BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Súrt á Samsung

26.08.2018

Það voru niðurlútir Blikar sem héldu aftur yfir lækinn eftir 2:1 tap gegn Stjörnunni í Garðabænum í gær. Með þessu tapi vorum við líklegast að stimpla okkur út úr baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Eins og í Valsleiknum var Blikaliðið aðeins of seint í gang og klaufagangur upp við markið andstæðinganna í síðari hálfleik varð þess valdandi að uppskeran var rýr að þessu sinni. Við megum hins vegar ekki hengja haus heldur þjappa okkur saman og koma grimmir til leiks gegn Grindvíkingum á Kópavogsvelli á sunnudaginn.

Byrjunarliðin úrslit.net og Ksi.is

Heimapiltar voru ákveðnari í byrjun leiks og sóttu stíft á okkur. Föstu leikatriðin voru að valda okkur erfiðleikum í vörninni og er það breyting frá því sem áður var. Það er líka áhyggjuefni að við erum stundum að missa boltann á erfiðum stöðum á miðjunni og vörnin fær á sig holskeflu sem hún ræður ekki almennilega við.  Það þarf að loka fyrir þennan leka því ekki er hægt að kenna vörninni eingöngu um þessi mörk sem við erum að fá á okkur. Varnarleikurinn hefst um leið og við glötum boltanum sama hvar það er á vellinum. Ef allt liðið er ekki tilbúið að verjast frá fremsta manni þá fáum við mörk á okkur eins og við gerðum í gær.

Það vantaði lika meiri grimmd og greddu upp við mark andstæðinganna í síðari hálfleik. Við fengum tækifæri í hálfleiknum til að ná að minnsta kosti einu stigi úr leiknum. En sambland af óheppni og klaufaskap varð þess valdandi að við getum að öllum líkindum hvatt Íslandsmeistaratitilinn að þessu sinni.

Það var samt sem áður alls ekki allt slæmt í leik okkar manna í gær. Við áttum sísta minna í leiknum í síðari hálfleik en það dugir skammt ef við nýtum ekki færin. Liðið saknaði Willums Þórs Willumssonar í gær en hann hefði líklegast getað nýst okkur vel á teppinu á Samsung vellinum. En annar ungur og efnilegur leikmaður, Kolbeinn Þórðarson, stimplaði sig vel inn í liðið í gær og er afskaplega gaman að sjá hve hann hefur vaxið í sumar. Hann verður  tvímælalaust hluti af því framtíðarliði sem Ágúst þjálfari er að byggja upp.

Gamalt íslenskt máltæki segir að í mótbyr komi í ljós hvernig karakter maður búi yfir. Það voru fáir sem spáðu Blikaliðinu toppbaráttu fyrir þetta tímabil. En nú erum við í þriðja sæti og komnir í úrslit í Mjólkurbikarnum. Það eru því spennandi tækifæri framundan og við ætlum að sýna að það eru bjartir tímar framundan í knattspyrnunni í Kópavogi á öllum vígstöðvum!

Myndaveisla í boði Fótbolta.net

Umfjallanir netmiðla

-AP

Til baka