Sætur sigur á Víkingum
24.03.2015
Blikar unnu mikilvægan 4:1 sigur á Víkingum frá Ólafsvík í Lengjubikarnum í Fífunni í kvöld. Sigurinn var þó ekki eins öruggur eins og tölurnar gefa til kynna því við vorum í hálf-gerðu basli með gestina framan af leik. Arnþór Ari setti tvö góð mörk og Guðjón Pétur og Ellert sitt markið hvor.
Blikar tefldu fram nokkuð breyttu liði frá undanförnum leikjum. Oliver og Höskuldur voru frá vegna U-21árs landsliðsferðar, Andri Rafn hvíldi vegna smávægilegra meiðsla og þjálfararnir ákvaðu að gefa Viktori og Kára tækifæri í miðju varnarinnar. Blikaliðið byrjaði nokkuð vel en varnarleikurinn var þó ekki nógu traustvekjandi. Eftir slaka varnarvinnu þá komust gestirnir yfir í byrjun leiks. En fljótlega jafnaði Guðjón Pétur með góðum skalla eftir flotta fyrirgjöf frá Arnóri utan af kanti.
En okkur tókst ekki að fylgja þessu marki eftir. Skipulagið okkar gekk ekki almennilega upp og við vorum ekki að skapa okkur nægjanlega mörg færi. Eftir rúmlega 15 mínútna leik í síðari hálfleik fengu þjálfararnir nóg. Þeir skiptu ungum og efnilegum framherja, Arnóri Gauta Ragnarssyni, inn á, færðu Guðjón Pétur inn á miðjuna og skiptu í 4-4-2 leikkerfi. Það var eins og við manninn mælt að leikur Blikaliðsins gerbreyttist. Arnþór Ari og Ellert ógnuðu miklu meira og fljótlega skoraði Arnþór Ari fínt mark eftir góðan undirbúning Arnórs og Davíðs. Skömmu síðar geystist Arnþór upp kantinn og lagði boltann vel fyrir Ellert sem þrumaði knettinum í markið. Undir lok leiksins bætti síðan Arnþór Ari við fjórða markinu eftir góðan undirbúnings Davíðs og Ellerts. Annar ungur og efnilegur leikmaður, Sölvi Pálsson, þreytti líka frumraun sína í leiknum og stóð sig vel.
Það er erfitt að dæma Blikaliðið út frá þessum leik. Liðið var ekki nægjanlega sannfærandi framan af leik. En með breyttu leikskipulagi kom allt annað flot á boltann. Marktækifærin komu í hrönnum og við hefðum jafnvel getað skorað fleiri mörk. Guðjón Pétur átti ágætan leik á miðjunni og var ógnandi með góðum sendingum og leikskilningi. Gunnleifur markvörður sýndi snilli sína nokkrum sinnum og varði nokkrum sinnum frábærlega.
En þetta var ágætur undirbúningur undir mjög mikilvægan leik gegn FH á laugardaginn kl.12.00 í Fífunni. Búast má við fjölmenni vegna núnings milli félaganna að undanförnu. Við hvetjum því alla til að mæta nógu snemma til að fá sæti.
Sjá liðsuppstillinguna hér.
-AP