BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX deildin 2019: HK – Breiðablik í Kórnum á laugardaginn kl.16:00

02.05.2019

Kópavogsslagurinn mikli í Kórnum á laugardaginn verður eitthvað. Þetta verður ,,derby“ slagur af bestu gerð þegar HK og Breiðablik mætast í 2. umferð Pepsi MAX deildarinnar í Kórnum í Kópavogi á laugardaginn kl.16:00. Það má búast við hörkuleik.

Ellefu ár eru liðin frá síðasta leik liðanna í efstu deild í lokaumferð Landsbankadeildarinnar í september 2008 á Kópavogsvelli sem þá var eitt drullusvað.
HK-ingar unnu þá viðureign 2:1 með mörkum frá Herði Má Magnússyni og Aaron Palomares á 5´, og 15´mín. Marel Jóhann Baldvinsson klóraði í bakkan fyrir Blika með marki á 85´.

Liðin ferðuðust í suðurátt í fyrstu umferð Pepsi MAX 2019. HKingar lutu í gras 2:0 gegn FH í Krikanum. Blikar keyrðu hinsvegar suður með sjó og unnu góðan 0:2 sigur á liði Grindvíkinga.

Í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á frídegi verkalýðsins, miðvikudaginn 1.mai, unnu liðin sannfærandi sigra og eru bæði kominn í 16-liða pottinn. HKingar fengu lið Fjarðarbyggðar í heimsókn í Kórinn og unnu sannfærandi 5:1 sigur. Blikar flugu norður á Akureyri til að etja kappi við Magnamenn frá Grenivík. Fyrirfram mátti búast við ójafnri viðureign. Ekki bætti úr skák fyrir heimamenn að missa fyrirliðann sinn af velli og það strax á 5. mín fyrir brot, enda fóru leikar þannig að Blikar unnu leikinn með 10 mörkum gegn 1 marki Magnamanna. Meira>

Sagan

Breiðablik og HK eiga að baki 24 mótsleikii auk góðgeðarleikja enda gott samstarf milli Kópavogsfélaganna. Yfirlit mótsleikja Hér>

Mótsleikirnir liðanna raðað eftir keppnum:

Efsta deild – 4 leikir (2-1-1) 

Næstefsta deild – 8 leikir (4-2-2)

Bikarkeppni KSÍ – 4 leikir (4-0-0)

Deildarbikar KSÍ – 5 leikir (4-1-0)

Fótbolti.net – 3 leikir (1-1-1)

Leikurinn á laugardaginn verður því 25. mótsleikur liðanna frá upphafi og 5. leikur liðanna í efstu deild. Meira>

Fyrri viðureignir liðanna í efstu deild:

27.9.2008: 2:1 Kópavogsvöllur. Heimaleikur HK í lokaumferðinni. Mörk HK skora Hörður Már Magnússon á 5´og Aaron Palomares á 15´. Marel Jóhann Baldvinsson klóraði í bakkan fyrir Blika með marki á 85´. Meira>

14.7.2008: 2:1 Kópavogsvöllur. Heimaleikur Blika í 11. umferð. Mörk Blika skoruðu Marel Jóhann Baldvinsson á 11´og Nenad Zivanovic á 32´. Hörður Már Magnússon skoraði mark HK á 75’. Meira>

23.9.2007: 1:1 Kópavogsvöllur. Heimaleikur HK í 17. umferð. HKingar skorðuðu bæði mörkin því HK maðurinn Ásgrímur Albertsson varð fyrir því “óláni” að skora sjálfsmark á 42´mín. Það var svo Þórður Birgisson sem jafnaði leikinn með marki á 83´. Meira>

26.6.2007: 3:0 Kópavogsvöllur. Heimaleikur Blika í 8. umferð. Mörk Blika: Kristján Óli Sigurðasson 3´, Prince Linval Reuben Mathilda 60’ og Olgeir Sigurgeirsson á 89´. Leikurinn var fyrsti leikur liðanna í efstu deild. Meira>

Heisi Heison hjá BlikarTV fór á röltið og spjallaði við þjálfarann og fyrirliðann um leikinn á morgun.  

Leikmenn

Nokkir núverandi leikmanna Blika hafa leikið með báðum liðum. Fyrrum HKingar Gunnleifur Gunnleifsson og Damir Muminovic spila nú með Breiðabliki eins og alkunna er. Einnig lék Viktor Örn Margeirsson með HK sem lánsmaður árið 2014. Með HK leikur nú fyrrum leikmaður Breiðabliks Arnþór Ari Atlason og Aron Kári Aðalsteinsson er þar lánsmaður frá Breiðabliki.

Leikmannahópur Blika hefur breyst töluvert milli ára. Í desember var Ólafur Íshólm lánaður til Fram. Gísli Eyjólfsson var lánaður til Mjallby til loka árs 2019. Í janúar gerðu Breiðablik og HK samkomulagi um vistaskipti Arnþórs Ara Atlasonar til nágranna okkar. Aron Kári Aðalsteinsson mun einnig spila með HK í sumar sem lánsmaður en Aron ætlar í nám til Bandaríkjanna seinnipartinn í sumar. Í janúar var Andri Fannar Baldursson lánaður til Bologna. Í febrúar var Arnór Gauti Ragnarsson seldur til Fylkismana. Um miðjan febrúar skrifuðu svo tveir leikmenn undir samninga við erlend lið: Willum Þór Willumsson gerði samning hjá BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi og Davíð Kristján Ólafsson skrifaði undir samning við norska liðið Álasund.

Blikar fá til sín Viktor Karl Einarsson sem kemur heim frá Varnamo í Svíðþjóð þar sem hann var á láni frá AZ Alkmaar. Þórir Guðjónsson kemur frá Fjölnismönnum. Kwame Quee lék síðast með Ólafsvíkur Víkingum. Guðjón Pétur Lýðsson kemur til okkar frá KA en hann lék með Íslandsmeisturum Vals í fyrra. Einnig er Thomas Mikkelsen með frá fyrsta leik núna en hann kom til liðs við okkur í júlí-glugganum í fyrra. Rétt fyrir mót ganga þeir Höskuldur Gunnlaugsson og Arnar Sveinn Geirsson til liðs við Breiðablik. Höskuldur kemur á láni til okkar út keppnistímabilið frá Halmstads BK. Arnar Sveinn Geirsson gerir tveggja ára samning við Breiðablik. Leikmenn 2019>

Leikurinn

Leikur HK og Breiðabliks verður í Kórnum á laugardaginn klukkan 16:00. Veðurspáin í Kórnum er góð.

Þetta er leikur sem engin Kópavogsbúi má láta fram hjá sér fara!

Áfram Breiðablik, alltaf, alls staðar!

Til baka