Umfjöllun: Sætur sigur á Skaganum
12.08.2019Blikar unnu mjög góðan 1:2 sigur á Skagamönnum á Akranesvelli í gær. Okkar drengir lögðu grunninn að sigrinum með frábærum fyrri hálfleik. Heimamenn sóttu nokkuð hart að okkur í síðari hálfleik án þess þó að skapa sér verulega hættuleg færi. Þrjú stig í Kópavoginn og enn möguleiki að berjast um Íslandsmeistaratitilinn.
Það blés hressilega á Skaganum eins og oft áður. Hvort sem það var veðrinu að kenna eða einhverju öðru þá voru líklegast fleiri Skagamenn að synda í sjónum við Langasand en að horfa á leikinn. Enda er þessi sjósundsaðstaða líklegast sú besta á landinu!Kópavogsbúar mættu hins vegar ágætlega en veðráttan dró sjálfsagt úr mætingu.
Blikar byrjuðu leikinn heldur betur með miklum krafti. Á fyrstu tíu mínútum leiksins skoruðum við tvö fín mörk. Fyrst Thomas Mikkelsen eftir klafs í teignum og svo Höskuldur Gunnlaugsson með stórglæsilegu skoti utan teigs. Höskuldur var mjög góður í leiknum. Sífellt ógnandi og skoraði geggjað mark.
Þá kom fyrsti af mörgum furðulegum dómum Jóhanns Inga aðaldómara leiksins. Hann dæmdi víti á Blikaliðið eftir fullkomlega löglega varnarvinnu Viktors Arnars.Síðar í leiknum skellti hann gulu spjaldi á Thomas eftir að Árni Snær markvörður hafði þrumað í bakið á Dananum. Eitthvað var kuldinn á Skaganum að fara illa í dómarann en sem betur fer kom þetta ekki að sök varðandi úrslit leiksins. Þrátt fyrir að Skagamenn minnkuðu muninn úr vítinu þá tvíelfdust Blika við mótlætið. Þeir sundurspiluðu Skagamenn löngum stundum og það var í raun grátlegt að við skyldum ekki skora að minnsta kosti 2-3 mörk meira í hálfleiknum. Við því með einungis eins marks forskot í leikhléi.
Atvik og mörk úr leiknum í boði BlikarTV
Skagamenn hófu síðari hálfleik með mikilli pressu. Flestar sóknirnar hófust með löngum útspörkum Árna Snæs í markinu en spyrnugeta hans gæti gert hvern meðalútispilara grænan af öfund. En varnarlína Blika var vandanum vaxin og náði að hrinda öllum sóknartilþrifum á bak aftur. Hins vegar vantaði aðeins að við róuðum okkur niður og spiluðum í gegnum vörnina líkt og við höfðum gert í fyrri hálfleik. En þegar mesti kraftur var úr Skagamönnum eftir 10-15 mínútna leik í síðari hálfleik fórum við aftur að ógna marki heimapilta. Við áttum meðal annars tvöfalt tækifæri í gulu slána en inn vildi boltinn ekki.
Blikar fögnuðu ákaft þegar flautað var til leiksloka enda þrjú dýrmæt stig í húsi. Fyrri hálfleikur var líklegast sá besti sem Blikar hafa sýnt í sumar. Guðjón Pétur var sem kóngur á miðjunni og deildi boltanum til hægri og vinstri.
Alfons kemur með gríðarmikinn hraða og ógnun fram á við og Viktor fer vaxandi með hverjum leik. Svo er gaman að sjá hve Gísli er að nálgast sitt gamla form. Það hlýtur að styttast í að hann fari að skora mörk en hann var oft nálægt því í leiknum. Í heildina var varla veikan blett að finna á Blikaliðinu og virðast þjálfararnir vera búnir að finna réttu blönduna. Þetta lofar góðu varðandi framhaldið enda veitir ekki af.
Á fimmtudaginn mætum við Víkingum í undanúrslitum Mjólkurbikarsins og þá er tækifæri til að hefna fyrir sárgrætilegt tap frá í síðasta leik gegn þeim. Fjölmennum því í Víkina og hvetjum Blikana til sigur. Við ætlum okkur sigur í bikarkeppninni og leikurinn á fimmtudaginn er nauðsynlegt skref í þá átt.
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
-AP
Mörkin og atvik úr leiknum.