- Byrjunarlið Blika ásamt lukkublikum. Mynd: HVH
- Thomas Mikkelsen gerði sitt annað mark í 2 leikjum og ljóst er að hann skapar miklu meiri hættu fram á við en verið hefur í sumar. Mynd: HVH
- Hreint með ólíkindum hvernig Gulli náði að verja amk tvisvar í leiknum. Mynd: HVH
- Davíð Kristján skoraði annað mark Blika. Mynd: HVH
- Gísli Eyjólfs skoraði þriðja mark Blika. Mynd; HVH
- Aron Bjarnason gerði bara grín að FH vörninni vinstra megin í aðdraganda fjórða marks Blika. Mynd: HVH
- Arnór Gauti skoraði fjórða mark Bliika eftir fyrirgjöf frá Aroni Bjarnassyni. Mynd: HVH
- „Er ekki Yeoman alltaf maður leiksins“? Þessi hógværi verkfræðinemi átti enn einn stórleikinn og dreif menn áfram þegar eitthvað ætlaði að láta undan. Mynd: HVH
- "Þá er rétt að minnast á Willum Þór. Það er rétt að minna sig á að sá drengur er ekki orðinn tvítugur ennþá en yfirvegun hans, leikskilningur og tækni er undraverð." Mynd: HVH
- Viktor Margeirsson – sem átti afmæli var tolleraður af því tilefni. Mynd: HVH
- Fyrir leikinn fékk Damir viðurkenningu fyrir 150 mótsleiki með Breiðabliki.
Ótrúlega sætur sigur
23.07.2018Samskipti nágrannana FH og Breiðabliks hafa alltaf verið mikil á knattspyrnusviðinu. Þetta hafa verið nágrannaslagir og hart tekist á. FH er talsvert eldra félag – stofnað 1929 og því tæplega níutíu ára. Breiðablik er hinsvegar stofnað 1950 og lengst af í sögunni hafði Breiðablik betur yfirleitt í viðureignum félaganna. Frá 1964 – 2004 hafði Breiðablik yfirhöndina og í yngri flokkum og í kvennaknattspyrnunni sömuleiðis. En frá 2004 hefur FH verð jafnsterkasta lið landsins í meistaraflokki karla og markast mikið af 17 ára dvöl Heimis Guðjónssonar hjá félaginu bæði sem leikmaður og síðan sigursæll þjálfari. 8 Íslandsmeistaratitlar á 14 árum segja það sem segja þarf um styrkleika félagsins. Krafan á þeim bænum er einföld. Sigur í hverjum leik og ekkert annað.
Það var því mikil spenna í loftinu á sunnudagskvöldið - núverandi þjálfari FH Ólafur Kristjánsson var ráðinn til Breiðabliks árið 2006 – og síðan þá hefur Breiðablik fest sig í sessi sem eitt besta og stöðugasta lið landsins en hann var þjálfari okkar allt til ársins 2014. Blikar unnu sannfærandi 1 - 3 sigur í Kaplakrika í fyrri umferðinni og vitað var að FH ætlaði sér harma að hefna – meðan Blikar freistuðu þess að blanda sér af alvöru í toppbaráttuna. Fyrir leikinn var Breiðablik í þriðja sæti og FH í því fjórða. Bæði lið með opin tækifæri að blanda sér í toppbaráttuna í PEPSI deildinni og með stimpla sig þar inn með Stjörnunni og Val. Það var því engin kurteisisheimsókn í vændum frá Ólafi og félögum.
Blikar stilltu upp óbreyttu liði (sjá hér) liði sem hefur náð vænlegri stöðu í deildinni – aðallega út á sterkan varnarleik og markvörslu. Leikurinn var í jafnvægi framan af en FH réði öllu meira ferðinni án þess þó að skapa sér hættu utan 2 hálffæri sem Guðmundur Kristjánsson, fyrrum Bliki átti en við sluppum með skrekkinn. FH sótti stíft án þó að skapa sér mikil tækifæri og Blikar sættu færis á að ná sókn en gekk ekki vel. Síðan gerist það að við fengum aukaspyrnu eftir hálftíma leik úti á vinstri sem Gísli tók. Falleg spyrna sem rataði á kollinn á Thomas Mikkelsen sem skallaði hárnákvæmt en ekki fast í jörðina og í hliðarnetið hjá Gunnari Nielsen. FH ingar hefðu eflaust viljað að markvörðurinn gerði betur en þetta var staðan í hálfleik. Mikkelsen með sitt annað mark í 2 leikjum og ljóst er að hann skapar miklu meiri hættu fram á við en verið hefur í sumar.
