BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX deild karla 2019:  Breiðablik - KR laugardag 28. september kl. 14:00

26.09.2019

Tuttugasta og önnur og síðasta umferð Pepsi MAX deildar karla 2019 verður leikin á laugardaginn. Allir leikirnir hefjast kl.14:00.

Bæði lið hafa spilað best allra liða í Pepsi MAX deildinni 2019. Fyrir leikinn á laugardaginn eru nýkrýndir Íslandsmeistarar KR langefstir með 49 stig. Breiðabliksliðið er með tryggt Evrópusæti 2019 og liðið er öruggt með annað sætið og því silfurlið mótsins annað árið í röð.

Í raun liggja niðurstöður mótsins fyrir annað en 3. sætið sem gefur Evrópusæti á næsta ári. FHingar eru fyrir umferðina með 34 stig í 3. sæti en Stjörnumenn fylgja fast á eftir með 32 stig í 4. sæti. Stjarnan fær ÍBV í heimsókn í Garðabæinn og FHingar fá jafntefliskóngana frá Grindavík í heimsókn í Kaplakrika. Sigur FH tryggir Hafnarfjarðarliðinu 3. sætið og það með Evrópusæti 2019.

En aftur að leiknum á Kópavogsvelli. Það er auðvitað markmiðið að fara í síðasta leikinn á heimavelli og leggja nýkrýnda Íslandsmeistara KR að velli. Það myndi lina sársaukann yfir þessu súrsæta silfri sem Blikaliðið gulltryggði sér í Eyjum um síðustu helgi.

Sigur myndi fleyta okkar mönnum í 41 stig sem er fínn stigaárangur. Og höldum því til haga að Blikaliðið hefur skorað flest mörk í Pepsi MAX karla í sumar eða 44 mörk. KRingar fylgja fast á eftir með 42 mörk og liðn í 3. og 4. sæti eru skammt undan með 37 mörk fyrir síðustu umferðina á laugardaginn.

Sagan

Breiðablik og KR hafa mæst 90 sinnum í opinberum keppnum. KR hefur vinninginn með 42 sigra gegn 21 sigri Blika. Jafnteflin eru 27.

Efsta deild

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild frá upphafi eru 65 KR-ingar hafa vinninginn með 29 sigra gegn 15 sigrum Blika. Jafnteflin eru 21.

Fyrsti mótsleikur Blika og KR í efstu deild var á Melavellinum árið 1971. Blikar unnu leikinn 1-0 með marki frá Haraldi Erlendssyni. Leikið var á gamla Melavellinum sem var heimavöllur Breiðabliks í efstu deild frá 1971 þar til að Kópavogsvöllur var vígður 7. júní 1975

Í 27 efstu deildar leikjum liðanna frá endurkomu Blika upp í efstu deild árið 2006 er tölfræðin jöfn: KR með 9 sigra, Blikar með 8 sigra, jafnteflin eru 10. Meira>

Í 13 leikjum á Kópavogsvelli frá 2006 er tölfræðin hníf jöfn. Bæði lið hafa unnið 5 sinnum. Jafnteflin eru 3. Meira>

Síðustu 5 á Kópavogsvelli

Úrslit síðustu 5 efstu deildar leikjum liðanna á Kópavogsvelli er jöfn: tveir sigrar og jafntefli:

2018:  1:0  Evrópa í augsýn …

2017:  1:3  Föstu leikatriði KR-inga kláruðu Blika …

2016:  1:0  Það jafnast fátt á við það ...

2015:  2:2  Jafntefli í hörkuleik …

2014:  1:2  Súrt tap í Garðabænum ...

Heisi var á Kópavogsvelli þegar KRingar heimsóttu okkur í 15. umferð í fyrra. Sjón er sögu ríkari. 

Blikar hjá KR

Nokkrir uppaldir Blikar leika með Vesturbæjarliðinu. Kristinn Jónsson gekk til liðs við KR eftir keppnistímabilið 2017. Arnór Sveinn Aðalsteinsson söðlaði um árið 2016 og fór til KR. Finnur Orri Margeirsson gekk til liðs við KR eftir að hafa spilað í Noregi árið 2015. Og fyrrverandi leikmaður okkar Blika, Akureyringurinn Atli Sigurjónsson, leikur nú með Íslandsmeisturum KR en hann lék 49 mótsleiki með Breiðabliki á árunum 2015 til 2017.

Leikmenn

Leikmannahópur Blika er mikið breyttur frá síðasta tímabili. Viktor Karl Einarsson kemur frá Varnamo í Svíðþjóð þar sem hann var á láni frá AZ Alkmaar. Þórir Guðjónsson kemur til okkar frá Fjölni. Kwame Quee kemur frá Víkingum í Ólafsvík en er svo lánaður til Reykjavíkur Víkinga í júlí-glugganum. Guðjón Pétur Lýðsson kemur frá KA. GPL10 lék í fyrra með Íslandsmeisturum Vals. Einnig er Thomas Mikkelsen með Blikum frá fyrsta mótsleik í ár. Thomas kom til okkar í júlí-glugganum í fyrra. Rétt fyrir mót ganga Höskuldur Gunnlaugsson og Arnar Sveinn Geirsson til liðs við Breiðablik. Höskuldur kemur á láni til okkar út keppnistímabilið frá Halmstads BK. Arnar Sveinn Geirsson kemur til okkar frá Íslandsmeisturum Vals og gerir tveggja ára samning við Breiðablik. Svo er Gísli Eyjólfsson kominn til baka eftir rúmlega hálfs árs dvöl á láni hjá sænska 1.deildarliðinu Mjallby. Þá er Aron Bjarnason farinn til ungverska úrvalsdeildarliðsins Újpest. Og Blikinn snjalli Kolbeinn Þórðarson hefur samið við belgíska 1. deildarliðið Lommel til þriggja ára. Rétt fyrir gluggalok í júlí kvittaði Alfons Sampsted upp á lánssamning við Breiðablik frá Norrköping þetta keppnistímabil. Og Andri Rafn Yeoman hefur haldið til náms á Ítalíu og mun því missa að tveimur síðustu leikjum tímabilsins. Leikmannahópur Blika 2019

Dagskrá

Sjáumst á Kópavogsvelli á laugardaginn kl.14:00 og hvetjum Blikaliðið til sigurs í lokaleik keppnistímabilsins.

Veðurspáin er frábær þannig að við hvetjum sem flesta til að mæta á Kópavogsvöll á morgun og sjá tvö bestu lið landsins etja kappi á knattspyrnuvellinum.

Ágúst Gylfason þjálfari kveður nú liðið eftir tvö keppnistímabil. Hann mun samt mæta á upphitun hjá Blikaklúbbnum í stúkunni rétt fyrir kl. 13.30. Við hvetjum alla stuðningsmenn til að mæta og kveðja þennan öðling sem Ágúst er.

Við hvetjum fólk til að mæta tímanlega eða sleppa röðinni og sækja Stubb! Stubbur auðveldar stuðningsmönnum að kaupa miða á leiki í Pepsi MAX og Inkasso deildunum, ásamt því að fylgja sínu liði. Smelltu hér til að ná í appið í dag.

Það verður kaldur í tjaldi, börger á grilli og rjúkandi kaffi. Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.Þrjú stig gegn nýkrýndum Íslandsmeisturum KR í boði.

Í leikslok afhendir fulltrúi KSÍ Breiðabliksliðinu silfurverðlaun.  

Flautað verður til leiks kl.14:00!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka