Skiptur hlutur í Egilshöll
20.02.2015Fylkir og Blikar gerðu markalaust jafntefli í frekar tíðindalitlum leik í Lengjubikarnum í Egilshöll i kvöld. Úrslitin voru frekar sanngjörn því okkar drengir voru sterkari í fyrri hálfleik en Árbæjarstrákarnir áttu meira í hinum síðari. Ekki var mikið um marktækifæri í leiknum og áttu markverðir beggja liða fremur rólegan dag.
Blikar byrjuðu miklu betur og pressuðu heimaliðið strax frá fyrstu mínútu. Gunnlaugur Birgisson var mjög áberandi fyrstu 30 mínútur leiksins og stjórnaði miðjuspili liðsins. Besta tækifæri leiksins kom á 18 mínútu þegar Höskuldur átti frábæra sendingu fyrir á kollinn á Ellerti en skalli hans var ekki alveg nógu fastur og markvörður Fylkismanna varði knöttinn listavel. Nokkuð dróg af Blikaliðinu undir lok hálfleiksins og náðu Fylkismenn nokkrum hættulegum skyndisóknum án þess þó að skapa sér mjög hættuleg færi.
Greinilegt var að Ási þjálfari hafði lesið yfir þeim appelsínugulu í leikhléi og komu þeir miklu kraftmeiri til leiks. Við gáfum hins vegar eftir á miðjunni og Fylkismenn stjórnuðu gangi leiksins fyrstu 20-25 mínútur leiksins. Það var ekki fyrr en Guðjón Pétur og Oliver komu inn á fyrir Gunnlaug og Andra Rafn að við náðum aftur stjórn á miðjunni. Við áttum nokkrar efnilegar sóknir en það vantaði sóknarbroddinn í leik okkar pilta að þessu sinni.
Bestu menn Blikaliðiðsins voru þeir Elfar Freyr og Damir í hjarta varnarinnar. Þeir eru farnir að þekkja vel inn á hvorn annan og stigu vart feilspor í leiknum. Miðjumennirnir Gulli og Andri Rafn voru frískir framan af en síðan misstu þeir aðeins móðinn. Höskuldur átti góða spretti en í heild vantaði nokkurn kraft í sóknarleikinn.
Varaliðið okkar spilar gegn varaliði Fylkis í fyrramálið kl.10.30. Síðan verður stóræfingaleikur á fimmtudaginn þegar KR-ingar koma í heimsókn í Fífuna og hefst sá leikur kl.18.00.