Umfjöllun: Súrsætt silfur í hús í Eyjum
22.09.2019Vestmannaeyjar hafa löngum verið erfiðar heim að sækja. Einkum þegar húmar að hausti og lægðirnar ganga yfir landið hver af annarri. Þessi helgi var þar engin undantekning á. Allar veðurspár gerðu ráð fyrir hrakviðri og sudda og það gekk eftir. Blikaliðið sá sér því sæng sína uppreidda og dreif sig til Eyja degi fyrir leik til að láta ekki sjóveiki og aðra óáran skemma fyrir. Þrátt fyrir góðan nætursvefn hjá Blikaliðinu þá er erfitt að spila góðan bolta við slíkar aðstæður og urðum við að sætta okkur við skiptan hlut 1:1. Það dugði okkur hins vegar til silfursætis því önnur úrslit í deildinni voru okkur hagstæð.
Það þarf í sjálfu sér ekki að eyða mörgum orðum í leikinn. Kári í jötunmóð var í aðalhlutverki og ekki er hægt að ætlast til að leikmenn geti spilað alvöru knattspyrnu við þær aðstæður. Höskuldur gerði reyndar fínt mark eftir frábæran undirbúning Thomasar Mikkelsen.
Við vorum reyndar klaufar að fá á okkur vítaspyrnu en það getur alltaf gerst við svona aðstæður.
Síðari hálfleikur var frekar tíðindalítill. Við spiluðum með vindinn í bakið en náðum ekki að nýta okkur aðstæður. Draga má þá ályktun að menn hafi ekki viljað taka neina áhættu varðandi meiðsli og leikbönn fyrir heimaleikinn gegn KR í síðustu umferð.
Þetta var 100. mótsleikur Viktors
En við Blikar verðum í heiðri halda að ,,eitt er bræðrabandið, hvar sem þér í fylking standið“ sem Hannes Hafstein orti svo eftirminnilega um í Aldamótaljóði sínu. Árangur sumarsins er mjög ásættanlegur þegar horft er að sögu Blikaliðsins í gegnum tíðina. Við höfum ekki áður tryggt okkur stöðu í topp tveimur tvö ár í röð. Hins vegar er því ekki að leyna að metnaður er að aukast hjá klúbbnum og forráðamenn liðsins stefndu að því að toppa árangur síðasta árs. Ljóst er að það mun ekki takast. En það er líka hraustleikamerki að ná í silfur annað árið í röð og vera hundfúlir með þann árangur.
Við getum byggt ofan á þennan árangur í sumar með því að styrkja liðið eitthvað og bæta umgjörðina enn betur. Við eigum fullt af efnilegum strákum sem eru að koma upp. Í hópnum í dag voru til dæmis tveir 16 ára drengir og einn 18 ára. Þótt þeir hafi ekki fengið tækifæri í leiknum þá sýnir þetta þann efnivið sem er fyrir hendi.
Einnig er bunki af leikmönnum sem er að guða á gluggann enda ljóst að Breiðablik hefur skapað sér nafn sem það lið sem opnað hefur á tækifæri fyrir unga og efnilega leikmenn til að spreyta sig í atvinnumennsku.
En nú er auðvitað markmiðið að fara í síðasta leikinn á heimavelli og leggja nýkrýnda Íslandsmeistara KR að velli. Það myndi lina sársaukann yfir þessu súrsæta silfri og þá myndu allir Blika fara brosandi inn í vetrarfríið!
-AP