BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2021: Breiðablik - Leiknir R.

30.06.2021 image

Blikaliðið tekur á móti Leikni R á Kópavogsvelli á laugardaginn k.14:00 - það er ákveðin nostalgía í kringum leiktímann "klukkan 14:00 á laugardegi".

Um er að ræða leik í 11. umferð Pepsi Max 2021 sem hefst á fimmtudaginn og lýkur á mánudaginn. 

Strákarnir okkar spiluðu síðast við á sunnudaginn. Unnu þá HK í Kórnum í hörku leik og sýndu þá mikin styrk þegar liðið lenti tvisvar undir í leiknum en kom til baka og vann á endanum 2:3 sigur. Leiknismenn unnu líka sigur í síðasta leik. Eftir 3 tapleiki í röð unnu þeir sterkan 2.1 sigur á Víkingum sem tapaði þar með sínum fyrsta leik í sumar. 

Með sigrunum lyfti Leiknisliðið sér frá botnliðunum og Breiðabliksliðið smellti sér í 2. sætið. 

Vefsjónvarpi Stöðvar 2 Sport sýnir leikinn.

Leikurinn á laugardaginn er 11. leikur beggja liða í deildinni en svona lítur stöðutaflan út fyrir leiki helgarinnar:

image

Sagan

Breiðablik og Leiknir R eiga að baki 3 leiki í efstu deild. Heilt yfir eru mótsleikir liðanna 10: þrír leikir í Bikarkeppni KSÍ, fjórir leikir í Deildabikar KSÍ og þrír leikir í A-deild. Reyndar léku liðin leik í innanhússmóti 1. deildar karla í nóvember árið 2006 þannig að skráðir innbyrðis leikir liðanna eru 11. Breiðablik hefur unnið 9 af þessum 11 viðureignum og gert 2 jafntefli.

Breiðablik og Leiknir hafa mæst 11 sinnum innbyrðis frá fyrsta leik árið 1979:

- Fyrsti mótsleikur liðanna var í 32-liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ 20. júní 1979. Leikið var á Kópavogsvelli og lauk lauk leiknum með öruggum 8:0 sigri okkar manna. Nánar!

- Sautján árum síðar er næsti mótsleikur eða árið 1996 þegar liðin mættust í Deildabikar KSÍ. Leikurinn fór fram á Smárahvammsveli. Blikar unnu leikinn 5:1. Nánar!

- Liðin mætust svo næst í Deildabikar KSÍ árið 1999. Leikurinn fór fram á Leiknisvelli. Blikar unnu leikinn 3:0. Nánar!

- Síðasti leikur liðanna í 32-liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ fór fram á Leiknisvelli 15. júní árið 2000. Blikar unnu leikinn 0:4. Nánar!

- Árið 2015 leika liðin tvo leiki í Pepsi deildinni. Fyrri leikurinn fór fram á Leiknisvelli í júní og lauk með 0:2 sigri okkar mana. Nánar! Síðari leiknum á Kópavogsvelli lauk með 0:0 jafntefli. Nánar!

- Í maí árið 2018 mætust liðin í Bikarkeppni KSÍ og nú aftur í 32-liða úrslitum. Leikið var heimavelli Leiknismanna í Breiðaholtinu. Veðurguðirnir settu þó nokkurn svip á leikinn því hagl og sól skiptust á að slást um athyglina. Völlurinn var því vel sleipur og áttu leikmenn í smá erfiðleikum í byrjun að finna rétta snertingu á boltann. Nánar!

- Í fyrsta leik Lengjubikarsins í ár lögðu okkar menn Breiðholtsliðið með fjórum mörkum gegn engu. Mörkin urðu tvö í hvorum hálfleik og hefðu hæglega geta orðið fleiri því við áttum tvær spyrnur í þverslá auk nokkurra nokkuð góðra færa sem við ekki nýttum. Nánar!

Liðin eiga einn leik í innanhússmóti 1. deildar karla í nóvember 2006. Leikinn vann Breiðablik 4:0.

Efsta deild á Kópavogsvelli

Leikmenn

Ekki er hægt að fjalla hér um Leiknisliðið án þesss að benda á að nokkrir núverandi leikmenn Leiknis hafa spilað í grænu treyjunni.

- Sólon Breki Leifsson. Sólon á að baki 20 leiki í deild & bikar með Blikum.

- Bakvörðurinn knái Ósvald Jarl Traustason var fyrst hjá Leikninsmönnum 2013 en gerði svo samning við Leiknisliðið í framhaldinu.

- Bjarki Aðalsteinsson leikur nú með Leiknisliðinu en hann var hjá Blikum 2010-2012.

- Ernir Bjarnason. Ernir á 10 deildarleiki með Kópavogsliðinu á árunum 2014-2017.

