- Það er gaman að vera Bliki! Mynd: HVH
- Gísli Eyjólfsson að lúðra boltanum í fjærhornið niðri, alveg út við stöng. Mynd: HVH
- Gunnleifur hafði ekki mikið að gera en var á réttum stað þegar gestirnir fengu sitt besta færi og varði vel. Mynd: HVH
- Samstaða og gleði í leikslok. Mynd: HVH
- Sveinn Aron Guðjohnsen fékk extra fagn í lokin í tilefni 20 ára afmælisdagsins. Mynd: HVH
- Helgi Viðar Hilmarsson (HVH) tekur allar myndir fyrir Breiðablik. Mynd: Raggi Óla
Sigur í baráttuleik
13.05.2018Blikar tóku á móti Keflvíkingum í 3ju umferð PEPSI deildarinnar í dag á iðjagrænum Kópavogsvelli. Það var prýðis mæting á völlinn, áhorfendur á sextánda hundraðið í vorblíðunni. Hæg áttleysa með sólarglennum og rúmlega 10 stiga hita. Takk fyrir. Blikar að gera góða hluti með umgjörð leikja eins og sjá mátti fyrir leik og vonandi verður boðið upp á kjötsúpuna aftur. Það eina sem vantar nú eru stuðningsmenn sem láta heyra í sér. Við erum með fínt lið og flotta umgjörð, en það er sorglega lítið líf á pöllunum. Við hljótum og verðum að geta gert betur.
Byrjunarlið Blika: Sjá á vef KSÍ og á vef úrslit.net
Sjúkralisti: Enginn.
Leikbann: Enginn.
Byrjunin á leiknum var frekar róleg og þetta var frekar lokað og tilþrifalítið fyrstu mínúturnar að undanskilinni laglegri hjólhestaspyrnu gestanna frá vítateig. Hún sleikti stöngina. Það örlaði á smá pirringi hjá okkar mönnum þegar gestirnir settu hornin í þá og eins og menn væru ekki alveg tilbúnir í þann slag. Fyrir vikið var lítið flæði í leik Blika og menn að klappa boltanum full mikið og hnoðast. Lítil hreyfing á mönnum án bolta og heildarbragurinn í stirðara lagi. Lítið um færi. Arnþór Ari komst í þokkalegt færi eftir sendingu Arons en mokaði boltanum yfir markið úr þröngu færi. Skömmu síðar var barningur inni í teig gestanna og Aron náði skoti á markið en varnarmaður björgaði á síðustu stundu, þegar markmaðurinn var sigraður. Gestirnir voru líka nærri því að lauma boltanum í netið, en boltinn lak framhjá þeirru sömu stöng og áður var sleikt. Þetta gat því dottið beggja vegna, eins og þetta spilaðist. Áfram var nuddast og tuddast út um allan völl en mest inni á miðjunni og nokkuð um háloftaspyrnur en minna um jarðbundnari samleik. En þegar minnst varði, og leikurinn í nokkurri ládeyðu, dró til tíðinda. Davíð fékk boltann við hliðarlínu á móts við vítateig gestanna og sendi boltann inn í teig. Þar tók Gísli á móti boltanum og lyfti honum frá sköflungshæð og upp í c.a. 2.45 – og víkur nú sögunni að Kúbverjanum Javier Sotomayor sem fór léttilega yfir þessa hæð þegar hann setti heimsmet í hástökki 1993 í Salamanca á Spáni. Metið stendur enn. En aftur að Gísla. Þegar boltinn kom aftur niður ,,drap“ hann knöttinn og sneri sér svo c.a. 270° andsælis og lúðraði honum þéttingsfast í fjærhornið niðri, alveg út við stöng. Frábært mark og hefur ef til vill sést á planinu við Kársnesskóla í kringum 2004, pressulaust, en svona tilþrif eru sjaldséð í alvöru leik í efstu deild. Sannkallað augnakonfekt. Sjá markið hér. Staðan 1 – 0 fyrir Blika og það lifnaði aðeins yfir stúkunni.
Gestirnir freistuðu þess að svara strax en varð lítt ágengt gegn sterkri vörn okkar manna og Blikar fóru með þessa forystu inn í leikhléð.
