- Blikaliðið fagnaði vel í leikslok. Mynd: HVH
- Gunnleifur Gunnleifsson var sæll með 3 stig í leikslok og þá staðreynd að þetta var 400. deildarleikur fyrirliðans frá upphafi með öllum liðum hérlendis og erlendis (Sviss). Mynd: HVH
- Hér fagnar Gísli Eyjólfsson 1-1 jöfnunarmarkinu sem hann skoraði. Mynd: HVH
- Hrvoje Tokic að skora úr vítaspyrnu og jafna leikinn 2-2. Mynd: HVH
- Sveinn Aron að skora sigurmark Blika. Mynd: HVH
Úff !
25.09.2017Það var allt undir í dag þegar Blikar mættu ÍBV í 21. og næst síðustu umferð PEPSI deildarinnar. Bæði lið í bullandi fallhættu og og því bjóst maður fyrst og fremst við baráttuleik, en alveg undir hællinn lagt með gæðin svona fyrirfram. Blikar með sín 24 stig, í heldur skárri málum en Eyjamenn með 22. Bæði lið myndu tryggja sætið með sigri. Það var það eina örugga.
Það var þokkalegt veður í dag. Það var SV kaldi og gekk á með skúrum í 9 stiga hita. Haustlægðin búin að ausa úr sér mestu fýlunni og völlurinn í fínu standi að séð varð. Það var þokkaleg mæting á völlinn en ekki meira en það.
Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M/F)
Dino Dolmagic - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Gísli Eyjólfsson - Arnþór Ari Atlason - Martin Lund Pedersen - Hrvoje Tokic - Aron Bjarnason
Varamenn:
Ólafur Íshólm Ólafsson(M) - Kolbeinn Þórðarson - Þórður Steinar Hreiðarsson - Kristinn Jónsson - Guðmundur Friðriksson - Ernir Bjarnason - Sveinn Aron Guðjohnsen
Sjúkralisti: Willum Þór Willumsson (veikur)
Leikbann: Enginn.
Tvær breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik. Dino og Davíð Kristján komu inn fyrir Kristinn og Guðmund.
Okkar menn léku gegn vindinum í fyrri hálfleik og fyrsta hálftímann voru okkar menn heldur beittari og fengu sannarlega færi til að komast í forystu. Tokic og Martin Lund fengu sinn hvort dauðafærið en brenndu gróflega af og síðan var Martin hársbreidd frá því að komast í fyrirgjöf frá Aroni en þar vantaði svona hálft skónúmer. En á meðan við vorum svona að daðra við tilhugsunina um mark þá létu gestirnir verkin tala og þeir náðu forystunni á 31. mínútu. Blikar létu einn andstæðing nánast óáreittan utan vítateigs og sá hinn sami þakkaði gott boð og lét vaða á markið. Boltinn steinlá í netinu og þarna verður að setja stórt ? við varnarleik Blika. Bæði varnarmanna sem bökkuðu frá manninum þegar hann var nánast dottinn með boltann í stað þess að setja pressu á hann og svo hefði Gunnleifur einfaldlega átt að taka þennan bolta. Eyjamenn komnir í 1-0 forystu og eins og það væri ekki nógu djöfullegt þá bárust nú fréttir úr Ólafsvík að heimamenn væru komnir yfir. Blikar einu stigi frá fallsæti. Áfram hélt leikurinn og Eyjamenn fengu upplagt færi til að bæta við marki en hættuleg fyrirgjöf sigldi blessunarlega þvert fyrir mark okkar manna án þess nokkur næði til knattarins. Hinu megin var Tokic nálægt því að koma boltanum í netið eftir fyrirgjöf en markmaður kom í veg fyrir það. Skömmu síðar komst Aron inn í teig gestanna eftir vel útfært innkast hægra megin og gaf fyrir, markmaðurinn slæmdi hendinni í boltann en beint fyrir markið þar sem Gísli kom á ferðinni og sendi boltann í netið með góðri kollspyrnu. 1-1. Blikar búnir að jafna og það var nátturulega betra. En á meðan staðan breyttist ekki í Ólafsvík var þetta enn mjög brothætt staða.
Blikar voru nálægt því að ná forystunni skömmu síðar en Tokic vippaði naumlega yfir úr þröngri stöðu eftir laglegt gegnumbrot. Það var síðasta tækifæri hálfleiksins.
Hálfleikskaffið rann ljúflega niður eins og fyrri daginn en náði ekki að losa um gamlan kvíðahnút sem lét nú aftur á sér kræla og þrengdi óþægilega að öndunarfærunum annað slagið. Menn alls ekki sáttir við andvaraleysið á okkar mönnum þegar Eyjamenn skoruðu. Það væri ógaman að þurfa að sækja stig í Krikann í síðustu umferðinni... Allskonar hugsanir flugu í gegnum hugann en það var náttúrulega alveg absúrd að vera í þessari stöðu í næstsíðustu umferð mótsins. Alveg óbærilega absúrd.
Blikar heiðruðu Íslandsmeistara í yngri flokkum í hálfleik og þar fór glæstur hópur drengja og stúlkna. Við erum margfaldir íslandsmeistarar í íslandsmeistaratitlum eins og kunnug er.
