- Byrjunarlið og lukkustrákar Blika ásamt HM förum og heiðursgestum leiksins: Jóa Berg, Alfreð Finnboga og Sverri Inga. Mynd: HVH
- Strax í byrjun keyrðu ruddalegir Garðabæingar í okkur af fullum krafti. Mynd: HVH
- Elfar Freyr Helgason. Mynd: HVH
- Davíð Kristján Ólafsson. Mynd: HVH
- Oliver Sigurjónsson. Mynd: HVH
- Stál í stál. Mynd: HVH
- Þessir öflugu Blikar voru heiðraðir í gær fyrir sitt framlag til Breiðabliks og íslenska landsliðsins í gegnum árin. Þeir eru frábærar fyrirmyndir yngri iðkenda og allra þeirra sem vilja láta drauma sína rætast en þeir Alfreð Finnbogason, Jóhann Berg Guðmundsson og Sverrir Ingi Ingason halda nú til Rússlands á stærsta svið knattspyrnunnar. Með dugnaði, vilja og óbilandi trúa á sjálfum sér hafa þeir sýnt að allt er hægt og ég veit að þeir munu vera sjálfum sér og þjóðinni til sóma sem fyrr. Með HM Blikunum á myndinni eru Helgi Aðasteinsson varaformaður knattspyrnudeildar og Jóhann Þór Jónsson meðstjórnandi. Mynd: HVH
Súrt sunnudagskvöld
05.06.2018Blikar riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni við nágranna sínum úr Garðabænum á sunnudagskvöldið. Okkar drengir virkuðu hálf-dofnir frá fyrstu mínútu og þrátt fyrir að sigurmark Stjörnumanna hefði verið slysalegt þá áttum við í raun ekkert skilið út úr leiknum. En það þýðir ekkert að gráta þetta 1:0 tap heldursnúa saman bökum og hefna Björns bónda. Næsti leikur er gegn toppliði Grindavíkur suður með sjó á laugardaginn. Þar getum við slegið í klárinn og með sigri komist aftur í toppbaráttuna.
Það var tilhlökkun í Kópavogi á sunnudaginn. Veðurguðirnir skelltu á okkur ágætis knattspyrnuveðri, sunnan hægviðri og rúmlega 10 stiga hita. Simmi og co í markaðsdeildinni eru búin að útbúa flotta umgjörð á leikdegi, litlir knattspyrnuvellir fyrir yngstu áhorfendurnar, partýtjald fyrir fullorðna, Kópacabana-hópurinn með Elfar Tjörva og Hilmar Jökul í fararbroddi er risinn upp frá dauðum, foreldrarnir eru farnir að selja góða kjötsúpu auk klassísku hamborgarana þannig að allt í ytra umhverfinu bauð upp á tækifæri fyrir góðan knattspyrnuleik. Svo má ekki gleyma því að HM-hetjurnar okkar, Jói Berg, Alfreð og Sverrir Ingi, mættu sem heiðursgestir á leikinn. HM Blikarnir mættu í viðtal hjá BlikarTV sem hægt er að sjá hér.
En strákarnir okkar voru ólíkir sjálfum sér í þessum leik. Strax í byrjun keyrðu ruddalegir Garðabæingar í þá af fullum krafti og það virtist slá okkur út af laginu. Margar feilsendingar frá lykilmönnum hjálpuðu ekki heldur til.
Byrjunarliðið: ksi.is og urslit.net
Þeir bláklæddu pressuðu okkur ofarlega og við náðum aldrei almennilega að svara þeirri taktík. Varnarmenn okkar, sem reyndar stóðu sig ágætlega, voru þvingaðir í háar og langar sendingar sem sjaldnast skiluðu miklum árangri.
Jonathan Hendrixz gat ekki leikið með vegna veikinda og munar um minna. Einnig meiddist Arnór Gauti í upphitun og gat því ekki spilað. Hann hefði getað nýst vel í svona leik.
Töluvert hefur verið rætt um þennan skæða markvarðavírus sem hefur herjað á toppmarkmenn í heimunum að undanförnu. Fyrst Karius hjá Liverpool, svo Frederik Schram í landsleiknum og svo Gulla hjá okkur. En það þýðir ekkert að velta sér upp úr þessu atviki í Stjörnuleiknum. Gulli hefur viðurkennt mistökin en við eigum auðvitað að geta skorað nokkur mörk í svona leik. En við gerðum það ekki og því situr markvörðurinn svolítið uppi með Svarta-Pétur.
Hins vegar verður ekki fram hjá því horft að hann var búinn að standa sig frábærlega í leiknum og reddaði nokkrum sinnum mjög vel. Gulli er það sterkur karakter að þetta bítur ekki á hann og bætir þetta upp í komandi leikjum.
Spennan hefur sjaldan eða aldrei verið jafn mikil í efstu deild karla. Einungis munar fjórum stigum á liðinu í öðru sæti og liðinu í tíunda sæti. Strákarnir okkar eru staðráðnir að sýna sitt rétta andlit þegar þeir halda til Grindavíkur á laugardaginn.
Með sigri getum við blandað okkur aftur í toppbaráttuna. Við hvetjum því alla Blika til að fjölmenna. Spáin er ágæt fyrir Suðurnesin á laugardag þannig að bíltúr með alla fjölskylduna er prýðisgóð hugmynd!
-AP