- Byrjunarliðið í leiknum gegn Val: Gunnleifur Gunnleifsson, Renee Troost, Sverrir Ingi Ingason, Nichlas Rohde, Ellert Hreinsson, Þórður Steinar Hreiðarsson, Finnur Orri Margeirsson fyrirliði. Elfar Árni Aðalsteinsson, Kristinn Jónsson, Guðjón Pétur Lýðsson, Andri Rafn Yeoman. Mynd: HVH
- Ellert Hreinsson fagnar marki sínu gegn Val. Mynd: HVH
Teningunum er kastað!
25.06.2013Blikar mættutilleiks gegn Val með nokkuð breytt lið frá leiknum gegn Skagamönnum í Borgunarbikarnum. Kristinn Jónsson kom aftur inn í liðið af sjúkralistanum og sömuleiðis komu Ellert og Guðjón Pétur inn í byrjunarlið. Árni Vilhjálmsson var einnig útskrifaður og kom inn í hópinn á ný eftir hnjask í upphitun á Skaganum. Olgeir, Viggó og Jökull komu aftur á tréverkið í stað fyrrnefndra þremenninga. Semsagt enn og aftur oggulitlar breytingar.
Byrjunarliðið okkar var því þannig skipað;
Gunnleifur
Þórður Steinar Hreiðarsson– Sverrir Ingi – Renee Troost – Kristinn Jónsson
Elfar Árni – Finnur Orri (F) - Andri Yeoman - Guðjón Pétur Lýðsson
Nichlas Rohde - Ellert Hreinsson
Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Tómas Óli Garðarsson
Páll Olgeir Þorsteinsson
Ósvald Jarl Traustason
Olgeir Sigurgeirsson
Jökull I. Elísabetarson
Árni Vilhjálmsson
Sjúkralisti; Gísli Páll Helgason – Rafn Andri Haraldsson
Sjá leikskýrslu HÉR
Fyrir leik fór fram stutt minningarathöfn vegna fráfalls Ólafs E. Rafnssonar, forseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Henni lauk með einnar mínútu þögn á Kópavogsvelli og bæði lið léku með sorgarbönd. Knattspyrnudeild Breiðabliks sendir fjölskyldu Ólafs og vinum innilegar samúðarkveðjur og minnist mikils drengskaparmanns með hlýju og virðingu.
Veður til knattspyrnu var fremur hagstætt. SA gola, alskýjað og hiti nálægt 12 °C, þegar flautað var til leiks í kvöld að viðstöddum 1400 áhorfendum. Sófadýrin góndu svo á þetta heima í stafrænni útsendingu Stöðvar 2, en það er nátt´lega ekki hálft gaman að því. Völlurinn virtist í toppstandi og ekki örgrannt um að hann hafi verið sneggra sleginn nú en fyrr í vor.
Blikar hófu þennan leik af talsverðum krafti og munaði litlu að Nichlas slyppi einn í gegn eftir flotta sendingu Elfars en boltinn þvældist aðeins í fótum Danans og ekkert varð úr. Blikar voru síðan ívið hressari en gestirnir næstu mínúturnar. Svo jafnaðist leikurinn og gestirnir komust betur inn í leikinn á sama tíma og Blikum gekk hálf erfiðlega að halda boltunum og voru, að manni fannst, fullmikið að reyna flókna hluti sem gengu ekki alveg upp. Þetta var svona barningur fram og til baka og lítið um færi. Þegar leið að lokum hálfleiksins færðist heldur meira fjör í leikinn og Ellert átti hörkuskalla eftir hornspyrnu sem fór naumlega framhjá. Valsmenn áttu ekkert færi í fyrri hálfleik, en 2-3 skot af löngu færi hittu ekki markið. Á 43. mínútu áttu Blikar langbesta færi fyrri hálfleiks en Fjalar varði meistaralega skalla frá Guðjóni Pétri , eftir glæsilegt spil okkar manna, sem lauk með því að Nichlas skallaði boltann fyrir markið og þar kom Guðjón á ferðinni, en Fjalar eins og köttur á boltann. Frábær tilþrif.
Staðan í hálfleik því markalaus.
