BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

..svekktir en stoltir

09.08.2013

Blikar léku í kvöld seinni leik sinn við Aktobe í undankeppni Evrópudeildar UEFA. Leikið var á Laugardalsvelli þar sem gestirnir samþykktu ekki að veita okkur undanþágu til að leika á Kópavogsvelli. Og það var eins  gott hjá þeim því við hefðum ekki getað hleypt öllum þeim 2449, sem komu á leikinn í kvöld, inn á Kópavogsvöll. Hann rúmar ekki svona marga í sæti.....að ekki sé nú talað um flóðljósin !
Að gera snarlega bragarbót á hvorutveggja hygg ég að sé komið í vinnslu og á forgangslista hjá forráðamönnum Breiðabliks og Kópavogsbæjar. Það er ekki eftir neinu að bíða.
Það var ljóst fyrir leik að Blikar þyrftu að gera a.m.k eitt mark í dag til að jafna metin í viðureigninni við og forðast að fá á sig mark. Ólafur Helgi brá ekki vana sinum og gerði breytingar á liðinu frá síðast leik. Þórður Steinar kom nú inn í liðið á ný ásamt Andra Rafni og Tómasi Óla.

Byrjunarliðið okkar var því þannig skipað;

Gunnleifur
Þórður Steinar - Sverrir Ingi - Renée - Kristinn J
Tómas Óli - Andri Rafn - Finnur Orri (F) - Guðjón Pétur
Ellert - Elfar Árni

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Nichlas Rohde
Gísli Páll Helgason
Elfar Freyr Helgason
Árni Vilhjálmsson
Olgeir Sigurgeirsson
Elvar Páll Sigurðsson

Sjúkralisti;  Rafn Andri Haraldsson

Leikbann; Enginn

Leikskýrsla

Eins og fram kom hér að framan voru vel á þriðja þúsund áhorfendur mættir á Laugardalsvöllinn í kvöld í rignignarsudda og allhvössum vindi sem virtist breytilegur frá austri til austsuðausturs. Rokur í honum en úrkoma ekki mikil og nánast hverfandi er leið á leikinn. Hiti 10°C. Semsagt ekta íslenskt haustveður. Fyrir leik komu fjölmargir stuðningsmenn Blika saman í félagsheimili Þróttar og stilltu saman strengi og röðuðu í sig hamborgurum og gosi ásamt hverju því öðru sem menn vildu væta kverkarnar með en má ekki nefna. Þetta fór allt hið besta fram og það var fín stemmning og greinileg tilhlökkun í mannskapnum. Stjórn deildarinnar og Blikaklúbburinn (þetta fólk sefur víst aldrei - alveg satt) eiga þakkir skildar fyrir þetta framtak.

Þar sem leikurinn dróst á langinn og fór í vítakeppni ofaná framlenginguna og mjög er orðið áliðið og  undiirritaður þarf bráðum að mæta í vinnuna þá verður leikskýrslan í styttra lagi að þessu sinni. Um leikinn og alla þá dramatík sem honum fylgdi er hægt að skrifa langt mál og það hafa aðrir þegar gert og mun ég því auka leti mína og vísa á nokkrar slíkar umfjallanir sem ritaðar voru því sem næst í rauntíma.
 
Ég vil þó ekki láta hjá líða að þakka liðinu og þeim er að því standa fyrir frábæra frammistöðu og skemmtun í Evrópukeppninni árið 2013. Þið hafið sannarlega aukið hróður sjálfra ykkar, Breiðabliks og íslenskrar knattspyrnu.
Breiðablik tók sannarlega nokkur skref fram á við í þessari keppni. Vann 3 leiki, tapaði einum og gerði tvö janfntefli. Liðið fékk aðeins á sig eitt mark í þessum leikjum og það kom á 90. mínútu úr vítaspyrnu austur í Kasakhztan. Við héldum hreinu í 5 leikjum.  Einhverntíma hefði það eitt og sér verið fyrirsögn.
Þetta er frábær árangur og þess vegna er reyndar alveg djöfullegt að vera dottnir út. Það skyggir hinsvegar ekki á frammistöðu liðsins og þetta er ekki allt til einskis unnið. Ég er sannfærður um að við munum uppskera síðar það sem við sáðum í kvöld og í undanförnum leikjum. Vítaspyrnukeppnir eru hinsvegar lotterí og því miður vorum við ekki með vinningsmiðann í kvöld. Stemmningin á áhorfendapöllunum  var frábær allan tímann og hvatningarópin skiluðu sér að sögn vel  inn á völlinn.
Blikar geta borið höfuðið hátt.

En nú þarf að henda þessum leik til hliðar strax í fyrramálið því framundan er viðureign við FH, í PEPSI deildinni, n.k. sunnudag í Kaplakrika  og hefst leikurinn kl.19:15.
Þar þurfum við að standa okkur, jafnt leikmenn sem áhorfendur, og koma okkur í vænlega stöðu í baráttunni um Íslandsmeistarabikarinn.

Strákarnir verða tilbúnir, stemmningin frábær og veðrið til fyrirmyndar. Þá getur þetta ekki klikkað.

Mætum öll 2449 og ýtum okkar mönnum í gegnum leikinn!

Áfram Breiðablik !

OWK

Ps.
það var afar ánægjulegt að fyrirliðinn skyldi loksins rjúfa markaþurrðina og það var líka gaman að sjá Elfar Frey á ný í græna búningnum. 

Til baka