Sannfærandi sigur gegn nýliðunum
15.06.2020Pepsi Max deildin er runnin af stað, loksins,loksins, og okkar strákar fengu sannarlega verðugt verkefni að kljást við í upphafsleiknum. Nýliðar Gróttu af Seltjarnarnesi komu í heimsókn og margir biðu þessarar viðureignar í ofvæni af ýmsum ástæðum.
Nægir þar að nefna í fyrsta lagi að Grótta steig í kvöld sín fyrstu spor í efstu deild karla, og í öðru lagi, að þarna áttust við þjálfarar eftir margumtöluð innbyrðis stólaskipti eftir síðasta tímabil og svo í þriðja lagi, að menn biðu spenntir eftir frumsýningu á glænýrri leikaðferð Blika, sem eins og kunnugt er hefur vakið mikið umtal og stóraukið sölu á nítróglyserintöflum í póstnumerum 200 - 203.
Veður var heldur hráslagalegt í kvöld, suðaustan strekkingur, þurrt en þungskýjað, og hiti svona að dansa í kringum 10° C. Semsagt ekkert sérstakt, en slapp til. Umgjörð í kringum leikinn öll í stakasta lagi og áhorfendur á 3ja þúsundið, eða 2114 sem verður að teljast mjög góð mæting.
Ennfremur var gleðilegt að sjá þessi flottu auglýsingaskilti við endamörkin beggja vegna. Þetta er almennilegt.
Þess má geta að fulltrúar úr stjórn knattspyrnudeilda beggja liða snæddu saman malsverði fyrr í dag og við það tækifæri afhenti formaður vor, Orri Hlöðversson, kollega sínum í Gróttu gjöf frá deildinni, um leið og hann bauð þá velkomna til leiks í efstu deild.
Byrjunarlið Blika í kvöld var svona:
Semsagt 8 uppaldir hófu leikinn. Ekki að það skipti öllu máli, aðalatriði er að þeir sem spila í grænu treyjunni séu góðir í fótbolta. Það er hinsvegar ákveðinn gæðastimpill á starf deildarinnar þegar þetta fer saman í þeim mæli sem nú er og vert að geta þess.
Blikar hófu leikinn og eftir að gestirnir áttu meinlítla marktilraun upp úr aukaspyrnu þá tóku okkar menn öll völd á vellinum og héldu boltanum vel innan liðsins. Gestirnir voru þéttir í varnarleiknum og léku sannkallaða og skiljanlega grjótgarðsvörn. Okkar menn létu boltann ganga mann á milli og voru einsog hungraðir úlfar sem biðu þess þolinmóðir að bráðin gæfi færi á sér. Tómas fékk sannkallað dauðafæri eftir ein slík mistök en markvörður gestanna náði að slæma hendinni boltann sem strauk stöngina á leið sinni aftur fyrir endamörk. Þar munaði litlu. Skömmu síðar slapp Thomas í gegnum vörn gestanna og skoraði en var dæmdur rangstæður. Það var nú bara byrjunin. Skömmu síðar var okkar maður togaður gróflega niður þegar hann var að sleppa í gegn. Slakur dómari leiksins flautaði á brotið en sleppti spjaldinu. Reglurnar eru samt alveg nógu skýrar hvað þetta varðar. Áfram héldu Blikar að þjarma að gestunum og það var bara eitt lið á vellinum á löngum köflum, því jafnharðan og Blikar misstu boltann eða gestirnir komust inn í sendingar, sem var reyndar óþarflega oft, þá réðust okkar menn á þá og hirtu af þeim boltann. Mikil og stöðug pressa og yfirburðir úti á velllinum bar svo loks ávöxt eftir tuttugu mínútna leik. Blikar léku laglega upp vinstri vænginn og Gísli kom boltanum inn á Brynjólf sem var inn í teig gestanna og sneri baki í markið. Hann tók eina létta fintu yfir á vinstri fótinn og sneri svo rakleitt í 90° og upp að endamörkum þar sem hann lyfti svo boltanum yfir varnarmenn gestanna og út á markteigshornið fjær. Þar kom Viktor Karl á ferðinni og hamraði einn þéttingsfastan, innanfótar í netið. Glæsilegt mark og Blikar komnir með verðskuldaða forystu.