En svo hófst leikurinn á ný og bæði lið þyrjuðu af krafti. Blikar áttu fyrsta skotið en það fór naumlega framhjá. Svo dró enn til tíðinda þegar Eyjamenn fengu hornspyrnu eftir að Gunnleifur varði vel gott skot gestanna en glutraði boltanum í horn. Þarna var Gulli eilítið ólíkur sjálfum sér. Og til að gera langa sögu stutta þá fengu okkar menn dæmda á sig vítaspyrnu úr hornspyrnunni og gestirnir komust yfir á ný. 1-2. Undirritaður sá ekki hvað gerðist þegar vítið var dæmt en skv. heimildum hrökk boltinn í hönd Arnþórs Ara. Blikar aftur lentir undir og enn var óbreytt staða í Ólafsvík. Kvíðahnúturinn herti að og manni varð ósjálfrátt hugsað til Hjalta í Denverslun sem fór veikur heim „utaf yfirþirmandi minningum ur firra lífi“ – eins og þar stendur. Blikar komnir til ára sinna kannast við þessa tilfinningu en því er nú betur að hinir yngri þekkja hana ekki jafn vel enda falldraugurinn verið að mestu fjarverandi undanfarinn áratug. Sem er gott. En Blikar voru fljótir að jafna metin og nú voru þeir réttu megin við vítaspyrnudóminn. Elfar Freyr var felldur í teignum og umsvifalaust dæmt víti. Tokic skoraði af miklu öryggi og nú var aftur orðið jafnt. 2-2. Sveinn Aron kom inn fyrir Arnþór Ara. Skýr skilaboð frá Blikum um að nú ætti heldur að bæta í sóknina. Næsta korterið bar fátt til tíðinda uns það kvisaðist út að það væri komið mark í Ólafsvík. 1-1 þar myndi duga okkur. Það slaknaði aðeins á hnútnum. Kristinn Jónsson kom inn fyrir Aron þegar korter var til leiksloka og skömmu síðar munaði litlu að Elfar Freyr næði að skalla hornspyrnu hans í netið. Þar munaði mjóu. Eyjamenn komust líka í gott færi en skot þeirra fór naumlega framhjá. Blikar gerðu enn eina breytingu á liði sínu og Guðmundur kom inn fyrir Dino sem var löngu kominn á varatankinn. Á 90. mínútu skall hurð nærri hælum þegar skot gestanna fór naumlega framhjá. Er enn jafnt í Ólafsvík? Vallarþulur tilkynnti 4 mínútur í uppbótartíma. Heila eilífð....... Ég er ekki alveg viss hvað Blikar voru að hugsa síðustu mínúturnar. Það var allavega ekki að sjá að menn væru að reyna að hanga á boltanum og tefja í ljósi stöðunnar fyrir vestan. Enda óvarlegt. Hvað um það. Blikar fóru í eina sóknina enn og Martin fiskaði aukaspyrnu hægra megin fyrir miðju vallarins. Kristinn tók aukaspyrnuna og sendi eitraðan bolta inn á markteiginn og þar kom Sveinn Aron á ferðinni og smellti boltanum í netið með ristinni. 3-2. Vel gert og þarna tryggðu Blikar sætið í deildinni því þessu kjaftshöggi náðu Eyjamenn náðu ekki að svara áður en flautað var til leiksloka og Blikar fögnuðu vel og innilega í leikslok.
Þetta var nokkuð köflóttur leikur hjá okkar mönnum og spennustigið eflaust hátt. Það var vel gert hjá þeim að koma til baka eftir að lenda undir í tvígang en þeir voru sjálfum sér verstir að lenda undir í fyrra sinnið – það var alger óþarfi. Seinna sinnið var svo bara slys. Engu að síður vel gert að kreista 3 stig í lokin.
Blikar munu leika í PEPSI deildinni á næsta ári og það er fagnaðarefni. Þó mótinu sé ekki lokið er ekki eftir neinu að bíða að hefja undirbúning fyrir næsta tímabil. Ljóst er að við Blikar þurfum að skoða okkar mál vel og af yfirvegun. Það hefur eitthvað farið úrskeiðis á leiðinni og það þarf að finna útúr því hvað það er. Það þýðir lítið að vera bara með upphrópanir og heimta höfuð stjórnamanna o.s.frv. Menn skyldu hafa það í huga, þó sumir kjósi að horfa framhjá því, að núverandi stjórn tók við í vor en ekki í fyrra. Það ágæta fólk vinnur mikið og óeigingjarnt starf og mun áreiðanlega skoða hvað hafi farið úrskeiðis og hvað megi betur fara. Þetta var sumar mikilla vonbrigða í kjölfar mikilla vonbrigða í fyrrahaust og það þurfa allir að líta í eigin barm. Leikmenn, þjálfarar, stjórn, meistaraflokksráð og almennir stuðningsmenn. Það geta og þurfa allir að gera miklu betur. En fyrst af öllu þarf að ákveða hvert eigi að stefna og hvernig eigi að skapa grundvöll til að ná markmiðunum. Það er sennilega óraunhæft að ætla að vera í toppbaráttunni og selja svo bestu leikmennina jafnharðan, jafnvel á miðju tímabili, án þess að fylla í skörðin. Ef við ætlum að vera í toppbaráttunni þurfum við t.d. að finna leið til að hanga lengur á efnilegustu leikmönnum okkar, að ég tali nú ekki um þá bestu. Tryggja stöðugleika. Og svo þarf að rífa upp húmorinn og gleðina í kringum liðið og á leikjum. Það er nefnilega lítið gaman að vera Bliki þegar allt er í steik hjá meistaraflokki karla!
Það eru spennandi tímar framundan og framundan er líka leikur gegn FH í Kaplakrika næsta laugardag. Þar væri gaman að ná í 3 stig.
Áfram Breiðablik !
OWK