- Blikar fagna marki sem Tokic skortaði beint úr aukaspyrnu. Mynd: HVH
- Gulli var öruggur í markinu. Mynd: HVH
- Dómarinn gerði sig sekan um ótrúlegan dómgreinarskort og dæmi víti á þetta atvik. Mynd: HVH
- Ernir Bjarnason var í byrjunarliði í fyrsta sinn á þessu tímabili. Mynd: HVH
- Gísli Eyjólfsson stóð sig vel á miðjunni og átti nokkrar góðar marktiraunir í leiknum. Mynd: HVH
- Davíð Kristján var góður í sínum hundraðasta mótsleik með Breiðabliki.
Rán í Vesturbænum
21.06.2017
Annan leikinn í röð þurfum við Blikar að horfa á eftir stigum á lokasekúndum leiks. Í þetta skiptið var hlutskiptið á vissan hátt sárara því í Valsleiknum getum við engum öðrum um kennt en eigin andvaraleysi. En í þessum KR-leik var jöfnunarmark þeirra röndóttu svindl því vítaspyrnan sem var dæmt var auðvitað algjört rugl. Þessum úrslitum verður hins vegar ekki breytt og ljóst er að við verðum við að halda einbeitingu í 95 mínútur eða lengur. Framundan er spennandi leikur gegn spútnikliði Grindavíkur á Kópavogsvelli á mánudaginn og lofar spilamennska Blikaliðsins góðu fyrir þann slag.
Byrjunarlið Blika í leiknum gegn KR: Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)(F) - Ernir Bjarnason - Guðmundur Friðriksson - Damir Muminovic - Michee Efete - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Gísli Eyjólfsson - Arnþór Ari Atlason - Martin Lund Pedersen - Höskuldur Gunnlaugsson - Hrvoje Tokic
Varamenn: Ólafur Íshólm Ólafsson(M) - Kolbeinn Þórðarson - Aron Bjarnason - Sólon Breki Leifsson - Guðmundur Friðriksson - Willum Þór Willumsson - Viktor Örn Margeirsson Sjúkralisti: Oliver Sigurjónsson (meiddur). Leikbann: Enginn
Á margan hátt getum við líka verið ánægð með spilamennsku Blikaliðsins í Vesturbænum. Það var mikil barátta í liðinu og oft sáust lipurlegar sóknarlotur í leiknum. Varnarlínan hélt vel og Gulli var öruggur í markinu. Varði stundum frábærlega og reyndar má segja það sama um Kópavogsbúann Beiti í markinu hinum megin. En samt sem áður kom einungis eitt mark í venjulegum leiktíma. Það gerði Tokic (þótt markið hafi verið skráð sem sjálfsmark á markvörð KR-inga) beint úr aukaspyrnu í fyrri hálfleik.
Í síðari hálfleik héldum við KR-ingum í skefjum mest allan leikinn og héldu nú flestir að við myndum sigla heim í Kópavoginn með 3 stig. En því miður gerði dómarinn sig sekan um ótrúlegan dómgreinarskort þegar hann lét ungan varamann KR-inga veiða sig í gildru. Jafnvel þótt þessi drengur eigi knattspyrnugenin úr móðurættinni frá Kópavogi þá þýðir það ekki að dæma eigi vítaspyrnu honum í hag. Fyrir þá sem hafa áhuga á ættfræði þá er móðir þessa drengs Hrafnhildur Gunnlaugsdóttir (Helgasonar bakvarðar Blikaliðsins 1972-81. Og þar með náfrændi Elfars Freys Helgasonar miðvarðar (,,Basla“ Helgasonar). Hrafnhildur var sjálf mjög efnileg knattspyrnukona og lék 19 leiki fyrir Blikaliðið og skoraði 7 mörk áður en hún snéri sér að því að framleiða góða knattspyrnumenn.
Ýmsir Blikar hafa verið að pirra sig á glötuðum tækifærum að undanförnu. En það hefur ekkert upp á sig. Það þýðir ekkert að velta sér upp úr því liðna. Við þurfum bara að safna liði og hefna Björns bónda eins og Ólöf ríka gerði á Snæfellsnesi á sínum tíma.
Grindavíkurleikurinn býður upp á ýmsa möguleika. Það er stutt á milli topp- og botnbaráttunnar. Ef við vinnum þá gulklæddu spyrnum við okkur vel upp töfluna. Við viljum hins vegar ekki hugsa þá hugsun til enda ef við misstígum okkur.
Strákarnir okkar hafa æft vel undanfarna daga og eru mjög fókuseraðir á leikinn á mánudaginn.
Það má búast við fjölmenni á Kópavogsvöll og hvetjum við alla Blika til að mæta í grænu og hvetja liðið okkar til sigurs.
Leikurinn á mánudaginn hefst klukkan 20:00.
Áfram Breiðablik, alltaf, alls staðar!
-AP