- Blikar fagna markinmu sem Thomas Mikkelsen #9 skoraði strax á 14. mín. Mynd: HVH
- Thomas Mikkelsen skoraði snyrtilegt mark á lipran hátt. Draumabyrjun hjá Dananum en hann sýndi góða takta í leiknum. Mynd. HVH
- Oliver og Davíð undirbúa aukaspurnu. Mynd: HVH
- Oliver og Davíð eftir aukaspyrnuna. Mynd: HVH
- Andri Rafn Yeoman var valinn maður leiksins. Mynd: HVH
- Fyrir leikinn gegn Fjölni í afhenti Orri Hlöðversson formaður knattspyrtnudeildar Breiðablikas Gunnleifi Gunnleifssyni viðurkenningu fyrir 200 mótsleiki með Breiðabliki. Mynd: HVH
Teflt á tæpasta vað!
17.07.2018Blikar sluppu með skrekkinn þegar þeir unnu Fjölni 2:1 á Kópavogsvelli í gær. Glæsilegt aukaspyrnumark Olivers Sigurjónssonar skömmu fyrir leikslok tryggði okkur stigin þrjú. En leikurinn fer ekki í sögubækurnar sem mikil skemmtun fyrir áhorfendur. Sigurinn var hins vegar kærkominn eftir tvö markalaus jafntefli í undanförnum leikjum. Með þessum sigri fór Blikaliðið upp í þriðja sæti í deildinni einungis þremur stigum á eftir toppliðunum tveimur. Það er styrkleikamerki að eiga ekki neitt sérstakan leik en landa samt sigri!
Lítið var af færum í leiknum og spilaði Blikaliðið hálf-gerðan rugbý bolta í leiknum. En eins og íþróttaáhugamenn vita þá mega leikmenn í þeim göfuga enska leik aldrei spila/henda knettinum fram á við. Það sama var upp á teningnum í gær. Blikaliðið spilaði knettinum hvað eftir annað til hliðar eða til baka en sjaldan fram á við. Það er áhyggjuefni þegar mótherjar pakka í vörn þá virðist Blikaliðið ekki eiga nægjanleg mörg svör til að brjóta upp varnarmúr andstæðinganna.
,,Það er skemmtilegra að sjá grasið gróa en þennan hálfleik“, tautaði einn áhorfandi fyrir munni sér þegar hann skokkaði í Blikakaffið í leikhléi. Blikaliðið var reyndar með boltann nánast allan tímann en það gerðist varla nokkur skapaður hlutur í hállfleiknum. Eina undantekningin var þegar besti maður vallarins, Andri Rafn Yeoman, tók rispu upp völlinn, renndi knettinum út á Gísla Eyjólfsson sem reyndi skot á markið. Það var varið af varnarmanni Fjölnismanna en knötturinn barst til nýja sóknarmannsins okkar, Thomas Mikkelsens, sem skoraði snyrtilegt mark á lipran hátt. Draumabyrjun hjá Dananum en hann sýndi góða takta í leiknum. En hann var yfirleitt valdaður af fjórum varnarmönnum og átti því erfitt uppdráttar.
Ekki var leikur Fjölnismanna heldur til að hrópa húrra fyrir. Þeir pökkuðu í vörn i fyrri hálfleik og náðu varla sendingu manna á millum. En þeim tókst að drepa leikinn og greinilegt að þeir voru komnir til að ná í eitt stig. Þeir hresstust nokkuð í seinni hálfleik á sama tíma og við misstum tök á leiknum. Miðjumennirnir okkar bökkuðu of mikið og varnarmennirnir voru óvenju óöruggir í varnartilburðum. Bakverðir og vængmenn okkar ógnuðu lítið fram á við og hafa oft átt betri leik en í þetta sinn.Það kom því í sjálfu sér ekki á óvart að gestirnir jöfnuðu leikinn skömmu fyrir leikslok.
En sem betur fer skoraði Oliver þetta draumamark á 90. mínútu og kættust nú þessir tæplega 800 áhorfendur í stúkunni sem voru flestir farnir að gera ráð fyrir enn einu jafnteflinu. Þessi sigur gefur okkur vonandi byr undir báða vængi fyrir FH leikinn á sunnudaginn á Kópavogsvelli. Okkur hefur yfirleitt gengið vel gegn Fimleikjadrengjunum og við ætlum okkur að vera i toppbaráttunni áfram!
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
-AP