Úr leik í bikarnum !!!
17.05.2017Byrjunarlið Blika: Gunnleifur (M) - Viktor - Michee - Damir- Davíð - Höskuldur - Arnþór- Andri-Aron - Martin - Sólon
Varamenn: Ólafur Íshólm (M) - Kolbeinn - Aron Kári - Willum - Gísli- Guðmundur - Ernir
Fyrri hálfleikur.
Fylkismenn voru miklu miklu miklu grimmari í fyrri hálfleiknum. Þar unnu þeir nær alla lausa bolta, tæklingar og skallabolta. Blikar áttu í stökustu vandræðum með að koma boltanum á samherja og nýttu heimamenn sér ítrekað með því að sækja hratt á okkar menn og sköpuðu usla í vörn Blikaliðsins hvað eftir annað. Breiðabilksliðið var mjög ósannfærandi frá öftustu varnarlínu og til fremsta manns. Vilhjálmur Alvar dómari var ekki að hjálpa þeim grænu (eða hvítklæddu). Ásgeir Börkur sjálfskipaður harðjaxl braut að ég held 6 sinnum af sér en slapp með gult enda ekkert að því að henda sér í tveggja fóta tæklingu aftan í mann. Blikar áttu að fá vítaspyrnu seint í hálfleiknum en á einhvern ótrúlegan hátt tókst dómurunum ekki að sjá þegar útileikmaður Fylkis varði með hendi.
V.Alvar var hinsvegar ekki lengi að dæma vítaspyrnu hinu megin þegar Damir braut af sér.
Staðan 1-0 í hálfleik þar sem þeir appelsínugulu skoruðu úr spyrnunni.
Einu leikmenn Breiðabliks sem gátu labbað inn í klefa vitandi að þeir voru að spila af eðlilegri getu voru þeir Gunnleifur og Höskuldur.
Síðari hálfleikur fór af stað á 45 mínútu og það sem er hægt að skrifa um hann er afskaplega keimlíkt því sem hefur verið ritað um síðustu leiki Breiðabliks. Það þarf ekkert að fjölyrða um það frekar. Liðið var taktlaust, jafnmikið bit í sóknarleiknum og í ánamaðki og gríðarlegt stress í öllum okkar aðgerðum.
Engin Evrópa að ári nema að kraftaverk muni eiga sér stað svo mikið er víst.
-GMS