BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Súrt tap á Skaganum

20.04.2019

Blikar lutu í gras gegn Skagamönnum 3:1 í æfingaleik á Akranesi í dag. Sigur heimapilta var sanngjarn en hugsanlega of stór miðað við gang leiksins. En tap er tap og við verðum að fá meira úr Blikaliðinu í Grindavík á laugardaginn ef ekki á illa að fara í fyrsta leik.

Skagamenn byrjuðu leikinn með miklum látum og pressuðu okkur hátt uppi á vellinum. Okkur gekk illa að spila boltanum úr vörninni enda voru aðstæður frekar erfiðar á Skipaskaganum, mikið rok og völlurinn þungur. Ekki bætti úr skák þegar Elfar Freyr lét reka sig út af fyrir glórulaust olnbogaskot strax á sjöttu mínútu leiksins. Að vísu fengum við að setja mann inn á fljótlega eftir brotið en í millitíðinni skoruðu Skagamenn fyrsta markið. Vert er að benda þessum sterka leikmanni á að þegar menn hafa spilað vel yfir 200 leiki í efstu deild og eru að nálgast þrítugt þá brjóta menn ekki svona af sér! Í alvöru leik er allt of dýrt að missa menn af leikvelli fyrir svona klaufaskap!

En það var eins og þetta atvik hleypti nýju lífi í Blikaliðið. Miðjumennirnir með Guðjón Pétur, í sínum fyrsta leik í langan tíma í græna búningnum, Alexander Helgi og Andri Rafn tóku öll völd á vellinum. Aron Bjarna jafnaði leikinn með gullfallegu mark um miðjan hálfleikinn eftir fínan undirbúnings Guðjóns Péturs. En því miður náðum við ekki að bæta við mörkum í hálfleiknum.

Það vantaði eitthvað malt í Blikaliðið í seinni hálfleiknum. Allan kraft og sannfæringu vantaði í sóknarleikinn. Svo fengum við tvö ódýr mörk á okkur í hálfleiknum. Bæði eftir slakan varnarleik og lítinn stuðning frá miðjunni. Lokastaðan því 3:1 og greinilegt að liðið þarf að undirbúa sig vel fyrir leikinn gegn Grindavík suður með sjó á laugardaginn.

Að vísu vantaði sterka pósta í Blikaliðið að þessu sinni. Thomas Mikkelsen, Brynjólfur, Johnathan Hendrikz og Kwame Kee hvíldu vegna smávægilegra meiðsla en verða að öllu óbreyttu tilbúnir gegn Grindavík. En strákarnir sem fengu tækifæri í dag verða að spýta í lófana ef þeir ætla sér að halda sæti sínu í byrjunarliðinu.

Gamalt máltæki segir að fall sé fararheill. Við skulum vona að það eigi við Blikaliðið að þessu sinni!

-AP

Leikurinn var sýndur á ÍA TV


 

Til baka