Í hálfleikskaffinu örlaði á svo stækri taugaveiklun hjá nokkrum Blikum að þeir komu snúðunum einungis niður með herkjum. Menn voru alveg á nálum yfir þvi hvað þetta gekk stirt og voru skíthræddir og eiginlega alveg vissir um að okkur yrði refsað fyrir andvaraleysið sem þeim fannst svífa yfir vötnunum. Máli sínu til stuðnings bentu þeir á að Blikar hafa aldrei unnið fyrstu 3 leikina í efstu deild og töldu nánast óumflýjanlegt að gestirnir myndu skora. Óheillakrákurnar voru sem sagt allt um kring. Svartsýni á sögulegum grunni. Aðrir töluðu um markið. Þvílíkt mark. Gísli engum líkur og eiginlega ráðgáta af hverju hann fær ekki náð fyrir augum þeirra Heimis og Helga. Getur verið að þeir hafi bara aldrei séð hann? Séu jafnvel ekki með aðgang að sjónvarpi? En aðlamálið fyrir piltinn er að og láta þetta ekki rugla í hausnum á sér og halda bara sínu striki.
Síðari hálfleikur fór rólega af stað en gestirnir voru býsna ákveðnir og gáfu ekkert eftir. Blikar fengu betri færi og þrívegis munaði mjóu að við næðum öðru marki. Fyrst átti Gísli gott skot naumlega framhjá, eftir laglegt spil. Skömmu síðar skaut Sveinn Aron rétt yfir markið úr aukaspyrnu og loks átti Arnþór Ari góða tilraun þegar hann hirti boltann eftir langt útspark en boltinn strauk stöngina í marki gestanna. Gunnleifur hafði ekki mikið að gera en var á réttum stað þegar gestirnir fengu sitt besta færi og varði vel. Viktor Örn kom inn fyrir Oliver þegar hálftími lifði leiks og kom sterkur inn. Arnor Gauti kom svo inn fyrir Svein Aron þegar korter var eftir. Gestirnir gerðu harða hríð að okkar marki á síðustu 20 mínum leiksins, fengu nokkrar hornspyrnu og reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna metin en varnarleikur okkar var til algjörrar fyrirmyndar og stóð allt af sér. Svo náðu menn aðeins að drepa þetta niður í restina og hægja á leiknum. Þó spilamennskan hafi kannski ekki verið upp á 5 stjörnur var gott að sjá að sjálfstraustið var enn til staðar á loka mínútunum og Blikar sigldu stigunum í hús af öryggi og nettum hroka. Blikar hafa unnið 3 fyrstu leiki sína í mótinu sem er besta byrjun í efstu deild frá upphafi og það verður gaman að fylgjast með framhaldinu. Liðið er að ná vel saman og það gott að sjá að vörnin virðist vera að ná fyrri styrk. Það er lykilatriði. Sóknarleikurinn var svolítið einkennilegur í dag. Við sóttum á fáum mönnum fannst manni. Komumst til dæmis nokkrum sinnum upp vængina og á bak við varnarlínu gestanna en þegar fyrirgjafirnar komu voru Blikar helst til fámennir í teignum og náðu ekki að nýta sér þessi færi sem skyldi. Það vantaði að fylla teiginn af mannskap. En eitt mark dugir á meðan við höldum hreinu og góð vörn og markvarsla skóp þennan sigur fyrst og fremst.
Eins og spáð var hafa fjölmiðla hælt Blikaliðinu á hvert reipi frá sigrinum í Krikanum og það biðu margir spenntir eftir næsta kafla og sumir óskuðu þess heitt í nærsveitunum að Blikar myndu misstíga sig í dag. Éti þeir hinir sömu það sem úti frýs og verði þeim það að góðu. Það er alveg næg reynsla í þessu liði til að höndla meðbyr jafnt sem mótlæti. Þetta er fyrst og fremst spurning um hvað menn ætla sér. Það er ekki nóg að langa, menn verða að ætla. Leikmenn og þjálfara hafa talað alveg skýrt. Stefnan er sett á topp 3 sætin og miðað við það sem við höfum séð í upphafi móts, þá ætla þeir sér að ná því.
En það er enn langur vegur framundan.
Næsti leikur Blika er á útivelli gegn KR. Það verður hörkuleikur. Það má bóka. En einsog Blikar vita og muna er fátt skemmtilegra en snýta þeim röndóttu á þeirra heimavelli.
Við kannski hunskumst til að styðja við bakið á okkar mönnum með öðru en einhverju tauti og hljóðri bæn.
Áfram Breiðablik !
OWK
- Myndaveisla í boði BlikarTV
- Umfjallanir netmiðla
- Það var fagnað út á velli og í klefanum