BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Þungir og þreyttir Blikar lágu gegn Fylki

13.02.2016

Fylkismenn komu inn með miklum látum gegn Blikum í fyrsta leik Lengjubikarsins og sigruðu 1:3. Sigurinn hjá gestunum var sanngjarn en ef til vill aðeins og stór. Okkar piltar virkuðu hins vegar frekar þungir og þreyttir enda hefur verið mikil keyrsla á æfingum að undanförnu. Mark Blika setti Arnþór Ari með skalla eftir frábæra fyrirgjöf Davíðs Kristjáns og voru það bestu tilþrif Blika í leiknum.

Strax frá fyrstu mínútu lenti Blikavörnin í erfiðleikum því þeir appelsínugulu pressuðu okkur mjög ofarlega. Bakvörðurinn frái Alfons Sampsted bjargaði hins vegar á síðustu stundu. Þetta gaf aðeins tóninn fyrir leikinn. Fylkismenn hlupu og pressuðu allan völlinn á meðan við náðum ekki neinu almennilegu floti á boltann. Fyrst mark gestanna kom eftir slaka varnarvinnu eftir hornspyrnu og síðara mark gestanna í fyrri hálfleiknum eftir hrikaleg varnarmistök okkar pilta. Þeir grænklæddu hressust eftir fyrra mark Fylksimanna og Arnþór Ari setti markið eftir fína fyrirgjöf Davíðs Kristjáns.

Það var eingöngu undir lok síðari hálfleiks sem við fórum að ógna marki Bónusdrengjanna að nokkru ráði. En í millitíðinni fengum við mark á okkur eftir slaka hreinsun úr vörninni og leikurinn í raun tapaður.Eins og stundum í vetur þá vantaði meiri hugmyndaflug í miðjuspil Blikanna. Sérstaklega var tempóið lélegt í síðari hálfleik þegar hafsentarnir okkar kýldu fram í gríð og erg án nokkurs árangurs. Spilið lagaðist nokkuð undir lok leiksins þegar hinn ungi og efnilegi Óskar Jónsson kom inn á miðjuna. Einnig kom Arnór Aðalsteinsson inn í sínum fyrsta leik í vetur. Það munar um svona reynslumenn! Þá náðum við að pressa nokkuð á Fylkismennina og átti Guðmundur Atli meðal annars skalla í stöngina. En lokatölur 1:3.

Allt um leikinn (myndir,myndband,umfjallanir)

Það styttist í að lykilmenn eins og Höskuldur og Oliver komist í gang á nýjan leik. Þeir voru fjarri góðu gamni í dag vegna meiðsla. Það munar um minna. En það er smá áhyggjuefni að aðrir leikmenn hafi ekki gripið gæsina á meðan hún gefst. Það er helst að ungir og efnilegir leikmenn eins og Alfons og Óskar hafi staðið upp úr.

En næstu andstæðingar okkar eru KA-menn en þeir hafa verið að styrkja sig mikið að undanförnu. Sá leikur verður í Fifunni á laugardaginn kl.15.00.

Þá gerum við Blikar kröfu á okkar leikmenn að þeir komi betur stemmdir en í leiknum í dag!

-AP

Til baka