Blikar færðust nú allir í aukana en gestirnir vörðust með kjafti klóm og stundum enn vafasamari meðölum. Thomas skoraði enn og aftur eftir að Blikar tættu vörn gestanna í sundur, en aftur var dæmd rangstaða. Í þetta sinn var þetta mjög tæpt og verður fróðlegt að sjá hvort þetta sést vel í sjónvarpinu. Áfram hélt leikurinn og nú var komið að Brynjólfi að spreyta sig. Hann komst í sannkallað dauðafæri eftir laglegan samleik en markvörðurinn varði skotið í stöngina. Þarna munaði litlu.
Nánast á sömu mínútu átti Gísli frábæran sprett sem lauk með því að Gróttumenn tóku hann gróflega niður og þá sauð uppúr. Ljótt brot vissulega atarna en Blikar þurfa að venjast því að það sé brotið á þeim og varast að bregðast svona harkalega við strax á eftir þegar dómarinn er með bæði augun á sínum stað, ef svo má að orði komast. Uppskeran var 2 spjöld á Blika og 2 á Gróttu. Þarna þurfa menn að róa sig aðeins og sýna örlítið meiri klókindi, þetta er það sem koma skal.
Það sem eftir lifði hálfleiksins var á sömu lund, Blikar stjórnuðu umferðinni en náðu ekki að bæta við marki, þó litlu munaði þegar Thomas þvældist í boltann í markteignum. Honum voru hinsvegar svo krosslagðir fætur að annar skaut i hinn og varð fátt um kveðjur með þeim. Það var því aðeins eitt mark sem skildi liðin í hálfleik þrátt fyrir dæmafáa yfirburði okkar manna.
Hálfleikskaffið, rjúkandi heitt, smakkaðist vel að venju og voru því gerð góð skil með vel útilátnu meðlæti. 2ja metra reglan var ekki mjög áberandi í þessu hólfi en sennilega voru aldrei fleiri en 200 inni í einu.
Síðari hálfleikur hófst svo með því að leikmaður Gróttu sneri Viktor Karl niður og hlaut að launum gult spjald. Áfram héldu Blikar að pressa og koma sér í færi og hálffæri. Thomas skoraði svo flott mark með skalla en enn var dæmd rangstaða. Það má mikið vera ef þetta mark var ekki gott og gilt. En hann þurfti svo ekki að bíða mjög lengi eftir löglegu marki, því svona 2 mínútum eftir skallamarkið ólöglega skoraði hann prýðilega snoturt mark eftir flottan undirbúning Andra Rafns. 2-0 fyrir Blika og nú var ljóst að þetta yrði erfið nýliðavígsla fyrir gestina.