Okkar maður Damir Muminovic lék 18 leiki og skorði 2 mörk fyrir Leiknismenn árið 2012.

Og í lok mars á þessu ári komust Leiknir R. og Breiðablik að samkomulagi um félagaskipti Sævars Atla Magnússonar frá Leikni til Breiðabliks eftir að keppnistímabilinu 2021 lýkur. Nánar!

Leikmannahópur Breiðabliks:

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 11. umferðar segir:

Forsagan er sú að ég æfði og spilaði (eða sat réttara sagt aðallega á bekknum) með yngri flokkum á áttunda áratug síðustu aldar, á samt einn Íslandsmeistara verðlaunapening. Tók svo nokkur ár í meistaraflokksráði og stjórn á tíunda áratugnum. Tengingin núna er svo helst að ég æfi karate hjá félaginu.

Valgarður Guðjónsson: Hvernig fer leikurinn?

Það er kannski mótsagnakennt að spá bæði erfiðum leik og góðum sigri – en geri það nú samt.

Ég hef búið í Breiðholtinu í tæp 40 ár og hef gaman af að fylgjast með góðu gengi Leiknis. Það sem ég hef séð þá eru þeir vel skipulagðir, baráttuglaðir og þekkja sína styrkleika (og veikleika). Ég hef ekki marktæka tölfræði en einhverja tilfinningu hef ég að þeir fái gjarnan ódýrar vítaspyrnur, ætla nú kannski ekki að gera þeim leikaraskap, en eru amk. ekki að leggja mikið á sig til að standa í lappirnar.

Að Blikaliðinu.

Ég er mjög ánægður með að sjá þá línu sem hefur verið lögð með spilamennsku, alltaf að spila fótbolta og aldrei að detta í einhvern stórkarlalegan háloftabolta. Þetta viðhorf til fótboltans hefur oftar en ekki einkennt lið félagsins gegnum tíðina og ég held gjarnan með liðum erlendis sem mæta til leiks á sömu forsendum. Þetta er í rauninni eina ástæðan fyrir því að ég nenni að horfa á fótbolta og fer á völlinn. Hver nennir að horfa á einhverja gaura tuddast hver í öðrum og kýla bolta upp í loftið?

Þetta er auðvitað ekki auðvelt, það getur verið brothætt að spila frá öftustu línu og mistök geta verið dýrkeypt, en þegar vel tekst til skilar þetta bæði árangri og skemmtilegum leik. Þetta gerir auðvitað miklar kröfur á leikmenn, skilning á leiknum, tækni og að þekkja hvern annan. Ég tek sem sagt ekki undir gagnrýni á leikaðferð liðsins, en það tekur tíma að fínstilla svona. Stundum virka mistökin eins og „einbeitingarskortur“ - mistök án þess að vera undir pressu og jafnvel einfaldar sendingar að bregðast - ég er nokkuð viss um að það er ekki skýringin - en ef ég vissi svarið væri ég væntanlega í öðru starfi.

Þá er ekki ónýtt að fá mann eins og Andra Rafn aftur - sennilega einn vanmetnasti leikmaður í sögu íslensks fótbolta - en kannski farinn að vekja verðskuldaða athygli.

En ég ætla að treysta því að Blikar mæti af fullum krafti og baráttan verði þannig ekki eitthvað sem skilur á milli liðanna. Þá hef ég fulla trú á að leikkerfi Blikanna sé líklegra til árangurs og að liðið haldi skipulagi. Og þegar við bætist að gæði einstakra leikmanna séu nokkuð meiri í leikmannahópi Blika, með fullri virðingu fyrir mörgum fínum leikmönnum Leiknis, þá ætla ég að gefa mér að Blikar vinni 5:1 - þori ekki að ganga lengra.

En ég kem til með að missa af leiknum, verð fyrir norðan að keppa á Pollamóti.

image

SpáBliki 11. umferðar: Valgarður Guðjónsson

Dagskrá

Leikur Breiðabliks og Leiknis verður á Kópavogsvelli á laugardaginn kl.14:00!

Við megum nú taka við áhorfendum í öll sæti á vellinum okkar og áhorfendur þurfa ekki lengur að bera grímur á leikjum.

Þeir sem eiga árskort geta nú notað þau til að komast á völlinn.

Fyrir aðra fer miðasala fram í gegnum miðasöluappið Stubb. Sömuleiðis verður hægt að kaupa miða í miðasölunni við völlinn.

Það verður kaldur í stofu, börger á grilli og rjúkandi kaffi. Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana. 

Sjáumst á Kópavogsvelli á laugardaginn kl.14:00 og hvetjum Blikaliðið til sigurs gegn sjóðheitum Leiknismönnum. 

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Upphitun BlikarTV og mörkin úr fyrri leik liðanna á Domusnova vellinum í sumar:

Til baka