Skellur í Árbænum
15.06.2019Blikar mættu ÍFylkismönnum í 8.umferð Pepsi MAX deildarinnar í Lautinni í Árbænum í kvöld. Veður var hið blíðasta og skv. niðurstöðum mælinga á veðurstöð í Víðdal þar efra var hiti 18.5 á Celsíuskvarðanum er leikur hófst. Sólin skein og hægur andvari af suðvestri lék um vangann… og svona væri hægt að halda lengi áfram ef út í það er farið en einsog glöggir lesendur vita vonandi eru veðurlýsingar ekki megintilgangur þessara pistla sem við skrifum að leik loknum hjá okkar mönnum og skal nú ekki fjölyrt um veður mikið lengur. Margir höfðu reyndar á orði í dag að þetta væri langbesti dagur sumarsins til þessa og má það til sanns vegar færa og 21°stigs hiti síðdegis á höfuðborgarsvæðinu styður sannarlega við þessa fullyrðingu. Að sama skapi var leikurinn í kvöld einhver allra lélegasti leikur sem undirritaður hefur orðið vitni að af hálfu Blika, í háa herrans tíð. Og sú tíð er alllöng.
Meira um það hér á eftir en svona var byrjunarlið Blika:
Blikaliðið með eina breytingu á byrjunarliði frá síðasta leik. Höskuldur kom inn í stað Kolbeins sem var í leikbanni (4 gul spjöld). Annað óbreytt.
Viðvörunarbjöllurnar glumdu í Árbænum frá fyrstu mínútu og eftir að heimamenn höfðu skallað í stöngina og síðan hirt frákastið fyrir opnu marki og brennt af hugsaði maður sem svo að þetta yrði sennilega bara í lagi. Lið sem ekki nýta svona tapa yfirleitt leikjunum. En annað kom á daginn. Heimamenn völtuðu yfir rávillta Blika um allan völl, en þó aðallega við og í vítateig okkar manna og það stóð ekki steinn yfir steini í leik okkar manna. Fyrsta markið kom eftir 6 mínútna leik þegar gestirnir pressuðu Gulla sem fékk slaka sendingu frá varnarmanni. Báðir áttu að gera mikið betur en í netinu endaði boltinn og heimamenn með sannkallaða draumabyrjun. Heimamenn freistuðu þess svo að láta kné fylgja kviði og fengu við það hraustlega aðstoð frá Blikum. Á tímabili var eins og bæði lið væru að spila á sama markið, þ.e.a.s. Blikamarkið og okkar menn voru alveg ófeimnir við að gefa á andstæðinginn. Alveg óskiljanalegt og mjög ólíkt okkar mönnum. Það eina sem var enn óskiljanlegra var að við skyldum ekki lenda 2 til 3 mörkum undir fyrsta háftímann eða þar til við jöfnuðum leikinn þvert gegn gangi hans. Það var reyndar laglegt mark og vel að því staðið. Höskuldur náði góðu skoti frá vítateig eftir hraða sókn og góða sendingu frá Thomasi og boltinn steinlá í netinu. Staðan orðin 1-1 og máttu Blikar vel við una. En því miður lagaðist spilamennskan lítið og heimamenn voru áfram mun sterkari. Áttu skalla í stöng og annan sem Gulli varði vel. Ég bara man ekki hvenær við vorum saltaðir svona illa síðast í föstum leikatriðum. Við komumst varla nálægt boltanum í eitt einasta skipti…..
Áfram hélt þetta og nú var þetta orðinn meiri barningur og aðeins meiri harka í leiknum en hvorugu liði tókst að skapa færi að ráði. Þar til skammt var til leikhlés. Þá dundi ógæfan yfir. Blikar voru í sókn og náðu ekki að enda hana með skoti. Og það sem verra var, þá misstu þeir boltann við vítateiginn og heimamenn geystust af stað. Ein sending fram, og svo var prjónað í gegnum varnarmenn Blika sem skelltu í brunaútsölu og framherji Fylkis átti næsta auðveldan eftirleik og renndi boltanum framhjá Gulla. 2-1 fyrir heimamenn og þó það hafi kannski ekki verið ósanngjarnt miðað við gang leiksins þá var það súrt eftir að við höfðum þvælt okkur inn í leikinn með marki Höskuldar. Maður var að vona að við myndum hanga á þessu fram í hálfleik. En það varð ekki.
