Stórmeistarajafntefli
22.03.2014Breiðablik og KR gerðu markalaust jafntefli í Lengjubikarnum í dag. Þrátt fyrir markaleysið var leikurinn jafn og spennandi og áttu bæði lið þokkaleg færi í leiknum. En barátta þessara liða var nokkuð kaflaskipt; Blikar voru sterkari fyrstu 20 mínúturnar en svo komu Vesturbæjardrengirnir grimmir til baka. Það sama var upp á teningnum í síðari hálfleik. Bæði lið spiluðu til sigurs en inn vildi tuðran ekki. Það má því með sanni segja að þetta hafi verið sanngjarnt stórmeistarajafntefli.
Blikarnir spiluðu á öllum sínum sterkustu leikmönnum. Miðjan með þá Finn Orra fyrirliða, Guðjón Pétur og Andra Rafn var mjög öflug og gaf reyndum miðjumönnum KR-inga ekkert eftir. Það er gaman að sjá hve Finnur Orri er að stíga upp bæði sem leikmaður og sem fyrirliði. Guðjón Pétur spilaði einnig vel en mætti bæta varnarvinnuna. Andri Rafn ógnar sífellt með hraða sínum og snerpu og áttu gestirnir oft í miklum erfiðleikum að stoppa hann. Svo má ekki gleyma góðum leik Páls Olgeirs sérstaklega framan af leiknum en þessi drengur er ótrúlega góður knattspyrnumaður. Stefán Gíslason og Elfar Freyr mynduðu miðvarðarparið í leiknum og virðist ná vel saman. Guðmundi Friðrikssyni fer fram með hverjum leiknum og hélt hann Óskari Erni vel niðri á kantinum. Í heildina getur Blikaliðið verið sátt við frammistöðu sína í leiknum. Það eina sem má ef til vill gagnrýna er að við vorum ekki nógu beittir í framlínunni. En það á örugglega eftir að koma í næstu leikjum.
Næsti leikur okkar er gegn Skagamönnum uppi í Skaga á laugardaginn kl.12.00. Við hvetjum því alla sem vettlingi geta valdið að bregða sér í laugardagsbíltúr í gegnum Hvalfjarðargöngin til að sjá skemmtilegan knattspyrnuleik.
Sjá liðið á þessari slóð:KSI.is
-AP