Áfram héldu Blikar og Brynjólfur fékk gráupplagt færi eftir frábæra sókn en hitti ekki boltann í dauðafæri. Gróttumenn sneru nú vörn í sókn og komust í þokkalegt færi þegar varnarmenn Blika vanmátu áhrif vindsins á boltaflugið, en Anton varði í horn. Þetta hefði getað farið illa. Skömmu síðar misstu svo gestirnir mann af velli og og var það algjörlega verðskuldað. Thomas var á fleygiferð upp hægri kantinn og var á leið framhjá varnarmanni þegar sá síðarnefndi setti bara út hramminn og laust þann danska bylmingshöggi að því best var séð. Dómarinn var nærstaddur og sýndi brotamanninum þegar í stað gult spjald og þar sem þetta var sá hinn sami sem hafði snúið Viktor niður, þá fylgdi það rauða í kjölfarið. Þarna héldu nú flestir að leiknum væri formlega lokið en sú var nú ekki raunin. Blikar gerðu nú sína fyrstu breytingu á 65.mínútu þegar Guðjón Pétur kom inn fyrir Oliver. Gróttumenn fengu svo upplagt færi skömmu síðar eftir að Blikar sofnuðu illa á verðinum en Elfar bjargaði á síðustu stundu. Næstu mínútur var mikið fjör þar sem liðin skiptust á að sækja en besta færið fékk Gísli þegar hann náði einhvern veginn að þvæla boltanum framhjá varnarmanni eða mönnum gestanna og var svo allt í einu kominn í dauðafæri, en skotið fór beint á markmanninn. Þarna hefði Gísli gjarna mátt setj´ann og róa stuðningsmennina. 3-0 hefði klárað málið. Skömmu síðar fór Davíð illa með varnarmenn Gróttu og kom sér í færi en skaut í hliðarnetið. Lagleg tilþrif. Blikar skiptu enn um leikmenn. Kristinn Steindórsson og Kwame Quee komu inn fyrir Brynjólf og Gísla. Þeir Kwame og Kristinn voru fljótir að minna á sig og munaði hársbreidd að sá síðarnefndi næði að skora eftir góðan undirbúning þess fyrrnefnda en fyrsta snerting Kidda sveik hann og þar með rann færið í sandinn. Það sem eftir lifði leiks sigldu Blikar þessu heim í rólegheitum og ekki mikið um stórbrotin tilþrif. En eins og stundum áður leyndist samt rúsína í pylsuendanum. Á 90. mínútu sóttu Blikar og boltinn barst til Kristins Steindórssonar. Hann var nokkuð aðþrengdur en gerði nú það sem Kristinn Steindórsson gerir best. Á meðan varnarmennirnir djöfluðust í honum og keyrðu í hann, lét hann sig það engu skipta, heldur færði þyngdarpunktinn ögn niður, lét öxlina síga, og lagði boltann sallarólegur fyrir vinstri fótinn og smellti svo einum laufléttum upp í markvinkilinn. Bang! 3-0 og leik lokið. Frábært mark og slúttið minnti á sögulegt mark Kristins á KR vellinum, í miklu betra veðri, 2010. Vinstri fótur og boltinn í vinkilinn. Hrein gæði.
Þar með lauk þessum fyrsta leik Blika í Pepsi Max deildinni 2020 og úrslitin verða að teljast sanngjörn. Þó gestirnir hafi reynt allt hvað þeir gátu og barist vel voru Blikar einfaldlega miklu betri.
Blikar léku vel lengst af og þó mörkin hefðu vissulega mátt vera fleira þá var fínn bragur á liðinu. Liðið var mjög hreyfanlegt, boltinn fékk að fljóta og menn voru fljótir að setja pressu á gestina um leið og boltinn tapaðist. Leikmenn virðast í fínu standi en þurfa aðeins að vinna í löngu boltunum. Þeir fóru nokkuð oft forgörðum. Og síðast en ekki síst má geta þess, hafi það farið framhjá einhverjum, að okkar menn héldu hreinu.
Blikr fagna í leikslok. Anton Ari Einarsson hélt hreinu í fyrsta efstu deildar leiknum með Breiðabliki.
Það er orðið býsna langt síðan það gerðist síðast en þetta var fín tímsetning.
Nitróglyserín töflurnar eru fyrir vikið ónotaðar, trúi ég.
Næsti leikur Blika er gegn Fylki í Lautinni næstkomandi sunnudag. Hann ætlum við að vinna.
Áfram Breiðablik !
OWK
Myndaveisla í boði Helga Viðars hjá BlikarTV
Frábær bein útsending í dag með Arnari Grétars og Heisa, Arnar Björnsson með viðtölinn á hlaupabrautinni og tæknimálinn hjá Sölva Santos og Ragnari Santos. Smá tæknivesen vegna 4G, en ekkert sem ekki er hægt að laga, næst verðum við i beinni fyrir bikarleik á móti Keflavík.