Helgi Viðar frá BlikarTV var á vellinum og tók þessar myndir
Hálfleikskaffið hefur sjaldan smakkast verr og verið jafnfúlt. Menn á einu máli um að við værum stálheppnir að vera enn inni í leiknum. Fjöldi feilsendinga á pari við eyjar á Breiðafirði. Blikar undir á öllum vígstöðvum og hreinlega einsog höfuð- og ráðalaus her. Þetta var reglulega vont.
Einhverjir töldu að þetta myndi ,,örugglega“ lagast í seinni hálfleik. Svona vont gæti bara versnað til hins betra. ,,Mikil er trú þín kona“ er haft eftir frelsaranum við keimlíkar aðstæður og var það að vonum.
Síðari hálfleikur hófst hinsvegar alveg einsog þessir bjartsýnu mennhöfðu fullyrt. Eftir 2 mínútur lá boltinn í marki heimamanna eftir laglegan undirbúning Arons. Hann fékk boltann hægra megin í teignum eftir hornspyrnu og lék á einn varnarmenn og þrumaði boltanum fyrir markið þar sem Damir kom á ferðinni og negldi boltanum í netið af stuttu færi. Vel gert, og Blikar kættust nú mjög. Allt annað að sjá til liðsins á þessum upphafsmínútum.
En þetta stóð því miður ekki lengi og Blikar náðu hvorki að fylgja þessu eftir né skapa sér frekari færi í kjölfariðl. Þvert á móti voru það heimamenn sem fóru nú að ógna á ný og það bar árangur þegar þeir fengu hornspyrnu þegar um 15 mínútur voru liðnar. Spyrnan virtist hálf misheppnuð en engu að síður rataði hún inn í miðjan vítateig og þar kom stærsti maður Fylkis á ferðinni algjörlega óvaldaður og lagði boltann í netið með góðu skoti. Hvernig var þetta hægt? Þarna voru Blikar algerlega steinsofandi.
Nú fauk verulega í mann og annann. Og til að bæta gráu oná svart bættu heimamenn við öðru marki tíu mínútum síðar. Enn var það fyrir klaufaskap okkar manna sem töpuðu boltanum enn og aftur klaufalega og fengu gestina á fleygiferð á undirmannaða vörnina. Staðan orðin 4-2 og Blikar búnir að gera rækilega í bólið sitt eftir að hafa aðeins fengið á sig 5 mörk í 7 leikjum!!
Nú var þjálfarateymi Blika fljótt til og skellti Brynjólfi Darra og Viktori Karli inná og þeir létu fljótt til sín taka. Heimamenn björguðu á línu eftir skot frá Viktori og Brynjólfur Darri kveikti svo í stemningunni eins og hans var von og vísa, innan og utan vallar og var ekki par vinsæll á meðal heimamanna. En það skiptir hann engu og stundum er það nákvæmlega þetta sem þarf að gera. Skömmu síðar lagði hann boltann á Thomas eftir mikinn barning í teignum og Thomas náði góðu skoti í bláhornið, óverjandi fyrir annars góðan markvörð Fylkis, sem reyndar er uppalinn hjá okkur. Aron Snær að standa sig í Árbænum.
Staðan orðin 4-3 og lokamínúturnar voru ansi skrautlegar en því miður náðum við ekki að kreista stig út úr þessum leik.
Blikar töpuðu þarna 3 dýrmætum stigum og ef maður á að vera alveg heiðarlegur þá voru úrslitin sanngjörn. Raunar má segja að miðað við hve herfilega illa við spiluðum lengst af í þessum leik þá hafi eins mark tap verið bara viðunandi úrslit. En frammistaðan var algerlega óviðunandi og það vita engir betur en leikmennirnir sem nú naga sig í handarkrikann yfir glötuðu tækifæri. Þrátt fyrir góða veðrið var þetta versti dagur sumarsins.
Fleira verður ekki skrifað um þennan ömurlega leik og sem betur fer er stutt í þann næsta. Hann er á þriðjudaginn gegn nágrönnum okkar í Stjörnunni. Þeir eru sem kunnugt er (og eins og þjálfari þeirra bendir einatt á ) alltaf miklu betri en andstæðingarnir og með algera yfirburði. Jafnvel þegar þeir eru lakari.
Leikurinn er í Garðabænum og hefst klukkan 19:15.
Hvað gera okkar menn nú?
Áfram Breiðablik.
OWK
Umfjallanir og myndir netmiðla.
Aron Bjarnason var sprækur í leiknum.