Undarlegt þótti mönnum skyndiverkfall aðstoðardómarans stúkumegin í fyrri hálfleik. Hann harðneitaði að lyfta flagginu, slag í slag þegar gestirnir stunduðu bakhrindingar, peysutog og almennt þukl með tilraunum til kyrrsetninga, nánast upp við nasavængina á honum. Einkum þukluðu þeir á Nichlas, nánast í hvert sinn er hann fékk boltann og ennfremur ber að nefna a.m.k tvær velheppnaðar bakhrindingar þar sem Andri Yeoman var fórnarlambið. Nei – sá með flaggið tommaði því ekki upp, og þóttu dagfarsprúðum áhorfendum þetta hin mesta fúlmennska og létu manninn heyra það duglega, en þó án meiðinga. Í tvígang sá hinsvegar aðaldómarinn aðfarirnar og dæmdi gestina brotlega. En tylft brota var látin óátalin og það er eiginlega ekki boðlegt í efstu deild, með leyfiskerfi og alles auk þess sem börn voru á vellinum.
Stuðningmenn Blika voru hinir bröttustu í hálfleik og töldu okkar möguleika góða. Okkar menn óðum að komast í gang eftir þvi sem leið á leikinn og já, bara flott holning á liðinu. Varnarleikurinn traustur. Vigni Bald. fannst allt benda til að við myndum hafa þetta.
Blikar voru mjög þéttir í upphafi seinni hálfleiks og Valsmönnum gekk ekkert að finna glufur á vörn okkar manna. Renee komst hinsvegar í hálffæri eftir vel útfærða hornspyrnu okkar manna, eina af nokkrum, en skot hans fór yfir markið. Gestirnir lágu aðeins hærra með vörnina en lengst af fyrri hálfleiks og það hentaði ekki illa því við það losnaði aðeins um svæði bak við vörn þeirra. Minnstu munaði að Nichlas gerði sér mat úr góðri sendingu Guðjóns en hann var ranglega dæmdur rangstæður. Þetta var sjónarmunur og ekki hægt að skammast í aðstoðardómara sem sér þetta bara einu sinni í sjónhending. En þetta var samt rangur dómur.
Svo kom markið langþráða. Blikar unnu boltann á eigin vallarhelmingi og boltinn barst til Finns Orra sem lék með hann langleiðina upp að vítateig gestanna. Þórður skeiðaði upp vænginn og undirritaður var kominn vel áleiðis með að krossbölva fyrirliðanum fyrir að gefa ekki strax á Þórð, þegar hann tróð blautum ullarsokk með ”det samme” – takk fyrir það - og sendi boltann á Ellert sem var með tvo landsliðsmenn á sér, einsog þjálfari gestanna benti á í PEPSI áðan. Ellert, sem virtist hinsvegar alls ókunnugt um þessa forfrömun téðra varnarmanna, lét einsog ekkert væri sjálfsagðara en leika á þá báða, og dúndra svo boltanum í bláhornið, fram hjá enn einum landsliðsmanninum.
1-0 fyrir Blika. Landsliðs.. hvað?
Valsmönnum var sem von var nokkuð brugðið en brugðu nú á það ráð að skjóta á mark Blika, svona til tilbreytingar. Skotið var fast og boltinn hafði auk þess viðkomu í Renee og svo tók hann á sig alls kyns króka og beygjur eins og priklaus raketta þannig að viðstadda sundlaði ítrekað, en að lokum náði Gunnleifur að koma höndum á tuðruna og slá í horn. Skömmu síðar voru Blikar í dauðafæri eftir góða sókn en Valsmenn náðu á undraverðan hátt að komast fyrir skot þegar markið blasti við. Sá því miður ekki hvaða Bliki var við það að setj´ann. Held það hafi verið Ellert. Fjörið var ekki alveg búið, því á næstu mínútu voru Valsmenn í sókn og boltinn barst út á vinstri kant frá þeim séð. Þar náði Sverrir afbragðsgóðri tæklingu sem var í leiðinni stungusending inn fyrir vörn gestanna. Og hver var þar mættur, nema Nichlas sem hljóp eins og byssubrandur beint strik inn í teig gestanna. Þar smeygði hann boltanum fram hjá Magnúsi Lúðvíkssyni sem mættur var á svæðið til að stöðva okkar mann. Magnús var ekkert að tvínóna við hlutina frekar en fyrri daginn á Kópavogsvelli (hver man ekki þegar hann tvínegldi Jökul niður fyrir framan nef dómarans í leik gegn KR á sama velli 2.maí 2011, nýbúinn að fá gult?) og hreinsaði bara lappirnar undan Nichlas fyrir framan dómara og aðstoðardómara sem voru prýðilega staðsettir!!!
