- Jonathan Glenn skorar fyrsta mark leiksins. Mynd: HVH
- Hætta! Gunnleifur viðbúinn en boltinn fór rétt yfir. Mynd: HVH
- Arnór Sveinn fyrirliði einbeittur á svip. Mynd: HVH
- Stoðsending Atla Sigurjónssonar á leiðinni til Glenn. Mynd: HVH
- Jonathan Glenn að skora annað markið sitt í leiknum: Mynd: HVH
- Guðjón Pétur með klassískan einbeitingarsvip. Mynd: HVH
- - Hver er er laus? - gæti Oliver verið að hugsa. Mynd; HVH
- Jonathan Ricardo Glenn hefur ríka ástæðu til að fagna. Búinn að setja 5 mörk í síðustu 3 leikjum með Blikum. Mynd: HVH
- Helgi Viðar var öflugur á myndavélinni í leiknum. Hér er ein góð af Höskuldi. Mynd: HVH
- Stuðningsmannahópur Blika á leiknum í kvöld. Mynd: HVH
Stolt siglir fleyið mitt!
17.08.2015
Náttúruöflin sýndu sínar bestu hliðar þegar að Skagamenn mættu á Kópavogsvöll, blankalogn, sól og lítil sem engin undiralda. Byrjunarliðið var óbreytt eftir sigur á móti Keflavík og Val, Kristófer og Arnar Grétars stilltu upp eftirfarandi áhöfn.
1. Gunnleifur Vignir Gunnleifsson(m)
3. Oliver Sigurjónsson
4. Damir Muminovic
5. Elfar Freyr Helgason
7. Höskuldur Gunnlaugsson
8. Arnþór Ari Atlason
10. Guðjón Pétur Lýðsson
17. Jonathan Ricardo Glenn
22. Ellert Hreinsson
23. Kristinn Jónsson
29. Arnór Sveinn Aðalsteinsson(f)
Sjúkralisti: Engin
Leikbann: Engin
Leikskýrsla: Breiðablik - ÍA 17.8.2015
BlikarTV: Útvarpslýsing
BlikarTV: Stemning
Visir.is: Þrennan hans Glenn
Það var ekki bara fallegt veður í Kópavogsdalnum í kvöld því að Blikar sýndu virkilega fallega knattspyrnu og byrjuðu strax á annari mínútu á að koma boltanum í markið eftir fallegt samspil. Flott vippa Höskuldar var hinsvegar ekki tekin gild þar sem að dómari taldi að hann hefði verið fyrir innan. Aðeins 2 mínútum síðar átti Guðjón Pétur flott skot eftir fínt spil hjá Blikum.
Blikar héldu áfram að spila fallega sín á milli og var í rauninni með ólíkindum að ekki væri komið í mark í leikinn, eftir rúmlega hálftíma leik þá voru Blikar búnir að koma sér amk 4 sinnum í algjör dauðafæri en ekki beit hann á. Hörðustu stuðningsmennirnir búnir að grípa um höfuð sér og hugsa „hvað er í gangi“?
Liðin fóru í sitthvora káetuna í hálfleik og þrátt fyrir mikla yfirburði Blika þá var staðan 0-0 eftir 45.mín.
Skipstjórinn Arnar Grétarsson hefur greinilega verið með vel valin hvatningarorð því að seinni hálfleikur var rétt svo farinn af stað þegar skyndilega beit á.
Þá fór fyrsti stýrimaður Arnór Sveinn Aðalsteinsson upp hægri kantinn og það mátti sjá á látbragði pilts að hann ætlaði sér að koma knettinum á heitasta framherjann í Pepsideildinni.
Það var eins og við manninn mælt, það beit á! Jonathan Glenn stökk mann hæst teignum eftir frábæra sendingu frá fyrirliðanum og staðan orðin 1-0, ekki hægt að segja annað en að það hafi verið verðskuldað.
Blikar héldu áfram en stöðug sókn þeirra hafði augljóslega dregið aðeins af mönnum. Skagamenn reyndu að skapa hættu í föstum leikatriðum og upp úr innkasti skölluðu þeir í slá eftir að Ármann Smári hafði náð að gera sig stórann og nógu var stór var hann nú fyrir.
