BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sígandi lukka

28.08.2017
Blikar klifra hægt og sígandi upp töfluna eftir góðan 2:0 sigur gegn neðsta liði deildarinnar Skagamönnum. Þrátt fyrir mikla yfirburði þeirra grænklæddu þá létu mörkin á sér standa. Það er eilítið áhyggjuefni að við náum ekki að loka leikjum þrátt fyrir fjöldamörg færi. En sem betur kom það ekki að sök því allan brodd vantaði í sóknarleik gestanna.  Með þessum sigri og öðrum úrslitum í umferðinni erum við aftur komnir í baráttuna um Evrópusæti. Nú fáum við góðan tíma til að undirbúa okkur undir næsta leik sem er gegn Valsmönnum því vegna landsleikja er sá leikur ekki fyrr en sunnudaginn 10. september.
 
Blikar tóku strax öll völd á vellinum. Þegar á þriðju mínútu átti Martin Lund þrumuskot í vinkilstöngina og boltinn dansaði eftir línunni. Ótrúlegt að tuðran hafi ekki farið inn þá. Drifnir áfram af góðum leik miðjumannsins unga Willums Þórs þá sundurspiluðum við ráðvillta Skagamenn. Á tuttugustu mínútu skilaði sóknarþunginn loksins marki. Þeir gulklæddu voru að  rífast um hvort  tvöföldun Hvalfjarðargangnanna væri skynsamleg ráðstöfun fjármuna en gleymdu Aroni Bjarnasyni sem sendi þétta sendingu fyrir eftir stutta hornspyrnu. Einn Skagamaður ákvað að skora gullfallegt sjálfsmark og kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Þrátt fyrir nokkur ágæt færi fyrir leikhlé náðum við ekki að bæta við mörkum.
 
Í síðari hálfleik virtist grípa okkur einhver miðjudoði. Boltinn var að vísu látinn ganga ágætlega manna á milli en sóknarlotur okkar voru ekki nægjanlega markvissar. Menn tóku allt of oft ranga ákvörðun varðandi síðustu sendingu þannig að vænleg sóknarfæri runnu út í sandinn. Og svo redduðu þeir gulklæddu oftar en einu sinni á marklínu. En á tíu mínúta kafla um miðjan hálfleikinn bökkuðu síðan miðjumenn okkar allt of mikið og hleyptu gestunum inn í leikinn. En sem betur voru gæðin í sóknarleik Skagamanna ekki nægjanlega mikil þannig að Elfar Freyr og Damír náðu að hreinsa fram á völlinn og Gulli greip vel inn þegar á reyndi. 
 
Milos skellti Erni Bjarnasyni og Tokic inn á og hresstist þá sóknarleikur okkar á nýjan leik. Skömmu fyrir leikslok klobbaði Dino kantmann ÍA-liðsins á flottan hátt og sendi örugga sendingu  á Tokic á kantinum. Hann kom knettinum fyrir þar sem Ernir lagði hann snilldarlega fyrir Aron Bjarna sem gat ekki annað en skorað. Skagamenn hengdu haus og í raun hefðum við átt að bæta við fleiri mörkum. En öruggur 2:0 sigur staðreynd og við erum skyndilega komnir í baráttu um Evrópusæti á nýjan leik. Ef við byggjum ofan á árangur síðustu leikja er það ekki svo fjarlægur draumur. 
 
Aron Bjarna er hrokkinn skemmtilega í gang þrátt fyrir að hann verði að vanda sendingarnar betur en hann gerði stundum í síðari hálfleik. Willum Þór Willumsson hefur átt snilldarleiki á miðjunni og kemur með öðruvísi nálgun í miðjuspil okkar manna. Tokic og Ernir áttu góða innkomu og bakvörðurinn Dino Dolmagic er sífellt að verða sterkari. Svo má ekki gleyma því að þríeykið Elfar Freyr, Damír og Gulli í markinu virðist vera að hrökkva í markalausa gírinn aftur
 
Þrátt fyrir ágætis veður og fínar aðstæður til knattspyrnuiðkunar létu ekki margir áhorfendur sjá sig. Fjörbrot Skagamanna með því að bjóða upp á rútuferðir án endurgjalds virtust ekki heldur skila miklum árangri. Að vísu mættu nokkrir gulklæddir og reyndu að hvetja sína menn til dáða. Það dugði skammt enda virðast þeir nánast vera búnir að sætta sig við fall í 1. deildina. 
 
Stemmningsleysið okkar megin er hins vegar meira áhyggjuefni. Að vísu mæta Óli Bjöss, Örn Örlygs, Logi Kristjáns, Gvendur Þórðar og Vignir Baldurs og fleiri góðir menn alltaf. En ,,hard-core“ bullurnar eru algjörlega hættar að mæta og frekar lítið heyrist í hinum almenna stuðningsmanni. 
 
Við Blikar þurfum að fara í naflaskoðun og velta fyrir okkur hverju sætir. Strákarnir okkar eiga betra skilið því þeir hafa nú unnið tvo leiki í röð og spilað ágætis bolta. Blikar.is skora því að alla Kópavogsbúa að draga fram grænu treyjurnar og mæta á Hlíðarenda sunnudaginn 10. september og taka yfir stúkuna. 
 
Koma svo Blikar!
 
Myndaveisla í boði BlikarTV
 
Sjá umfjallanir netmiðla
 
-AP

Til baka