Þetta var ekkert annað en hrein og klár vítaspyrna og rautt spjald.
Sem betur fer hafði þetta ekki úrslitaáhrif í kvöld en það er umhugsunarefni eftir leiki helgarinnar að tveir leikmenn sem klárlega ættu að hafa fengið rautt, og við erum ekki að tala um nein vafaatvik, munu spila í næstu umferð eins og ekkert hafi í skorist. Í hvorugu tilvikinu snertir varnarmaðurinn boltann heldur fer beint í lappir sóknarmannsins. Hvaða reglur gilda? KSÍ þarf að svara því.
Gleymdi mér aðeins. Aftur að leiknum. Það sem eftir lifði leiks freistuðu Valsmenn þess að jafna leikinn, og skiptu ferskum mönnum inná. Þeir komust hinsvegar lítt áleiðis gegn sterkri vörn okkar manna sem léku af miklu öryggi. Blikar héldu auk þess boltanum ágætlega síðustu mínúturnar og það fór nokkuð í skapið á gestunum. Það var fínt. Einkum fór Elfar Árni illa með gestina. Sólaði þá pollrólegur og bjó til færi en það vantaði herslumun. Tómas Óli kom inná fyrir Nichlas þegar skammt var til leiksloka en að öðru leyti kláraði byrjunarlið okkar leikinn. Blikar sigldu þessu heim af öryggi og höfðu um leið sætaskipti við Val. Eru nú í 4. sæti með 16 stig að loknum 8 umferðum sem er 66,66% vinningshlufall.
Þó flestir fjölmiðlar þessa lands hafi næstum dáíð úr leiðindum á vellinum í kvöld og skrifað langhunda um þeirra eigið dapurlega sálarástand af því tilefni, látum við okkur það í léttu rúmi liggja. Að ná í 3 stig var verkefni dagsins.
En það er nefnilega margt hægt að segja um þennan leik. Og hvað okkar lið varðar, er það flest jákvætt. Þetta var t.d. fimmti leikurinn í röð sem við vinnum. Þetta var líka fimmti leikurinn í röð sem við höldum markinu hreinu. Þetta var líka leikur sem margir höfðu áhyggjur af eftir að hafa lent í framlengingu á Skaganum s.l. fimmtudag. En Blikar léku af öryggi lengst af og gáfu engin færi á sér. Maður hafði á tilfinningunni að menn væru tilbúnir í bardagann. Markið sem þurfti skilaði sér svo á endanum.
Það lítur því út fyrir að við ætlum að vera með í toppbaráttunni. Kannski var þetta okkar Rubicon. Hver veit?
Það var frábær stemmning og hvatning á vellinum í kvöld og það þarf að endurtaka leikinn á sunnudaginn.
Næsti leikur okkar manna í PEPSI deildinni er n.k. sunnudag kl.19:15. Það er útileikur gegn Fram og nú þurfa allir að leggjast á árarnar og ná í öll stigin í þeim leik. Blikar eiga fyrir höndum þétta dagskrá næstu vikurnar í PEPSI deildinni og Borgunarbikarnu, auk þess sem nú bætast við leikir í undankeppni Evrópudeildar UEFA, þar sem við mætum FC Santa Coloma frá Andorra. Fyrri leikurinn verður fimmtudaginn 4. Júlí á Kópavogsvelli og sá síðari viku seinna, ytra.
En það er semsagt FRAM á sunnudaginn og nú dugar ekkert hálfkák einsog í fyrra, þegar við glutruðum niður unnum leik.
Áfram Breiðablik !
OWK
p.s.
Breiðablik OPEN golfmótið verður haldið 28.júní
Allt um það á Blikar.is
Ert þú búinn að skrá þig?