Pepsi MAX 2021: Leiknir R. – Breiðablik
06.05.2021Önnur umferð Pepsi MAX karla 2021 verður leikin um helgina. Á laugardagskvöld rúllar Breiðabliksliðið alla leið upp í efra Breiðholt til að etja kappi við nýliða Leiknis. Leikurinn hefst kl.19:15. Leikurinn verður aðgengilegir í beinni útsendingu fyrir áskrifendur Stöðvar 2 Sports í gegnum vefsjónvarp. Sjá nánar hér.
Svona lítur taflan út fyrir umferðina:
Sagan
Breiðablik og Leiknir R eiga að baki aðeins tvo leiki innbyrðis í efstu deild. Heilt yfir eru mótsleikir liðanna 9: þrír leikir í Bikarkeppni KSÍ, fjórir leikir í Deildabikar KSÍ og tveir leikir í A-deild. Reyndar léku liðin leik í innanhússmóti 1. deildar karla í nóvember árið 2006 þannig að skráðir innbyrðis leikir liðanna eru 10. Breiðablik hefur unnið 9 af þessum 10 viðureignum og gert 1 jafntefli sem kom í seinni leik liðanna í efstu deild árið 2015.
Breiðablik og Leiknir hafa mæst 9 sinnum innbyrðis frá fyrsta leik árið 1979:
- Fyrsti mótsleikur liðanna var í 32-liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ 20. júní 1979. Leikið var á Kópavogsvelli og lauk lauk leiknum með öruggum 8-0 sigri okkar manna. Nánar!
- Sautján árum síðar er næsti mótsleikur eða árið 1996 þegar liðin mættust í Deildabikar KSÍ. Leikurinn fór fram á Smárahvammsveli. Blikar unnu leikinn 5-1. Nánar!
- Liðin mætust svo næst í Deildabikar KSÍ árið 1999. Leikurinn fór fram á Leiknisvelli. Blikar unnu leikinn 3-0. Nánar!
- Síðasti leikur liðanna í 32-liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ fór fram á Leiknisvelli 15. júní árið 2000. Blikar unnu leikinn 0-4. Nánar!
- Árið 2015 leika liðin tvo leiki í Pepsi deildinni. Fyrri leikurinn fór fram á Leiknisvelli í júní og lauk með 0-2 sigri okkar mana. Nánar! Síðari leiknum á Kópavogsvelli laukl með 0-0 jafntefli. Nánar!
- Í maí árið 2018 mætust liðin í Bikarkeppni KSÍ og nú aftur í 32-liða úrslitum. Leikið var heimavelli Leiknismanna í Breiðaholtinu. Veðurguðirnir settu þó nokkurn svip á leikinn því hagl og sól skiptust á að slást um athyglina. Völlurinn var því vel sleipur og áttu leikmenn í smá erfiðleikum í byrjun að finna rétta snertingu á boltann. Nánar!
- Í fyrsta leik Lengjubikarsins í ár lögðu okkar menn Breiðholtsliðið með fjórum mörkum gegn engu. Mörkin urðu tvö í hvorum hálfleik og hefðu hæglega geta orðið fleiri því við áttum tvær spyrnur í þverslá auk nokkurra nokkuð góðra færa sem við ekki nýttum. Nánar!
Liðin einn leik til viðbótar. Í innanhússmóti 1. deildar karla í nóvember 2006. Leikinn vann Breiðablik 4-0.
Efsta deild á heimavelli Leiknis.
Leikmenn
Ekki er hægt að fjalla hér um Leiknisliðið án þesss að benda á að nokkrir núverandi leikmenn Leiknis hafa spilað í grænu treyjunni.
- Sólon Breki Leifsson. Sólon á að baki 20 leiki í deild & bikar með Blikum.
- Bakvörðurinn knái Ósvald Jarl Traustason var fyrst hjá Leikninsmönnum 2013 en gerði svo samning við Leiknisliðið í framhaldinu
- Bjarki Aðalsteinsson leikur nú með Leiknisliðinu en hann var hjá Blikum 2010-2012.
- Ernir Bjarnason. Ernir á 10 deildarleiki með Kópavogsliðinu á árunum 2014-2017.
Okkar maður Damir Muminovic lék 18 leiki og skorði 2 mörk fyrir Leiknismenn árið 2012.
Og í lok mars komust Leiknir R. og Breiðablik að samkomulagi um félagaskipti Sævars Atla Magnússonar frá Leikni til Breiðabliks eftir að keppnistímabilinu 2021 lýkur. Nánar!
Leikmannahópur Breiðabliks:
Stuðningsmaðurinn
SpáBlikinn er fastur þáttur hér á síðunni fyrir alla leiki meistaraflokks karla í sumar.
Stórblikinn Aðalsteinn Jónsson er borinn og barnfæddur Kópavogsbúi sem lét heldur betur taka til sín á handboltavellinum hér á árum áður. Hann hefur séð um íþróttaskóla Breiðabliks samfleytt í 25 ár og vinnur við íþróttakennslu ásamt því að ala drengina sína upp sem eðal knattspyrnumenn sem elska Breiðablik og giftast eingöngu inn í aðrar Blikafjölskyldur ♥
Aðalsteinn Jónsson: Hvernig fer leikurinn?
"Ja hérna hér – þetta er vandasamt verk að spá fyrir um leik Blika og Leiknis eðli málsins samkvæmt, þar sem Bjarki minn stendur í vörn Leiknismanna og ég hef því taugar til beggja liða. Mín tilfinning er þó sú að leikurinn verði jafn og það verði markalaust í lokin. Ghetto-ground er erfiður völlur heim að sækja og alltaf stemming þar á bæ. Þetta verður hörku leikur þar sem Blikarnir sækja nokkuð en Leiknismenn munu verjast vel. Svo er bara næsta skref að sækja þessa bræður og koma þeim heim í Kópavoginn, henda þeim beint í grænar treyjur og einfalda þannig lífið og gleðja mitt gamla Blikahjarta 😊"
Hér er Blikafjölskyldan öll samankomin - Bragi bróðir og Erla Hendriks, Arnór Sveinn, Bjarki, Einar Bragi, Sandra Sif og börn.
Leikurinn
Leikur Breiðabliks og Leiknis og Breiðabliks verður á Domusnova á laugardagskvöld kl.19:15!
Því miður verða engar afléttingar fyrir þessa umferð í Pepsi Max. Það verður því takmarkaður áhorfendafjöldi á Domusnova á laugardagskvöld. Fólk með árskort frá Leikni mun ganga fyrir.
Leikurinn verður aðgengilegir í beinni útsendingu fyrir áskrifendur Stöðvar 2 Sports í gegnum vefsjónvarp. Sjá nánar hér.
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
Í febrúar komu Leiknismenn í heimsókn Kópavogsvöll í 1.umf Lengjubikarsins 2021. Hér er samantekt BlikarTV frá leiknum.