BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ráðgáta

27.06.2017

9.umferð PEPSI deildarinnar lauk í kvöld með viðureign Blika og Grindvíkinga. Grindvíkingar hafa verið á blússandi siglingu undanfarið og voru með 17 stig í öðru sæti deildarinnar fyrir þennan leik. Blikar verið að basla smá undanfarið og stigasöfnun gengið erfiðlega. Mörk í uppbótartíma hafa reynst okkur dýrkeypt og sérstaklega var gjafavítið gegn KR svekkjandi.
Það var þokkalegt veður í kvöld.  Hægviðri af suðvestri og hiti, ef hita skyldi kalla, nærri 9°C en kólnaði aðeins er á leið og ein eða tvær súldarskammir litu við.  Ullin og úlpan var algjörlega málið í stúkunni.

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)(F)
Ernir Bjarnason - Damir Muminovic - Michee Efete - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Gísli Eyjólfsson - Arnþór Ari Atlason - Martin Lund Pedersen - Höskuldur Gunnlaugsson - Hrvoje Tokic
Varamenn:
Ólafur Íshólm Ólafsson(M) - Kolbeinn Þórðarson - Aron Bjarnason - Brynjar Óli Bjarnason - Guðmundur Friðriksson - Willum Þór Willumsson - Viktor Örn Margeirsson

Sjúkralisti: Oliver Sigurjónsson (meiddur)
Leikbann: Enginn

Blikar með óbreytt lið frá síðasta leik.

Byrjunin á leiknum lofaði góðu fyrir Blika. Gestirnir fengu lítinn tíma og gekk ekkert að halda boltanum en Blikar héldu boltanum og náðu þokkalegum hraða í sinn leik og boltinn gekk vel manna á milli. Fyrsta stundarfjórðunginn eða svo var um algjöra einstefnu að ræða og eftir 17 mínútna leik höfðu gestirnir  komist einu sinni fram yfir miðju en Blikar átt fjölda sókna og nokkur skot en náðu ekki að ógna marki gestanna að ráði, þó oft munaði litlu. Hættulegasta færið kom eftir hálftíma leik þegar Davíð átti frábæra fyrirgjöf frá vinstri  og Höskuldur skaust fram fyrir varnarmann en náði ekki almennilegum skalla og boltinn fór í grasið og yfir markið. Tokic  hafði skömmu áður átt aukaspyrnu sem fór naumlega framhjá og átti svo aðra skömmu síðar og hún fór hárfínt framhjá. Þá vildu sumir fá rautt spjald þegar brotið var á Gísla sem var á fleygiferð og kominn einn í gegnum vörn gestanna. En dómarinn var ekki á þeim buxunum. Það sem eftir lifði hálfleiks sóttu Blikar stanslaust en höfðu ekki erindi upp við markið. Það er orðið nokkuð langt síðan Blikar hafa haft aðra eins yfirburði úti á vellinum og eiginlega ráðgáta hvernig gestirnir sluppu inn með 0-0 í hálfleik. En það var engu að síður staðreynd.

Hálfleikskaffið og sætabrauðið sveik ekki frekar en fyrri daginn. Blikar ánægðir með spilamennskuna og allt það en... eins og oft áður vantaði herslumuninn upp við markið, eða kannski meiri grimmd og frekju. Þeir bölsýnu töldu leikinn nánast tapaðan ef við fengjum á okkur mark. Höfðu ekki trú að við myndum skora úr því það hafðist ekki í fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikur hófst einsog sá fyrri endaði og Blikar héldu uppteknum hætti. Náðu samt ekki að skapa afgerandi færi og lítið varð úr hornspyrnum okkar manna sem voru fjölmargar í þessum leik. En það hlaut að koma að því að gestirnir létu að sér kveða og allt í einu voru þeir búnir að galopna vörn okkar hægra megin en sóknarmaður þeirra fór illa með upplagt marktækifæri og brenndi af. Þar munaði litlu.  Áfram héldu okkar menn og reyndu að ógna með skotum utan af velli en þau náðu varla máli. En eitthvað varð að reyna úr því ekki tókst að opna vörn gestann upp á gátt. Reyndar fannst manni of mikið reynt að troðast í gegnum miðju varnarinn en mesta ógnin var svo þegar farið var upp kantana. Maður hefði viljað sjá meira af því. Davíð var mikið í því, sérstaklega í fyrri hálfleik og það skapaði ávallt hættu en í síðari hálfleik var minna um þetta og meira reynt að hnoðast í gegnum miðjuna á of mörgum sendingum. Hálgerður reitabolti á köflum. Gestirnir fengu svo sannkallað dauðfæri á 70. mínútu þegar Ernir var skilinn eftir með tvo menn og annar þeirra náði fínu skoti en boltinn fór hárfínt framhjá. Þarna bilaði vörnin illilega því Ernir var skyndilega aleinn gegn tveimur. En í þetta sinn var gæfan á okkar bandi. Skömmu síðar gerðu Blikar breytingu og Aron kom inn fyrir Erni og Höskuldur fór í bakvörðinn. Þarna var einsog gestirnir væru aðeins að ná tökum á leiknum en það fjaraði snarlega út og skömmu síðar fengu Blikar sitt albesta færi þegar Aron sendi boltann milli fóta andstæðings, beint á Arnþór Ara en skot hans fór framhjá. Æææ...
Skömmu síðar vildu okkar menn fá víti þegar Aron féll við í þann mund hann var að fara að skjóta á markið en dómarinn hristi bara hausinn og gaf ekkert. Þarna hefði Þóroddur kannski látið okkur hafa víti. Blikar héldu áfram að sækja og þjarma að heimamönnum það sem eftir lifði leiks. Kolbeinn kom inn fyrir Arnþór Ara og áfram héldu okkar menn að reyna. En nú var komin svolítil örvænting í þetta og allir ætluðu að skora sigurmarkið. Og það hefði Martin getað gert á fjórðu mínútu í uppbótartíma, eftir gott einstaklingsframtak, en skot hans úr fínu færi fór hátt yfir markið. Það var síðasta marktækifærið í þessum leik og niðurstaðan því markalaust jafntefli. Ótrúlegt.

Niðurstaðan alveg gallsúr, en staðreynd engu að síður. Jákvæði punkturinn var að við héldum hreinu í fyrsta sinn í sumar. Það skal ekki vanmetið.

Hvernig í ósköpunum við fórum að því að vinna ekki þenna leik er ráðgáta af dýrari gerðinni. En svona í tilefni dagsins má kannski segja að Blikar hafi boðið upp á hálfan Harry Potter á opinberum afmælisdegi hans. Ráðgátan var til staðar en það vantaði galdurinn. Það kemur.

Nú hlaupum við yfir eina umferð því næsti leikur okkar manna er heimaleikur gegn FH næstkomandi mánudag. Leikurinn tilheyrir 11. umferð en var flýtt vegna þátttöku FH í Evrópukeppni.

Áfram Breiðablik !

OWK

Umfjallanir annarra netmiðla. 

Til baka