stigin þrjú fóru suður fyrir Kópavogslækinn. Ein magnaðasta endurkoma í íslenskum knattspyrnuleik á síðari tímum!

Stuðningsmenn Blika vissu vart hvort þeir áttu að hlæja eða gráta af gleði í stúkunni. Gunnar Jónsson lögmaður í grænu Blikatreyjunni faðmaði menn til hægri og vinstri, Guðmundur J. Jónsson, forstjóri Varðar var mættur með stórfjölskylduna og brosti út að eyrum. Feðgarnir Árni Vill og Villi gáfu ,,high-five" til vinstri og hægri, Kristján útvarpsmaður æpti svo hátt og lengi þegar dómarinn flautaði til leikloka að ungir stuðningsmenn Blika tóku fyrir eyrun. Sá eini sanni Gúndi og Jón sonur hans tóku nokkur létt jive dansspor á leið niður úr stúkunni. Ólafur Kristjánsson þjálfari rauk út á völlinn og faðmaði hvern leikmanninn á fætur öðrum. Valsmenn gengu hins vegar hnýptir af velli enda vissu þeir að með þessu tapi höfðu þeir misst af lestinn í keppninni um Evrópusæti.

Það er erfitt að gera upp á milli leikmanna Blikaliðsins í þessum leik. Liðið spilaði ágætlega framan af leiknum en þó vantaði nokkrun brodd í sóknarleikinn. Síðustu tuttugu mínútur leiksins fara hins vegar í sögubækur íslenskrar knattspyrnu. Óli þjálfari gerði taktískar breytingar; ,,King Olly" kom inn á og Þórður Steinar fór til baka í 3 manna vörn. Kiddi Jóns fór hamförum á vinstri vængnum og dældi háum boltum inn í teiginn. Heimamenn virtust fara á taugum og réðu ekki við pressuna. Olli skoraði gott mark sem var dæmt af vegna vafasamrar rangstöðu en áfram hélt pressan. Þórður Steinar var gríðarlega ógnandi á lokakaflanum og það var velviðeigandi að hann minnkaði muninní 3:2. Olgeir skoraði síðan gott mark eftir mikla baráttu i teignum. Þegar komið var fram yfir venjulega leiktíma tryggði nýliðinn Ben Everson okkur öll stigin með góðu skoti út vítateignum. Það má með sanni segja að það hafi verið forréttindi að hafa upplifað slíkan knattspyrnuleik! Takk Blikar.

En það er stutt í næsta leik og ekki má gleyma sér í fagnaðarlátunum. Andstæðingurinn er ekki heldur af verri endanum, fimleikadrengirnir úr Hafnarfirði. Þeir hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu og sitja nú í efsta sæti Pespí-deildarinnar. Liðið er geysisterkt enda fórum við enga frægðarför suðureftir í fyrri umferðinni. Þar að auki er tölfræðin undanfarin ár okkur mjög í óhag. En það skiptir í sjálfu sér engu máli á sunnudaginn þvi bæði lið byrja með 0 stig. Blikaliðið sýndi í þessum leik að það getur skorað mörk og ef varnarlínan heldur þá getum við lagt hvaða lið sem er að velli. En þá verða áhorfendur að fjölmenna á völlinn. Stuðningurinn í stúkunni á Valsvellinum var mjög góður og það er skrýtið að oft er eins og fólk sem frekar viljugt til að hrópa og kalla á útivelli en heimavelli. En við skulum breyta því á sunnudaginn á Kópavogsvelli. Látum hljóma margraddað ,,Áfram Breiðablik" á sunnudaginn! 

-AP

Til baka