Pepsi MAX 2020: Víkingur - Breiðablik
13.08.2020Pepsi MAX deild karla 2020. Víkingur - Breiðablik á Víkingsvelli sunnudagskvöld kl.19:15!
Knattspyrnusamband Íslands hefur gefið út að unt sé að hefja leik á Íslandsmótinu á ný eftir tveggja vikna hlé vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Mjög hertar sóttvarnarreglur verða í gildi á leikjum í Pepsi MAX. Vegna fjöldatakmarkanna fer leikurinn fram án án áhorfenda.
Hléið sem var á mótinu þýddi m.a. að tveimur leikjum Blika í Pepsi MAX deild karla var frestað um óákveðinn tíma. Um er að ræða heimaleiki okkar manna gegn Stjörnumönnum, sem átti að vera 4. ágúst, og Fylkismönnum, sem átti að vera 10. ágúst.
En Blikaliðið sem sagt heimsækir nágranna okkar í Fossvoginum á sunnudagskvöld til að spila þar við Reykjavíkur Víkinga. Leikurinn er í 12. umf og hefst kl.19:15.
Blikar eru með 14 stig í 5. sæti eftir 9 leiki, einu stigi meira en Víkingar sem eru í 7. sæti líka eftir 9 leiki. Það er deginum ljósara að bæði lið ætla sér 3 stig í leiknum á sunnudaginn. Með sigri klifrar Blikaliðið upp töfluna í 2. sæti. Sigri heimaliðið er 3. sætið í boði.
Sagan
Liðin hafa mæst alls 83 sinnum í mótsleik frá fyrsta innbyrðis leik liðanna árið 1957. Meira>
Tölfræðin frá þessum fyrsta mótsleik árið 1957 er hnífjöfn. Bæði lið hafa unnið 31 leik og jafnteflin eru 21. Meira>
Efsta deild
Í efstu deild eru innbyrðis leikir liðanna 42. Meira>
Víkingar leiða þar með 15 sigra gegn 13 sigrum okkar manan. Jafnteflin eru 14. Blikar hafa skorað 56 mörk gegn 59 mörkum Reykjavíkurliðsins.
Síðustu 5 í efstu í Víkinni
Leikmenn
Í byrjun vikunnar skrifaðu Atli Hrafn Andrason undir langtímasamning við Breiðablik. Atli, sem er uppalinn hjá KR, kom til Víkinga frá Fulham fyrir keppnistímabilið 2018. Nánar>
Okkar maður Kwame Quee hefur leikið með báðum liðum. Hann lék með Víkingsliðinu á láni seinni hluta mótsins í fyrra og varð Bikarmeistari með Víkingsliðinu.
Víkingsliðið er með einn leikmann innan sinna raða sem hefur spilað í grænu treyjunni. Ágúst Hlynsson lék 9 mótsleiki með Breiðabliki árið 2016 og náði m.a. þeim áfanga að verða yngsti leikmaður Breiðabliks til að skora í opinberri keppni – þá 16 ára og tveggja mánað gamall. Þar með sló Ágúst 28 ára met þáverandi þjálfara liðsins, Arnars Grétarssonar, sem var 16 ára og þriggja mánaða gamall þegar hann skorði gegn ÍR árið 1988. Ágúst fór svo til Norwich City og þaðan til Bröndby áður en hann gerði þriggja ára samning við Fossvogsliðið.
Leikurinn
Það má búast við hörkuleik á föstudagskvöld enda hafa þessi lið marga hildina háð.
Vegna fjöldatakmarkanna verður leikurinn án áhorfenda.
Vonandi sjá sem flestir Blikar sér fært að fylgjast með leiknum og hvetja okkar menn til sigurs á einhvern hátt þrátt fyrir fjarlægð frá leiknum.
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar – líka í Víkinni!
Myndbandið að þessu sinni er frá heimaleik okkar manna gegn Reykjavíkur Víkingum - sem fór reyndar fram á Árbæjarvelli en ekki Kópavogsvelli: