BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tímamót á Skipaskaga

21.06.2013

Byrjunarliðið okkar var þannig skipað;

Gunnleifur
Viggó Kristjánsson – Sverrir Ingi – Renee Troost – Þórður Steinar Hreiðarsson
Elfar Árni – Finnur Orri - Andri Yeoman  ––Jökull I. Elísabetarson
Nichlas Rohde- Olgeir Sigurgeirsson

Blikar mættu með allnokkuð breytt lið frá leiknum gegn Fylki í deildinni. Sumar breytingarnar voru ákveðnar í reykfylltum bakherbergjum Smárans m.t.t. til fyrirliggjandi meislalista eftir æfingu gærdagsins, s.s. með Kristinn Jónsson sem var alveg hvíldur í dag, og Ellert Jónsson sem byrjaði á tréverkinu. Árni Vilhjálmsson fór sér svo að voða í upphitun og varð frá að hverfa og í hans stað fór gamla brýnið, Olgeir, í senterinn. Guðjón Pétur fór á bekkinn, Jökull kom á hægri vænginn og Viggó í vinstri bakvörð og Nichlas kom aftur inn í byrjunarliðið eftir að hafa skorað glæsilegt sjálfsmark gegn Fylki. Megi þau verða fleiri í sumar. Semsagt allmiklar breytingar á byrjunarliði einsog áður sagði.

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Ellert Hreinsson
Guðjón Pétur Lýðsson
Tómas Óli Garðarsson
Páll Olgeir Þorsteinsson
Ósvald Jarl Traustason
Alexander Helgi Sigurðarson


Sjúkralisti;  Gísli Páll Helgason – Rafn Andri Haraldsson - Kristinn Jónsson – Árni Vilhjálmsson

Sjá leikskýrslu HÉR:

Fyrir leik var Ólafs E. Rafnssonar, forseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands minnst og bæði lið léku með sorgarbönd. Ólafur lést sem kunnugt er s.l. miðvikudag langt um aldur fram.

Það var stinningskaldi með sólarglennum og 13 °C hita þegar flautað var til leiks á Jaðarsbökkum í kvöld í í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins. Ekki beint hitabylgja og vindur skáhallt í stefnu NA-SV, horn í horn, nægur til að að þvælast talsvert fyrir leikmönnum og gera þeim lífið nokkuð leitt. En eins og þar segir,  þá blés jafnt á bæði liðin þegar upp var staðið. Blikar andæfðu gegn vindinum í fyrri hálfleik og gekk á ýmsu með sendingar og samleik, af beggja hálfu. Heimamenn áttu fyrsta hættulega færið þegar nokkuð var liðið á hálfleikinn en föst sending fyrir mark Blika rann óáreitt út í sandinn sjávarmegin. Okkur gekk bölvanlega að skapa okkur færi, en Olgeir og Elfar áttu báðir skot sem ollu litlum vandræðum fyrir markvörð heimamanna.
Fyrri hálfleikur svo sem ekkert augnayndi en á móti kom að Blikar voru ansi þéttir og þeim gekk vel að eiga við háar sendingar heimamanna fram völlinn, en þær voru allnokkrar. Ennfremur vörðust menn vel í hornum og aukaspyrnum, enda vorum við með varnarlínu með meðalhæð í kringum 190 cm, eða vel á annan meter einsog sagt er.  Sérstaklega var gaman að fylgjast með viðureignum Sverris og Reneé við Ármann Smára. Þar gaf enginn neitt eftir og höfðu ýmsir betur í fyrstu , en smátt og smátt pökkuðu okkar menn  honum saman.
Í hálfleik tutluðu men hrosshár og fýldu grön, að þjóðlegum íslenskum sið, og svo var spáð í leikinn. Almennt samkomulag var um að þetta væri kannski fullmikið ströggl og barningur. Vantaði færin og herslumuninn. Rok? Erfitt að senda boltann? Menn sem slógu inn að flöt í upphafshöggi á 6. braut í goluskít á Garðavelli í dag, sáu bara ekki ókostina við að spila við þessar aðstæður…bara alls ekki. Svo var tvístigið, klórað sér og bitið í efrivörina. Tóta fannst eins og stundum endranær að það mætti skjóta meira og hafði hann nokkuð til sins máls.

Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri til að byrja með en eftir því sem á hann leið óx Blikum ásmegin án þess þó þeir næðu að skapa sér mörg færi. En Skagamenn komust varla í sókn langtímum saman. Ellert kom inn fyrir Viggó eftir stundarfjórðung og fór á kantinn en Jökull í vinstri bakvörð.  Við það kom aukinn kraftur í Blikana og Ellert kom nokkrum fyrirgjöfum inn í teig og skapaði usla, en enn vantaði virkilega góð færi. Allt of margar fyrirgjafir okkar manna náðu varla inn í teig en láku þess í stað eftir vítateigslínunni og þar fyrir framan. Þegar korter lifði venjulegs leiktíma gerðu Blikar aðra breytingu þegar Guðjón Pétur kom inn fyrir Olgeir. Og enn þyngdist sókn okkar manna. Rétt fyrir leikslok var svo mikill darraðardans við mark skagamanna þegar þeir náðu á undraverðan hátt að koma í veg fyrir mark. Fyrst var Nichlas með gott skot sem markvörður varði út í teig og þar kom Elfar og náði skoti, en aftur vörðu Skagamenn á línunni. Þetta var það næsta sem Blikar komust að skora í venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja í 2 x 15 mínútur. Blikar gerðu strax skiptingu og settu Tómas Óla inn í stað Andra Yeoman, sem kominn var með gult spjald og var auk þess að ströggla aðeins í lok leiks og var með sendingar sem hefðu ekki staðist gæðakröfur Andra sjálfs á góðum degi. Andri hljóp mikið í þessum leik og var sífellt að pressa á heimamenn út um allan völl. Gríðarlega duglegur og líflegur.