Í seinni hálfleik byrjuðu FH ingar miklu betur og tilfinningin var sú að eitthvað yrði undan að láta. Það gerðist á 54 mínútu þegar vörnin galopnaðist vinstra megin og Robert Crawford sendi boltann fram hjá Gulla í markinu. Þegar þarna var komið sögu leist okkur í efstu röðinni sunnanmegin ekkert alltof vel á framhaldið. Rétt á undan markinu var Steven Lennon í dauðafæri og hreint með ólíkindum hvernig Gulli náði að verja. Mjög svipað gerðist á 58 mínútu þegar Lennon skaut góðu skoti í fjærhornið en aftur varði Gulli. Þessi 43 ára gamli markmaður hélt okkur algerlega inni í leiknum. FH sótti áfram en smám saman komu Blikar meira inn í leikinn. Á 77 mínútu – 13 mínútum fyrir leikslok fengu Blikar aukaspyrnu vinstra megin. Gísli gaf boltann fyrir sem rataði á Thomas Mikkelsen sem nær að teygja sig í boltann og kemur honum á Davíð sem gat ekki annað en komið boltanum í netið. Davíð er ekki algengasti skorarinn hjá Blikum en þarna fylgdi hann vel eftir og afgreiðslan var frábær.
Þarna voru Blikar komnir með „blod på tanden“ og eftir frábært einstaklingsframtak Willums þar sem hann rak boltann upp völlinn með hálft FH liðið á bakinu og sendi hárnákvæmt á Andra Yeoman. Sá drengur er ekki með egóisma í sinni orðabók – hann lagði boltann til hliðar á Gísla sem gat ekki annað en skorað. Þetta var stórkostlegt mark og stúkan gersamlega sprakk. Nú var allur vindur úr FH og ferskir varamenn sem höfðu komið inn á ráku smiðhöggið á gott dagsverk. Aron Bjarnason gerði bara grín að FH vörninni vinstra megin – lék upp að endamörkum þar sem Arnór Gauti var mættur og þar féll tjaldið í þessari stórkostlegu leiksýningu Blika þetta fallega sumarkvöld í Kópavogsdalnum.
Sessunautur minn ásamt Basla var að þessu sinni mikill Bliki sem starfar sem sögukennari í Flensborg í Hafnarfirði. Hann var mjög sár yfir því að fá ekki að hitta alla FH ingana á kennarastofunni í fyrramálið. En hann getur rifjað upp í haust þegar kennsla hefst í haust að samanlagður árangur okkar gegn þessu stórveldi í sumar er 7-2 okkur í hag í deildinni. Við Basli vorum að velta fyrir okkur manni leiksins – og þá sagði sagnfræðingurinn „Er ekki Yeoman alltaf maður leiksins“? Þessi hógværi verkfræðinemi átti enn einn stórleikinn og dreif menn áfram þegar eitthvað ætlaði að láta undan. En það voru fleiri sem eiga hrós skilið. Þegar hefur verið nefndur þáttur Thomas Mikkelsen – en þessi sending frá Jótlandsheiðum er greinilega happafengur. Ég er enn að reyna að átta mig á úr hverju Gunnleifur Gunnleifsson er gerður. Hann er að storka öllum kenningum um líkamlegan hrörleika. Hann virðist vera í enn betra formi en fyrir nokkrum árum síðan. Þá er rétt að minnast á Willum Þór. Það er rétt að minna sig á að sá drengur er ekki orðinn tvítugur ennþá en yfirvegun hans, leikskilningur og tækni er undraverð. Og honum er alltaf að fara fram. Það er kannski ósanngjarnt að taka menn út úr. Allir stóðu sig vel – ekki síst vörnin sem er búin að fá á sig aðeins 8 mörk í 13 leikjum. Viktor – sem átti afmæli í dag og var tolleraður af því tilefni - er til dæmis að sinna hlutverki Elvars af stakri prýði.
Þessi úrslit þýða að við erum komnir í toppbaráttuna fyrir alvöru. Jafnir Stjörnunni að stigum en það eru 3 stig í Val – sem ekki virðast stíga feilspor. Næsti leikur er gegn Keflavík á mánudag suður með sjó. Þó Keflavík sé svo gott sem fallið úr deildinni er það sýnd veiði en ekki gefin. Við Blikar þurfum að fjölmenna og styðja strákana í þeirri baráttu.
Maður var því léttur í spori þegar ég gekk af vellinum í Sunnuhlíð og spegisléttur Kópavogurinn blasti við. Ég hafði lofað móður minni að flytja henni úrslitin. Hún er fædd sama ár og FH var stofnað – 1929 en fylgist vel með gengi Blikanna og var afar sátt við úrslitin. Sagðist hafa dreymt fyrir þessu. „Ég held þeir verði Íslandsmeistarar“ voru kveðjuorðin – og maður leyfði sér að dreyma þegar ég kvaddi og hvarf inn í þetta ánægjulega og fallega sumarkvöld.
Hákon Gunnarsson