BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Það er eitthvað í loftinu - sigur á Skagamönnum

27.01.2018

Blikar unnu öruggan 0:4 sigur á Skagamönnum í fótbolti.net mótinu upp á Skipaskaga í dag. Sigur þeirra grænklæddu var öruggur og yfirvegaður og sýndum við þeim gulklæddu enga miskun allan leikinn. Mörk Blika settu Willum og einn Skagamaður í fyrri hálfleik og svo negldu Gísli og Viktor Örn lokanaglana í kistuna hjá heimamönnum í síðari hálfleik.

Blikar töku nánast öll völd á vellinum strax frá byrjun. Við vorum fljótir og snöggir í öllum okkar ákvörðunartökum og fór það mjög í taugarnar á Skagamönnum. Þeir eyddu miklu púðri í að tuða í dómaranum og kvarta undan spilamennsku okkar pilta. Eins og flestir vita þá skilar það yfirleitt engum árangri!

,,Það er eitthvað í loftinu" sagði myndatökumaðurinn hugumprúði Heiðar Heiðarsson eftir leikinn og er hægt að taka undir það með honum. Gísli og Andri Rafn voru eins og kóngar á miðjunni og voru fremstir jafningja í Blikaliðinu. Annars átti allt liðið góðan leik og komu flest mörkin eftir hraðar og markvissar sóknir okkar pilta.​

Damir fékk högg á nebbann á 15. mínútu og hætti ekki að blæða þannig að ákveðið var að hvíla hann. Hann lék hins vegar á alls oddi eftir leikinn þannig að hann verður klár í næsta leik.

Það vakti athygli að Ágúst þjálfari skipti 15 ára pilti Daniel Dejan Duric inn á 80 mínútur. Daníel er á yngri ári í þriðja flokki en er talinn einn efnilegasti knattspyrnumaður landsins í sínum aldursflokki. Daníel er léttur og mjúkur leikmaður sem getur náð langt með réttri þjálfun og skynsamlegu hugarfari. Hann verður hins vegar að passa sig að ofmetnast ekki því ef rétt verður á spilum haldið getur hann orðið einn besti knattspyrnumaður landsins.

Við Blikar erum því glaðir eftir þessa Skagaferð og hlökkum til næstu leikja hjá Blikaliðinu.

Sjá umfjallanir netmiðla, viðtöl eftir leik og leikinn í heild hér

-AP

Til baka