Blikar hófu framlenginguna af krafti og þjörmuðu að heimamönnum. Elfar átti gott skot sem var varið og Ellert skallaði naumlega framhjá  eftir hornspyrnu. Ísinn var svo brotinn rétt fyrir lok fyrri hálfleiks framlengingar. Blikar sóttu upp vinstri vænginn þar sem Tómas fékk boltann. Hann tók létta gabbhreyfingu og sendi á Ellert sem var við vítateigshornið. Hann sendi boltann þvert fyrir markið á Nichlas sem var við fjærstöngina, sundlaugarmegin, og hann skallaði boltann fyrir markið á Elfar sem hlammaði sér fyrir varnarmann sem sótti að honum, steig hann svo út og setti boltann upp í þaknetið. Óverjandi fyrir markvörð heimamanna. Vel gert hjá Blikum og Elfar kláraði með stæl. 0-1 fyrir Blika. Skömmu síðar átti svo Ellert hörkuskot, sem fór rétt framhjá marki heimamanna og þar með lauk fyrri hálfleik framlengingar. Seinni hálfleikur hófst svo með látum og heimamenn voru nálægt því að jafna metin strax þegar skot þeirra hafði viðkomu í varnarmanni og sveif þaðan í slána og út í vítateig þar sem Blikar náðu að hreinsa frá. Svo var þetta basl og barátta næstu mínútur. Heimamenn fengu mjög ódýra og sennilega ókeypis aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Úr henni skapaðist stórhætta þegar okkar gamli félagi, Kári Ársælsson, var skyndilega dauðafrír á markteignum. En Blikahjartað slær enn sterkt í Kára og hann dúndraði yfir. Þar sluppum við með skrekkinn og örskömmu síðar gerðu okkar menn út um leikinn eftir frábæra skyndisókn. Elfar fékk boltann á eigin vallarhelmingi og skeiðaði beint í átt að marki heimamanna sem hörfuðu undan. Nichlas kom svo í utanhlaup (“overlap” á ensku) hægra megin við Elfar á meðan Ellert reykspólaði í átt að vítateignum. Elfar renndi svo knettinum á Nichlas sem tók hann inn í teig og renndi á Ellert sem skoraði af stuttu færi. Eldsnöggt, og hæfilega kryddað lostæti. Banvænt fyrir heimamenn. 0-2.
Blikar stráðu svo salti í sár heimamanna skömmu síðar, þegar Elfar tók mikinn sprett upp hægri vænginn gegn fámennri vörn heimamanna og renndi boltanum svo á Tómas Óla sem var aleinn við vítateigslínuna.  Tómas náði að pikka boltanum snyrtilega yfir úthlaupandi markmanninn og í netið fór hann. 0-3. Það sem eftir lifði leiks fór að mestu í tuð og ergelsi heimamanna. Höfðu eitt eða tvö spjöld upp úr því. Hverjum er ekki sama um það?

Blikar þar með komir í 8-liða úrslit eftir sanngjarnan en kannski fullstóran sigur gegn baráttuglöðum og gulum. Þetta var ekki besti leikur Blika, en þeir voru þéttir til baka og gáfu fá færi á sér. Héldu hreinu 4ja leikinn í röð og skoruðu virkilega flott mörk í framlengingu. Það er músík í mínum eyrum.

Skagamenn hafa í gegnum tíðina verið okkar alverstu andskotar í bikarkeppni KSÍ og nú eru elstu menn,  í hábjartri sumarnóttinni, um sumarsólstöður, að leita heimilda um hvort getið sé glæstra sigra Blika gegn Skagamönnum í Bikarkeppni KSÍ hér í den. En finna ekki.  Enda er fátt um þær og líkast til er þetta í fyrsta sinn sem við sláum þá gulu út, am.k. síðan reimin var tekin úr leðurboltanum um það leyti sem Bítlarnir slógu í gegn. En eftir það eru til heimildir um a.m.k 6 leiki og 3 framlengingar. Þar af fóru tvær í vítaspyrnukeppni.  Það gerir þennan tímamótasigur enn ánægjulegri.

Það verður dregið í 8-liða úrslitum núna á eftir og Ólafur Helgi vill endilega mæta lærisveinum Ólafs Brynjólfssonar í Gróttu. Hvort honum verður að ósk sinni kemur í ljós. Við erum allvega í pottinum.

Næsti leikur okkar manna í PEPSI deildinni er n.k. mánudag kl.20:00. Það er heimaleikur gegn Valsmönnum.  Við þurfum að sækja 3 stig og ekkert minna.

Þá er bara að drífa sig í það.


Áfram Breiðablik !

OWK

p.s.
Breiðablik OPEN golfmótið verður haldið 28.júní
Allt um það á Blikar.is
Ert þú búinn að skrá þig?

Til baka