BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Umfjöllun: Sanngirni og knattspyrna er sitt hvað

17.09.2019

Það voru fyrirtaks aðstæður til knattspyrnuiðkunar mánudagskvöldið 16. september þegar Breiðablik tók á móti Stjörnunni í þriðju síðustu umferð Pepsi MAX deildarinnar í knattspyrnu á leiktímabilinu 2019.  8 stiga hiti og smá andvari. Farið var að skyggja þegar leikurinn hófst – en nýju flóðljósin gefa leiknum góða áferð á votu grasteppinu sem kemur vel út í hauststillunni.

Fyrir leikinn var Breiðablik með 36 stig í öðru sæti en Stjarnan í því fjórða með 28 stig.  3 efstu sætin gefa sæti í Evrópukeppni á næsta ári og því leikurinn mikilvægur fyrir bæði liðin í þeirri baráttu. Jafntefli myndi nægja Breiðabliki en Stjarnan þurfti á sigri að halda til að hafa raunhæfar vonir um slíkt. Sigur gæfi okkur veika von um Íslandsmeistaratitilinn að því gefnu að KR myndi misstíga sig gegn Val á Hlíðarenda.

Ein breyting var gerð á liðinu sem hóf leikinn gegn Fylki í þeim magnaða leik – sem vannst þrátt fyrir ótrúlegan umsnúning í stöðunni 4-0 okkur í hag. Vilja menn helst gleyma síðasta hálftímanum í þeim leik þarsem allt gekk á afturfótunum hjá okkar mönnum.  Viktor Örn tók út leikbann og kom Alexander Sigurðarson í hans stað inn á miðjuna. Byrjunarliðið var svona:

Leikskýrsla KSÍ           Úrslit.net

Blikarnir tóku strax völdin á vellinum.  Léku vel frá aftasta manni og réðu ferðinni á miðjunni.  Á 8. mínútu braut Baldur Sigurðsson illa á Thomas Mikkelsen inni í vítateig og augljós vítaspyrna var þar á ferð. Þar var ekkert dæmt. Því miður er það svo að Mikkelsen virðist ekkert eiga inni hjá dómarastéttinni í landinu. Öll vafaatriði eru dæmd honum í óhag. Hann er þannig leikmaður að hann er oft í baráttu og það eru ströng fyrirmæli frá þjálfurum andstæðinganna að gæta þessa markhæsta leikmanns deildarinnar. Hann fellur því oft við – en það gerist stundum að slíkir leikmenn eru taldir taka “dýfur”.  Svo er ekki með Thomas og kom þetta atriði ítrekað upp í þessum leik sem og öðrum í sumar.

Gunnleifur kom ekki við boltann fyrr en á 13. mínútu leiksins – mjög sjaldgæft að slíkt gerist og segir mikið um yfirráð Blika í byrjun. Damir, Höskuldur, Andri Rafn og Brynjólfur fengu allir sín færi en ekkert gekk. Hættulegasta færið fékk Thomas Mikkelsen en skot hans fór í stöngina á 33. mínútu. Á 38. mínútu fara Stjörnumenn í sjaldgæfa sókn. Damir tapar návígi við sóknarmann sem gefur fyrir markið frá hægri. Þá gerist það sem því miður hefur alltof oft gerst í örlagaríkum augnablikum í sumar – að “maðurinn á fjær” er ódekkaður. Staðan því 0-1 “totally against the run of the play” eins og Gary Lineker hjá BBC orðar það. Þetta þarf að laga fyrir næsta ár.

Kaffið var súrt í hálfleik, og menn hristu höfuðið. En strákarnir byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og títtnefndur Mikkelsen fékk gott færi. Enn og aftur varði  Haraldur markvörður Stjörnunnar  – en almennt voru menn sammála því að hann átti sinn besta leik í mörg ár og bjargaði Stjörnunni frá stórtapi.  Garðbæingarnir fengu skyndisókn á 49. mínútu en í þetta skiptið bjargaði tréverkið okkur Blikum. Eftir þetta tóku Blikar öll völd á vellinum og við óðum í færum. Höskuldur og Brynjólfur gerðust mjög aðgangsharðir en Alexander fékk besta færið í miðjum vítateig en kaus af miklu örlæti að reyna sendingu á samherja eftir að Binni hafði “tíað” upp fyrir hann í dauðafæri. Það vantar meiri eigingirni í okkar menn á stundum. 

Viðtöl og klippur úr leik Breiðabliks og Stjörnunnar.

Höskuldur Gunnlaugsson átti stórleik. Hæfileikar hans eru ótvíræðir.  Hann er jafnvígur á vinstri og hægri, ábyrgur varnarlega og það er hreinn unaður að fylgjast með móttöku hans á boltanum. Á 72. mínútu voru þeir félagar, Andri Yeoman og Höskuldur í baráttu við vítateig Stjörnumanna, og Yeoman rennir boltanum út á Höskuld sem tekur skot rétt utan með vinstri fæti nánast í kyrrstöðu. Hnitmiðað og markvörðurinn varnarlaus.

Viktor Karl kom inn fyrir Alexander og stóð sig vel. Blikar sóttu það sem eftir var og besta færið fékk Damir en skaut af markteig eftir fyrirgjöf frá hægri.  Leikurinn fjaraði út og jafntefli varð niðurstaðan.

Tilfinningin eftir leik var nokkuð sérstök. Breiðablik lék afar vel lengst af í þessum leik og sigur hefði verið sanngjarn. En fótboltinn er undarleg íþrótt – og það fer ekki alltaf saman hvað er réttlátt og hvað ekki.  Þannig er það líka oft í lífinu – og gefur því gildi. Hægt er að taka undir með Guðmundi Jóhanni Jónssyni, gömlum skólabróður og formanni sóknarnefndar Kópavogskirkju: “Þetta er bara með betri leikjum sem ég hef séð okkar menn spila í langan tíma”.  Setti síðan á sig hjálminn og hjólaði í kvöldhúminu áleiðis í vesturbæinn. 

Höskuldur var bestur Blika í kvöld – og var valinn maður leiksins. Þá áttu þeir líka góðan dag Brynjólfur og svo auðvitað Andri Rafn Yeoman. Andri er hryggjarstykkið í Breiðabliksliðinu og hefur verið það í mörg ár. Það reyndist ekki vera farsæl ákvörðun að setja hann á varamannabekkinn um mitt sumar og kom berlega í ljós þá hversu mikilvægur hann er fyrir liðið. Það berast þær fréttir að hann sé á förum til Ítalíu til náms í verkfræði og blikar.is óska honum velfarnaðar í þeim leiðangri. Það er ekki ljóst hver framtíð hans hjá félaginu verður en við vonum að hann hafi ekki leikið sinn síðasta leik með Breiðablik.

Þær fréttir bárust frá Hlíðarenda að KR hafi unnið sigur á Valsmönnum og tryggði sér þar með Íslandsmeistaratitilinn. Við Blikar óskum KR til hamingju með árangurinn, liðið sýndi mikinn stöðugleika og innbyrtu hvern sigurinn á fætur öðrum meðan við Blikar misstum því miður taktinn í júlímánuði. Nú eru 2 leikir eftir – gegn ÍBV í Vestmannaeyjum á sunnudag og svo er lokleikurinn gegn KR þann 28. september. Jafnteflið í kvöld tryggði okkur Evrópusæti að ári en við þurfum a.m.k. 3 stig til að enda í 2. sæti deildarinnar sem hlýtur að vera markmið okkar úr því sem komið er.  

HG

Umfjallanir annarra netmiðla

Myndaveisla í boði BlikarTV

Til baka