Blikar gerðu fljótlega breytingu og komu Andri Rafn Yeoman og Atli Sigurjóns inn fyrir þá Arnþór Ara og Ellert Hreinsson. Sólin var farin að lækka á lofti og Skagaskútan spennnti upp seglin, þeir ætluðu sér að fá eitthvað út úr þessum túr. Hægt og rólega lögðu þeir út öll veiðarfæri og það var eins og Blikarnir væru farnir að festast í netinu. Einstaka Blikar í stúkunni sögðu „ það er óttaleg jafnteflis lykt af þessum leik“.
Það var eins og við manninn mælt, við Blikar máttum vita að Skagamenn gefast ekki upp þó að á móti blási og það gefi í sjóinn. Þeir eru baráttumenn og það sýndu þeir á 83.mínútu þegar að Albert Hafsteinsson fékk knöttinn fyrir utan teig og og smurði hann út við stöng. Það sló þögn á mannskapinn, þetta var brotsjór af verstu gerð fyrir Blika.
Skagamenn áttu svo aftur skot að marki, Gunnleifur varði en náði ekki að halda boltanum. Undirritaður er óttalegur messagutti og staðan var þannig þarna að ég var orðinn vægast sagt sjóveikur og danglaði utan á Blikaskútinni eins og fleiri stuðningsmenn sem trúðu ekki sínum eigin augum. Var það virkilega að fara að gerast að Blikar væru að fara missa þennan leik niður í jafntefli, þennan leik sem við þurftum svo mikið að vinna?
Baráttan var í algleymingi og tíminn að renna frá Blikum, það átti svo sannarlega að halda áfram þangað til að ágætur dómari leiksins myndi flauta af.
Blikaskútan var nánst komin upp að bryggju og hásetahluturinn frekar rýr en það var kastað út enn einusinni.
Nú var það Atli Sigurjónsson sem rauk upp hægri kantinn eftir mikinn barning fyrir framan vítateig Blika. Boltinn flaug af stað, Kópacabana og allir hinir stóðu á bryggjunni með öndina í hálsinum. Áður en við vissum af var Jonathan Glenn búinn að bæta við öðru marki fyrir Blika, ótrúleg dramatík á 88.mínútu!
Spennan var nánast óbærileg þegar að þarna var komið við sögu, Skagaskútan var ekki búin að segja sitt síðasta. Blikar gerðu sína síðustu breytingu þegar að Guðjón Pétur renndi sér niður eftir landfestum og inn kom Davíð Kristján Ólafsson. Nánast hver einn og einasti maður á vellinum var þarna kominn á fætur, Skagamen áttu horn og það voru komnar um 93.mín á klukkuna og meira að segja markmaður þeirra gulu var kominn í teiginn til að freista þess að jafna. Ætluðu Skagamenn að ná að sigla yfir Faxaflóann með stigin okkar?
Þeir gáfu fyrir og eftir mikil læti fyrir utan teig Blika barst boltinn á markahæsta hásetann í Pepsideildinni sem hljóp upp allan völlinn með mann í bakinu en þessi sterki og fljóti leikmaður stóð hann af sér og fullkomnaði þrennuna.
Frábært kvöld að baki í Kópavoginum og Skagaskútan silgdi hálf löskuð í burtu eftir þessar hamfarir. Þeir voru nokkrir Blikarnir sem tóku sprengitöflurnar sínar í kvöld. Eftir mikla baráttu þá náðu Blikar í stigin 3 og það var sanngjarnt segi ég, með réttu hefðu þeir grænu átt að vera búnir að klára þennan leik en fótboltinn er yndisleg íþrótt og það getur allt gerst eins og við sáum í kvöld. Þeir rúmlega 1700 áhorfendur sem mættu í kvöld fengu svo sannarlega mikið fyrir peninginn.
Maður leiksins er þrennu Glenn sem að hefur heldur betur reynst happafengur fyrir Blika, 5 mörk í 3 leikjum segja allt sem segja þarf.
Næst mætum við erkióvinum okkar Stjörnunni úr Garðabæ sem fékk slæma útreið í Kaplakrika í kvöld. Mánudagskvöldið 24.ágúst verður Blikakvöld og við munum standa þétt við bakið á strákunum og taka undir með Kópacabana sem ætlar væntanlega að pakka þessari svokölluðu Silfurskeið saman.
Annars vill ég koma á framfæri sérstöku þakklæti frá stuðningsmönnum, það er búið að vera stórkostlegt að sjá knattspyrnuna sem að bæði mflk og mflkv hafa boðið uppá í sumar. Fyrir hönd okkar stuðningsmanna þá segi ég bara takk en það er nóg eftir og með þessu áframhaldi þá getur allt gerst!
KIG