Skin og skúrir hjá Blikum
15.03.2013Blikaliðið hefur spilað tvo leiki að undanförnu í Lengjubikarnum Í gær sigraði liðið Víkinga örugglega 1:4 í Egilshöllinni en á laugardaginn láum við Blikar fyrir Frömurum 0:2 á nýjum grasvelli þeirra bláklæddu í Úlfarársdal. Þar sem Framarar töpuðu fyrir Valsmönnum þá trjónum við á toppnum í riðlinum á betra markahlutfalli en Hlíðarendapiltarnir. Þetta voru nokkuð kaflaskiptir leikir. Við áttum mikla meira í leiknum gegn Fram í fyrri hálfleik en gáfum eftir í þeim síðari og töpuðum því leiknum. Á móti Víkingum lentum við hins vegar undir í fyrri hálfleik en völtuðum yfir Fossvogsdrengina í síðari hálfleik.
Ólafur Kristjánsson þjálfari er búinn að vera með nokkra tilraunastarfsemi í undanförnum leikjum. Hann hefur verið að prófa ný leikkerfi og hefur rúllað á stórum hóp leikmanna. Það þarf því ekki að undra þótt ekki allir leikir vinnist. Hins vegar gætti nokkurs vanmat í síðari hálfleik gegn Frömurum. Eftir góðan fyrri hálfleik refsuðu heimamenn okkur í síðari hálfleik. Það er reyndar furðulegt hve illa okkur gengur gegn Safamýrarliðinu. Við höfum ekki unnið þá á Íslandsmótinu síðan árið 2008. En lítill fugl hefur hvíslað því að okkur að það muni breytast í sumar:)
Blikaliðið byrjaði illa gegn Víkingum í gær og fékk strax mark á sig á 4 mínútu. Í síðari hálfleik fór hins vegar Blikavélin í gang og valtaði yfir Víkinga. Fyrst skoraði Ellert Hreinsson, svo Elfar Árni og þá var komið á Sverri Inga að setja hann úr vítaspyrnu. Undir lokin skoruðu Víkingar sjálfsmark og öruggur 1:4 sigur Blika í höfn. Blikastrákarnir voru slakir í fyrri hálfleik en allt annað sjá til liðsins í síðari hálfleik. Allir leikmenn fengu að spreyta sig og var sérstaklega ánægjulegt að sjá Viktor Unnar Illugason koma inn á lokin. Hann hefur átt við langvarandi meiðsli að stríða og er þetta hans fyrsti leikur á tímabilinu.
Næsti leikur meistaraflokks karla er gegn Skagamönnum á miðvikudagskvöldið uppi á Skipaskaga. Við hvetjum alla þá sem vettlingi geta valdið að mæta og hvetja okkar pilta til sigurs.
-AP