BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tap í lokaleiknum

03.02.2017

Blikar urðu að sætta sig við 6. sætið í fótbolta.net mótinu eftir tap gegn Grindvíkingum í vítaspyrnukeppni. Jafnt  var 1:1 eftir venjulegan leiktíma og þrátt fyrir að Gulli næði að verja fyrstu spyrnunaþá höfðu gestirnir betur eftir 5 spyrnur. Mark okkar setti Guðmundur Friðriksson með miklum ágætum eftir góða sendingu frá Aroni Bjarnasyni.

Ákveðnar viðvörunarbjöllur hringja eftir þennan leik þrátt fyrir of snemmt sé að hafa miklar áhyggjur. Við héldum boltanum löngum stundum í leiknum en eins og oft áður náðum við ekki skapa okkur nægjanlega mikið af færum. Að vísu fengu bæði Sólon Breki og Arnþór Ari ágæt færi í fyrri hálfleik en náðu ekki að nýta þau. Hins vegar er áhyggjuefni hve liðin virðast vera farin að lesa okkar leikkerfi. Grindvíkingar spiluðu aftarlega og það vantaði einhverja hugmyndaauðgi í sóknarleikinn okkar til að brjóta niður vörn þeirra.

Margir leikmenn fengu tækifæri í leiknum og sýndu margir ágæta takta. Gulli var góður í markinu og varði vel í nokkur skipti. Aron Kári og Damir ná  ágætlega saman í miðju varnarinnar og er gaman að sjá hve Aron Kári er yfirvegaður leikmaður þrátt fyrir ungan aldur. Aron Bjarnason kom inn á sem varamaður og var þetta fyrsti leikur hans fyrir Blikaliðið. Hann sýndi lipra takta og átti frábæra sendingu í markinu. Enn einn ungi leikmaðurinn Kolbeinn Þórðarson, 16 ára, kom með ákafa og baráttu inn í leikinn og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.

Það styttist í að keppnin í Lengjubikarnum hefjist. Við hefjum leik gegn Stjörnunni laugardaginn 18. febrúar í Fífunni. Þá verður Tokic mættur til að skerpa á sóknarleiknum og þá verður fyrst hægt að dæma Blikaliðið af einhverri alvöru.

-AP

Til baka